Ókleif fjöll.

Jæja ætli maður verði ekki að koma frá sér nokkrum línum svo að þeir moggamenn loki ekki bara þessum bloggræfli hjá okkur Crying.  Ég lærði það af Hávamálum í fjölbrautinni hérna í denn að ef maður hefur ekkert að segja sé réttast að þegja bara. Og þar sem mér fannst ég ekkert hafa að segja sem fólk hefði einhvern áhuga á að lesa, þá þagði ég bara.

En nú hefur aldeilis borið til tíðinda hjá okkur því að  laugardaginn þann 14. mars var fermdur í keflavíkurkirkju Bergur Edgar Kristinsson.  Þetta eru slík stórtíðindi að mér hefði ekki þótt neitt athugavert við að sjá fréttamenn frá bæði stöð 2 og ruv á staðnum W00t.

Það var í maí 2008 sem við byrjuðum að velta fyrir okkur þessum gerningi sem fermingin er.  Ætluðum við að ferma hann, hvar, hvernig, hjá hverjum og síðast en ekki síst, hvort það hreinlega væri hægt að koma drengnum í gegn um fermingarathöfn án þess að gera allt brjálað.  Við ákváðum að stefna á að ferma hann í keflavíkurkirkju en ekki með sínum skólafélögum.  Við vildum að hann fermdist einn og okkur langaði rosalega mikið að hafa einhverja athöfn sem gæti verið bæði persónuleg og líka hátíðleg.  En þekkjandi okkar mann þá var það eins  og hver annar fjarlægur draumur á þessum tímapunkti.  

 Við vorum alveg ákveðin í því að ef drengurinn ætti að ganga í gegn um kirkjulega fermingarathöfn þá skyldi hann fá fræðslu eins og önnur fermingarbörn.  Af ástæðum sem ég ætla ekki að tiltaka hérna þá ákváðum við að sækja ekki fermingarfræðslu til þeirra annars ágætu presta í keflavíkursókn og komum okkur í samband við hana séra Guðnýju Hallgrímsdóttur sem er prestur fatlaðra. Við höfðum ákveðið fyrsta fund með henni þann 25 september, eftir hádegi og þá ætluðum við að kanna hvort að við gætum unnið saman að þessu verkefni sem óx okkur svo mikið í augum. Um morguninn þennan sama dag fæ ég þær fréttir frá mínum vinnuveitanda að búið sé að leggja niður starfið mitt og mér þar með sagt upp störfum og þyrfti ekki að mæta meira til vinnu. Maður var því í ansi undarlegu hugarástandi á þessum fyrsta fundi Alien.  

Skemmst er frá því að segja að við fyrstu kynni féllum við öll kylliflöt fyrir henni Guðnýju og ekki síst hann Bergur.  Alveg einstök manneskja sem átti eftir að reynast okkur mjög vel þennan skrítna og erfiða vetur.Við ákváðum á þessum fundi að Bergur myndi sækja sína fermingarfræðslu inn í Öskjuhlíðarskóla með öðrum fermingarbörnum þar.  Bergur fór síðan með pabba sínum á þriðjudögum inn i Öskjuhlíð og fræddist um Jesú.  Þessar ferðir hjá okkur voru mjög góðar og þó svo að hann hafi ekkert alltaf verið í stuði með Guði þá gekk þetta oftast vel hjá honum.  Stundirnar á reykjanesbrautinni voru síðan ómetanlegar þar sem við gátum rætt saman um það sem Guðný hafði verið að tala um ásamt því að gera atlögu að lausn lífsgátunnar. 

Eftir áramótin var síðan komið að því að æfa athöfnina i kirkjunni.  Okkur Ingu langaði rosalega mikið til að fá að vera svona eins og "venjulegir" foreldrar og fá að sitja bara og fylgjast með fermingunni og kannski grenja smá líka.  Ekki vera í fullri vinnu við að reyna að toga hann upp að altari og passa að hann sparkaði ekki í prestinn.  Blush

Og þá var komið að honum Gylfa.  

Gylfi hefur verið stuðningsaðili við Berg í nokkur ár.  Hann hefur náð alveg ótrúlega vel til hans og hefur verið aðdáunarvert að fylgjast með þeirra samskiptum í gegn um tíðina.  Gylfi var til í slaginn þegar Inga spurði hvort hann vildi hjálpa  okkur í þessu verkefni. Hann tók síðan þetta hlutverk langt út fyrir  það sem við þorðum að vonast eftir og á algerlega skuldlaust heiðurinn af því hvernig til tókst í kirkjunni. 

Þegar við Inga vorum að velta fyrir okkur hvernig athöfn við vildum sjá þá var alltaf soldið erfitt að hugsa út fyrir raunsæið.  Bergur er bara þannig gerður að ákveðnir hlutir koma honum úr jafnvægi og eiginlega allt sem tengdist fermingunni var á þeim lista Devil.  Þannig að ef við litum á þetta raunsætt, þá var þetta bara ókleift fjall.  Hvernig átti að koma honum í spariföt án þess að vera með brækurnar girtar ofaní  sokka, hann gat ekki haft bindi, ekki verið í kyrtli án þess að brjálast úr pirringi.  Hvernig átti að koma honum inn í kirkjuna, upp að altarinu og að fara í gegn um athöfnina.  Hvernig átti að spila tónlist í kirkjunni án þess að hann færi að garga og hvernig átti svo að koma honum út úr kirkjunni fram hjá öllum gestunum án þess að gera einhvern skandal. Svo var veislan öll eftir og satt best að segja átti maður ekkert endilega von á að hann fengist til að koma í hana sjálfur og vorum við með backup plan að ákveðin aðili myndi þá fara með hann á rúntinn.  

Æfingar í kirkjunni gengu upp og ofan og fljótlega virtist myndast smá mynstur sem lýsti sér þannig að ef foreldrar voru að skipta sér af þá gekk illa en ef Gylfi fékk að ráða þá gekk vel.  Þannig að á síðustu tveimur æfingum héldum við okkur til hlés og þá allt í einu virtist eins og þetta gæti gengið. Halli Valli gítarsnillingur kom á síðustu æfinguna 2 dögum fyrir athöfn og virtist það ganga alveg ótrúlega vel.  Satt best að segja var ég ekki viss um að ég ætti að trúa þessu öllu sem Gylfi sagði því að ég hafði aldrei séð þetta ganga svona vel eins og hann sagði.   Við létum þetta því algerlega í hendurnar á Gylfa og leyfðum honum að ákveða fyrirkomulagið á athöfninni þ.e.a.s hvaða tónlist yrði spiluð, hvernig hún yrði flutt (gítar eða ipod) og hann sá alveg um að koma Bergi í kyrtil og inn í kirkju.  

Á fermingardaginn kom Gylfi síðan kl. 1330 og sótti Berg.  Þeir fóru síðan saman félagarnir alveg glerfínir.  Bergur hafði verið smá pirraður þegar ég var að klæða hann í jakkafötin en um leið og Gylfi birtist gufaði sá pirringur upp.  Við fórum síðan sjálf niður í kirkju um kl. 1400 og þorðum varla að fara inni í kirkjuna sjálfa.  Þegar við síðan gengum loks inn og sáum allt þetta góða fólk sem var mætt og drenginn okkar sitja með þessum frábæru vinum sínum Halla Valla og Gylfa og prestinn síðan sitja ferlega heimilislega á altarinu hjá honum þá kom það ansi sterkt við hjartað í okkur.  Ég er bara þannig gerður að ég tek allt það sem snýr að börnunum mínum alveg beint inn í hjartarót og á oft mjög erfitt með leyna tilfinningum mínum þegar þau eru annarsvegar.  Sem dæmi tók skírnarathöfnin hans Bergs frekar langan tíma þar sem pabbinn ætlaði bara ekki að geta hætt að grenja Whistling

Ég hafði því mjög miklar áhyggjur af því að ég myndi verða mér til algerrar og fullkominnar skammar í kirkjunni og grenja hástöfum.  Ekki bætti úr skák að eftir þennan mjög svo undarlega vetur var sálartetrið stútfullt af allskonar skrítnum tilfinningum sem ég hélt að myndu brjótast út við þetta tilefni.  Ég hélt í fullri alvöru að ég myndi bara springa á einhverjum tímapunkti. En sem betur fer gerðist það nú ekki og maður hélt svona nokkurn vegin haus.  En verð samt að viðurkenna að þegar minn maður kraup við altarið og sagðist vilja leyfa Jesú að vera vinur sinn alla ævi þá var þetta frekar mikið erfitt. 

Þessi dagur sem við höfðum kviðið svo mikið fyrir og í einlægni ekki átt von á að gæti gengið án skakkafalla varð að einhverjum æðislegasta degi sem við sem fjölskylda höfum átt saman.  Athöfnin fór fram úr okkar björtustu vonum, fermingarbarnið var til fyrirmyndar og tónlistarflutningur og annað var akkúrat eins og okkur hafði dreymt um.  Veislan var síðan mjög skemmtileg og við vorum sammála um að í veislusalnum hefði ríkt mjög góður andi Heart

Það er nefnilega ótrúlegt hvað hann Bergur á mikið af góðu fólki sem er tilbúið að koma til hjálpar og leggja sitt af mörkum þegar hann er annars vegar.  Þessi einstaki strákur hefur skilið eftir fótspor í hjörtum ansi margra sem hafa lagt sig fram um að kynnast honum í gegn um tíðina.  Og það er sannarlega mikils virði fyrir okkur foreldrana að fá að upplifa þennan einlæga og fölskvalausa hlýhug í hans garð og alla þessa samgleði frá vinum hans og ættingjum á svona degi.

Við segjum því kærar þakkir til allra þeirra sem hjálpuðu okkur að klífa þennan tind  sem okkur hafði virst ókleifur.   Það þarf sannarlega fólk eins og ykkur fyrir fólk eins og okkur.  Grin

Kveðja

Kristinn J

090228_2_31.jpg

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Elsku bróðir minn, þetta er alveg frábærlega vel skrifað hjá þér, alveg nákvæmlega eins og maður upplifði þennan dag, forréttindi að fá að hafa fengið að vera og upplifa þetta undur ,sem þessi dagur allur var, yndislegt alveg:)!

Bryndís Jóhannsdóttir (IP-tala skráð) 16.3.2009 kl. 19:02

2 identicon

Þessi dagur á eftir að fylgja okkur alla æfi,það var frábært að að vera viðstödd þessa athöfn sem var svo tilfynningarík og einlæg.Það er ekki annað hægt en að dáðst að honum Bergi og fjölskyldunni hans.Gott að geta fylgst með ykkur aftur hér á blogginu.kv Hildur og Leifur

Hildur og Leifur (IP-tala skráð) 18.3.2009 kl. 23:33

3 identicon

ótrúlega gaman að lesa bloggið ykkar og ekkert smá gaman að heyra allt gekk vel;) Hann er yndislegur hann Bergur og bræðir hjarta manns hehe ;)

Villa af Heiðarholti (IP-tala skráð) 20.3.2009 kl. 10:03

4 identicon

Þetta var frábær dagur og ég skældi eins og gömul kona í brúðkaupi! Takk fyrir að leyfa mér að vera hluti af þessum ógleymanlega degi í lífi Bergs og ykkar. Athöfnin var yndisleg og Bergur bræddi öll hjörtu á staðnum. Það var líka gaman að sjá samband hans við þessa frábæru ungu stráka sem hafa unnið með honum og hlýleikinn skein af prestinum. Allt myndaði þetta eina heild sem hefði ekki getað verið betri eða fallegri ( : Til hamingju með stóra strákinn!
Kv. HGG

Hulda (IP-tala skráð) 29.3.2009 kl. 11:21

5 identicon

það var svo frábært að upplifa þennan fermingardag hans Bergs okkar hann kom svo á óvart ,ekki í fyrsta sinn reyndar. Mér fanst svo gaman að sjá hvað hann hafði gaman af öllu sjálfur.Eins að sjá kærleikan til hans, hjá öllum sem þarna voru og hafa komið að honum í gegnum tíðina,það er mikil blessun þetta góða fólk ,hann snertir við öllum þessi frábæri strákur.Séra Guðny var svo afslöppuð og fín.Mér fanst það mjög góð stund þegar Bergur vann sinn fermingareið hátt og snjallt ,að hafa Jesú að besta vini sínum alla æfi.Ég held og trúi að Guð taki alltaf svona tilboði og mæti í málið og standi við hliðina og haldi utanum Berg allatíð eins og hans góðu foreldrar gerðu líka þegar þau ávörpuðu okkur öll í veislunni.Góður dagur!smá skæl en í lagi bara af gleði Amma Júlla

júlía sigurgeirsdóttir (IP-tala skráð) 30.3.2009 kl. 13:25

6 Smámynd: Sigrún Friðriksdóttir

Vááá ég sit hér og hágrenja, mest af gleði og líka af stolti og bara hvað þið eruð öll yndisleg. Þvílíkt flottur dagur sem þið hafið fengið, ég veit að vinna var mikil en eins og allt sem þið gerið gerið þið með heilum hug og stundum útslitnu hjarta !! Ég bið forláts á að hafa ekki fylgst með hjá ykkur undanfarið og fékk ekki með mér að aðaltöffarinn hann Bergur væri að fermast í ár, en það eru ástæður fyrir því sem þarf ekkert að fara út í hér.

Mig langar bara að þakka fyrir að hafa fengið að vera með ykkur þennan dag og undanfara hans í þessu lestri og auðvitað óska ykkur innilega til hamingju með þennan ótrúlega flotta strák sem þið eigið.

Ástarkveðjur frá matmanninum og frú, ég er svo stolt af að þekkja fólk eins og ykkur !!!!

Sigrún Friðriksdóttir, 2.5.2009 kl. 19:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Inga Sveinbjörg Ásmundsdóttir
Inga Sveinbjörg Ásmundsdóttir

Þetta blogg er dagbók 4 manna fjölskyldu í Reykjanesbæ.

Upphaflega var hugmyndin með þessu bloggi að leyfa áhugasömum að fylgjast með framvindu þjálfunar á border collie hundi sem við fengum um árámótin 2008. Markmið þjálfunar var m.a. að kenna hundinum honum Goða að passa upp á hann Berg sem er einhverfur 13 ára drengur. Við vildum líka geta horft til baka og skoðað þetta aðeins í baksýnisspeglinum. 

Bloggið hefur síðan þróast aðeins  og hinar og þessar hugleiðingar hafa dottið hingað inn og ekkert endilega tengdar honum Goða sem bloggið er þó nefnt í höfuðið á. 

Allir þeir sem hafa áhuga á að fylgjast með okkur og jafnvel koma með innlegg eru velkomnir. Fjölskyldumeðlimir eru:

Kristinn Edgar Jóhannsson

Inga Sveinbjörg Ásmundsdóttir

Bergur Edgar Kristinsson

Gyða Sveinbjörg Kristinsdóttir

Goði Freyr Gyðuson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Myndaalbúm

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Teppi
  • Hetta
  • ...imag0101
  • ...090228_2_31
  • ...skur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband