Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008

Haltur hundur,harðsperrur og hetjudáðir.

Aumingja Goði er orðin haltur á hægri framlöpp. Við tókum eftir þessu einn daginn og vitum enga skýringu á þessu. Þegar hann stendur upp úr liggjandi stöðu haltrar hann í smá stund en síðan dregur úr því og á endanum fer það.  En um leið og hann leggst aftur stendur hann upp jafn haltur og áður.  Fórum á endanum með hann til dýralæknis sem skoðaði hann og sagði að líklega væri hann tognaður á löppinni.  Fékk bólgueyðandi töflur og fyrirskipað að taka því rólega í fimm daga.

Málaraverktakarnir (Krissi og Inga) vinna hörðum höndum að því að mála slotið á þverholti 7 og þó að gangi kannski pínu hægt þá er þetta allt að koma.  Eina sem við gleymdum að gera ráð fyrir var að hvorugt okkar er 17 ára ennþá og harðsperrurnar eftir að standa í stiga og mála  upp fyrir sig eru eitthvað sem ég myndi ekki óska mínum verstu óvinum.  En á endanum verður þetta búið og þá man engin hvort þetta tók eina viku eða 2 mánuði.  

Þegar við hjónin vorum í London í maí mánuði tókum við þá ákvörðun að ná okkur í hlaupaprógramm og stefna markvisst að því að taka þátt í reykjavíkurmaraþoninu í ár.  Nú þegar stutt er í fyrrnefnt maraþon hefur sá sem þetta skrifar ekki hlaupið í annað en spik á meðan að betri helmingurinn hljóp 8km í gær og hefur núþegar skráð sig í að hlaupa 10km í reykjavíkurmaraþoninu.  Ég verð að viðurkenna að mér finnst hún vera þvílík hetja og ég vildi óska þess að ég væri jafn duglegur og hún.

Lykilinn að þessu hjá henni er að hún fór hægt af stað og bætti við sig jafnt og þétt.  Ég er aftur á móti þessi gæi sem byrjar á að hlaupa 10km og er síðan rúmfastur Sick í viku með harðsperrur dauðans. 

Kv. Kej 


Berglaus vika.

Bergur fór í sumarbúðir og Þverholtið hefur því verið Berglaust í eina viku.  Afar, afar sérstakt ástand fyrir þá sem eru því ekki vanir verð ég að segja. Engin kvöldfótbolti, engar vangaveltur um eðli flugelda og engar vettvangsrannsóknir á skordýrum. Auk þess frí í hundaþjálfun og Goði greyið ráfar um hálf stefnulaus og veltir fyrir sér tilgangi lífsins. 

Húsráðendur fóru því á fullt þessa vikuna í að mála óðalið að utan og gengur þokkalega þó hægt fari. Byrjuðum á þakinu og þegar við vorum búin að grunna og rétt hálfnuð með að mála fyrri umferð sjáum við hvar skutbíll rennur upp að húsinu beint á móti og út stíga 2 málarar vopnaðir málningarsprautu.  Þeir voru síðan hálfan dag að gluða yfir þakið á meðan við hjónin djöfluðumst með málningarkústana og gott ef helvítinn glottu ekki til okkar Tounge þegar þeir príluðu niður af þakinu, við enn að tuddast með kústana á fyrri umferð.

Húsfrúin fór síðan einn daginn í málningarbúðina að sækja meiri málningu og beið eftir afgreiðslu í sínum málningarfötum með öllum sínum málningarslettum.   Á undan henni var ónefnt par í sínu fínasta pússi og voru þau að velja sér lit utan á húsið sitt.  Þegar þau höfðu komið sér niður á lit sögðu þau síðan við afgreiðslumanninn " Já og málarinn kemur svo í fyrramálið og sækir þennan lit". Það sauð náttúrulega á minni  Devil og eflaust hefur litlu munað að hún missti eitthvað óheppilegt út úr sér (sem hún er soldið gjörn á að gera þessi elska).

En maður getur ekki annað gert en að fara með gömlu möntruna um að maður sé á svo góðu tímakaupi og bla bla bla..Whistling  Annars fallast manni bara hendur í svona framkvæmdum.   

Kv. Kej.

 

 


Þjálfunar "update"

Í hundaþjálfuninni er aðaláherslan á samskipti Bergs og Goða þessa stundina.  Mesta baslið er að fá Berg til að haga sér samkvæmt teikningunni en hann er soldið gjarn á að detta í fíflagang og gleymir stundum að hann þarf að huga að Goða. Atli hefur látið Berg vera með nokkurskonar belti utan um sig miðjan með áföstum taumi sem festur er við hundinn.  Þetta hefur gefist nokkuð vel og á meðan Bergur er til í að vera með þetta hangandi utan um sig þá gengur þetta fínt.

Í síðasta tíma bað Atli um að fá að vinna með Berg og hundinn án þess að við værum með.  Það fór eins og við höfðum haldið að án foreldrana þá var miklu minna um kjánalæti í honum og tíminn gekk alveg glimrandi vel.  Ég verð að viðurkenna að ég var farinn að fá smá efasemdir Blush um að þetta væri að ganga hjá okkur því mér fannst Bergur vera svo erfiður í taumi og gjarn á að detta í fíflagang á æfingum.  Þegar hann var einn með Atla þá náði ég að sjá aðeins til þeirra úr launsátri og þá fannst mér ég eiginlega í fyrsta skipti sjá hvernig þetta gæti gengið upp. Þeir voru rosalega flottir saman og Goði virtist mjög meðvitaður um hlutverk sitt. 

Auðvitað er hellings vinna eftir og nokkuð langt í land með að upphafleg markmið okkar séu í höfn en ég held að óhætt sé að segja að við séum á ágætis róli með þetta allt saman. 

Kv. Kej 


Ferðasaga

Það var á myrku íslensku vetrarkvöldi sem undirbúningur fyrir sumarfrí 2008 hófst.  Okkur langaði til að fara í sumarhús í eina viku og skoðuðum hús víðsvegar um Danmörku.  Á endanum pöntuðum við hús við austurströnd Jótlands við bæin Ebeltoft.  Við sáum á kortum að í næsta nágrenni við þetta hús væri hægt að finna sér ýmislegt spennandi að gera eins og að heimsækja skemmtigarða, dýragarða eða bara að fara á ströndina.  Föstudaginn 27 júní hófst síðan þetta langþráða fjölskylduævintýri hjá okkur.Joyful 

Við tókum bílaleigubíl á Kastrup og byrjuðum á að keyra til Horsens þar sem við gistum fyrstu nóttina hjá honum Hansa eðaldreng. Við áttum sumarhúsið frá 28 júní en vegna mikilla bókanna í flug þann dag ákváðum við að fljúga út degi fyrr.  Hansi var  frábær gestgjafi og tók Berg og Gyðu einn rúnt um hverfið á vespunni sinni og komst við það í guðatölu hjá Bergi.  Það var líka gaman að koma í þennan margumtalaða bæ sem hýst hefur ansi margan  íslendinginn. 

Á laugardeginum tókum við síðan stefnuna á Ebeltoft með viðkomu í dýragarðinum í Givsgud sem er skammt utan við Horsens. Sá dýragarður var mjög flottur og hentaði okkur einstaklega vel þar sem  maður keyrir á eigin bíl í gegn um megnið af garðinum.  Þó eru tekin nokkur stopp og labbað ogMyndir 979 skoðað.  Þegar við keyrðum inn í ljónagarðinn var fílíngurinn svipaður og í jurassic park, slík var öryggisgæslan. Öryggiskröfurnar eru mjög strangar og að eðlilegum ástæðum er bannað að fara úr bílnum og alls ekki að opna glugga.  Ljónin röltu í hægðum sínum í kring um bílana og var þetta alveg magnað.  Bergur ákvað síðan að skoða þetta aðeins betur og renndi niður rúðunni hjá sér við  netta skelfingu annara bílverja.  Allt fór þó vel að lokum og við sluppum tiltölulega óétin úr dýragarðinum í Givsgud.

Fyrstu dagana okkar í sumarhúsinu í Ebeltoft var skýjað en hlýtt og við ákváðum að nota þá daga til að skoða Kattegatcentret sem er skemmtilegt sjávaradýrasafn þar sem m.a. má sjá aldeilid magnað hákarlabúr. Einnig fórum við í Djurs sommerland sem er frábær skemmtigarður með rússibönum, vatnagarði og öllu því sem gaman er að upplifa þegar maður er 7 og 13 ára.  Við fórum 2 daga í röð  í þennan garð og áttum frábærar stundir þar.

Restina af vikunni var síðan hitstig 30 plús og ekki ský á lofti og við skelltum okkur á stöndina.  Rétt fyrir neðan húsið okkar var ágæt strönd sem prófðum og í 10 mín keyrslu frá okkur var önnur frábær strönd þar sem við gátum vaðið langt út á þægilegum sandi.  Þar var synt, snorklað og flatmagað eins og hægt var. Bergur var ótrúlega góður við þessar aðstæður sem hingað til hafa ekki höfðað mikið til hans. Þrátt fyrir sólarvörn ,húfur og hatta þá sólbrunnu gömlu hjónin aðeins og á síðasta degi lögðum við ekki í ströndina en skelltum okkur þess í stað í Scandinavisk Dyrehave sem kom rækilega á óvart.  Mjög flottur og stór garður með skógarbjörnum, úlfum, ísbjörnum ofl. 

Á laugardeginum var síðan komin tími til að koma sér heim til íslands og þrátt fyrir skemmtilega viku voru allir tilbúnir að fara heim.  Við þurftum að skila af okkur húsinu kl. 10 um morguninn og áttum flug kl. 2230 um kvöldið. Við ákváðum því að keyra inn í Kaupmannahöfn og skoða okkur aðeins um þar. Kíktum á litlu hafmeyjuna og skoðuðum ráðhústorgið og tívolíð út um bílgluggann.

Fjölskyldan var síðan orðin vel þreytt þegar við vorum komin á Kastrup og biðum eftir fluginu okkar.  Við fengum ekki sæti saman í innrituninni og vorum búin að búa okkur undir að sitja í tvemur hollum í vélinni. Okkur til gríðarlegrar gleði var vinkona okkar hún Sigga flugfreyja um borð og hún stokkaði upp farþegarýminu á svipstundu og kom allri fjölskyldunni saman á besta stað um borð. Hún kom síðan með leikjastýripinna fyrir Berg og Gyðu og flugið heim varð af þessum orsökum frábært ævintýri sem leið hratt fyrir foreldra sem gengu á tómum vararafhlöðum. 

Við höfðum fyrir ferðina velt fyrir okkur hvort að við sem fjölskylda gætum verið saman þetta lengi án  utanaðkomandi aðstoðar.  Við fórum saman til Noregs sumarið 2004 og ætluðum okkur þá að vera í viku en gáfumst upp eftir 5 daga. 2007 fórum við síðan í vildarbarnaferð til Florida með öfluga aðstoðarmenn með  okkur og vorum í 10 daga. Nú var stefnan tekin á 8 daga saman og bara við og engin annar. 

Við erum sammála um að þessi ferð hafi tekist vonum framar og þjappað okkur saman sem fjölskyldu.  Minningarbankinn var fylltur af skemmtilegum minningum og Bergur og Gyða tókust á við ýmislegt sem eflaust á eftir að þroska þau og efla systkinaböndin.

Svo ekki sé minnst á hvað við áttuðum okkur á hvað rúmin, koddarnir, sængurnar og þvottavélin okkar eru æðisleg.  Heart

 

Kv. Kej 

 


Um bloggið

Inga Sveinbjörg Ásmundsdóttir
Inga Sveinbjörg Ásmundsdóttir

Þetta blogg er dagbók 4 manna fjölskyldu í Reykjanesbæ.

Upphaflega var hugmyndin með þessu bloggi að leyfa áhugasömum að fylgjast með framvindu þjálfunar á border collie hundi sem við fengum um árámótin 2008. Markmið þjálfunar var m.a. að kenna hundinum honum Goða að passa upp á hann Berg sem er einhverfur 13 ára drengur. Við vildum líka geta horft til baka og skoðað þetta aðeins í baksýnisspeglinum. 

Bloggið hefur síðan þróast aðeins  og hinar og þessar hugleiðingar hafa dottið hingað inn og ekkert endilega tengdar honum Goða sem bloggið er þó nefnt í höfuðið á. 

Allir þeir sem hafa áhuga á að fylgjast með okkur og jafnvel koma með innlegg eru velkomnir. Fjölskyldumeðlimir eru:

Kristinn Edgar Jóhannsson

Inga Sveinbjörg Ásmundsdóttir

Bergur Edgar Kristinsson

Gyða Sveinbjörg Kristinsdóttir

Goði Freyr Gyðuson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 25
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 25
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Myndaalbúm

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Teppi
  • Hetta
  • ...imag0101
  • ...090228_2_31
  • ...skur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband