29.12.2008 | 23:39
Sirkusinn er komin í bæinn !
Og þá er komið að því. Stóra stundin loks runnin upp. Núna er búið að opna fyrir sölu á flugeldum og engin hætta er á því að löggan komi og skammi mann fyrir að vera eitthvað að vesenast með flugelda.
Ég hafði ætlað að blogga aðeins þéttar um aðdragandann að þessum stóra degi í hjarta einhverfa unglingsins míns en það varð nú bara svo að þegar að fellybylurinn Bergur lenti á Þverholtinu af fullum þunga yfir jólahátíðina þá urðu bloggtækifærin álíka mörg og hárin á höfðinu á mér.
Hann Stúfur jólasveinn kom öllum á óvart á aðfangadag með því að setja pakka undir tréð sem minnti grunsamlega á lögun fjölskyldupakkanna frá björgunarsveitunum . Það kom síðan á daginn að sá grunur reyndist á rökum reistur og úr varð gríðarmikil hamingja. Að auki fékk Bergur í jólagjöf gjafapoka með allskonar flugeldadóti frá nágrönnunum í næsta húsi. Ekki varð hamingjan minni við það allt saman. Þessum tveimur gjöfum hefur Bergur síðan druslað með sér hvert sem hann fer, á klósettið, í bílinn, upp í rúm að sofa og bara hvert sem hann hefur farið.
Þegar að búið var að kveikja í flestu því sem var í gjafapokanum frá nágrannanum var Bergi svo boðið að koma yfir og velja sér meira flugeldadót í pokann sinn. Okkar maður var gríðarlega sáttur við þessa tilhögun og er nú alltaf að tala um hvað hún Erla hafi verið góð við hann.
En það eru líka fleiri sem eru góðir við hann Berg þessa dagana. Margir sem greinilega hafa orðið snortnir af þessum rosalega mikla flugeldaáhugamanni. Bergur hefur safnað peningum í rakettusjóð allt árið og hafa amma og afi verið dugleg að pota peningum í budduna hans. Hann hefur líka oft fengið óvæntar rakettugjafir á gamlárskvöld frá vinum hans héðan og þaðan. Við Beggi fórum í kvöld og heimsóttum flugeldasöluna hjá knattspyrnudeildinni hjá Keflavík. Við höfum yfirleitt byrjað á því að koma við hjá þeim á fyrsta söludegi og keypt eitthvað smáræði þar og farið síðan yfir til björgunarsveitanna og gert aðalinnkaupinn hjá þeim. Í fyrra bar svo við að Bergur mætti til K flugelda á fyrsta söludegi og heillaði alla viðstadda upp úr skónum með sínum einlæga áhuga. Seinna sama dag mætti síðan fulltrúi frá Keflavík til okkar á Þverholtið og færði Bergi og Gyðu mjög veglegar flugeldagjafir. Einungis vegna þess einlæga áhuga sem hann hafði sýnt á sölunni hjá þeim fyrr um daginn.
Í ár byrjuðum við hinsvegar á að fara í heimsókn til björgunarsveitanna og versluðum soldið við þá. Við vorum ekki alveg viss hvernig verðlag yrði í ár og hversu mikið við gætum verslað. Það er að sönnu töluvert hærra en í fyrra og við vorum eins hófstillt og við gátum leyft okkur að vera. En við ákváðum að fara samt sem áður til K flugelda og sjá hvað þeir væru með.
Þegar við mættum síðan til þeirra í kvöld þekktu allir sölumenn hann með nafni og höfðu á orði að þeir hefðu nú átt von á honum í gær. "Jæja ertu loksins komin" var sagt við hann og honum síðan færður að gjöf svakalega flottur kassi með alskonar rakettudrasli sem hægt er að dunda sér við í langan tíma. Þessi kassi hefur nú tekið sér stöðu við hlið gjafapokans og fjölskyldupakkans og liggur við hliðina á rúminu hans þegar hann fer að sofa.
Í fyrramálið er síðan búið að bjóða Bergi að koma í aðstöðuna hjá björgunarsveitinni í Grindavík og skoða hjá þeim flugeldalagerinn. Það verður án efa athyglisvert á alla kanta.
Kv.
Kej.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.