17.4.2009 | 10:14
Kreppa 101
Þann 1 apríl síðastliðinn lauk hjá mér mjög skrítnu ferðalagi. Þetta ferðalag hófst 25 september kl. 10:00 að morgni og lauk eins og áður sagði á sprelldaginn sjálfan 1. apríl kl. 05:30 að morgni. Það sem gerði þetta ferðalag svona frábrugðið hefðbundnum ferðalögum var m.a. að það fór að mestu leiti fram í rússíbana og hossið tók 6 mánuði . Á einhvern undarlega hátt var það svolítið viðeigandi að þessu ferðalagi skyldi hafa lokið á þessum degi, vantaði bara að einhver hefði slegið hressilega á bakið á mér og sagt: djóoooook, 1.apríl.
Ef einhver skyldi ekki núþegar vera búin að ráða í þessa eitruðu myndlíkingu hjá mér þá er ég semsagt að tala um það þegar ég varð atvinnulaus á haustmánuðum 2008 korteri fyrir hrun.
Það er undarleg upplifun að vera sagt upp störfum. Ég þóttist vita að einhverra breytinga væri að vænta á þessum tíma og kreppudraugurinn hafði þá þegar litið við í flestum deildum fyrirtækisins með miður skemmtilegum afleiðingum. Ég hafði því búið mig undir breytingar og jafnvel einhverri skerðingu á starfshlutfalli og launum. En í mínum villtustu martröðum átti ég ekki von á því að standa uppi atvinnulaus og hafa ekki í neina vinnu að sækja. Það varð samt raunin og þar með hófst þessi undarlega rússíbanareið sem lagði undir sig hjá okkur veturinn 2008/09.
Á þessum tíma var verið að segja upp fólki mjög víða i þjóðfélaginu og margir urðu líka að taka á sig launaskerðingar. Menn tóku þessum áföllum með misjöfnum hætti, margir áttu mjög erfitt með að sætta sig við það sem var að gerast og skyldi kannski engan undra. Ég sá menn sem allt að því buguðust og ég sá líka menn sem urðu alveg ofboðslega reiðir og bitrir. Viðbrögð hvers og eins við þessum áföllum höfðu síðan smitandi áhrif á þeirra nánasta umhverfi. Makar og börn sýktust af biturleika og vonbrigðum sem síðan dreifði sér yfir í nám og vinnu hjá viðkomandi. Þetta sá ég gerast í kring um mig og ég vissi alveg að hætta væri á að gerðist hjá mér.
Þegar ég var í bílnum mínum á leiðinni heim af þessum örlagaríka fundi var bara ein hugsun sem komst að. Ég skyldi ekki leyfa þessum neikvæðu fréttum að draga fjölskylduna mína niður í fen reiði og vonleysis. Inga var nýlega byrjuð í háskólanámi sem hún var búin að stefna að í mörg ár og ég vissi alveg að ef ég héldi ekki rétt á spilunum þá væri mikil hætta á að hún flosnaði upp úr því námi. Hún á það til að láta þá bræður kvíða og áhyggjur taka völdin af þeim systkinum skynsemi og raunsæi og þá er voðin vís. Það var því algert forgangsatriði að fara í gegn um þetta tímabil, hversu lengi sem það stæði, án þessa að hún missti tökin á þeirri tilveru sem hún var að reyna að skapa sér.
Um það bil viku eftir að mér hafði verið sagt upp hrundi síðan bankakerfi landsins og allt í einu var vont ástand farið að líta mun verr út og fór aðeins versnandi. Allur fréttaflutningur á þessum tíma dró mjög úr okkur kjark og bjartsýni og svo fór að við ákváðum að hætta að leyfa þessu neikvæða fréttaflutningi dag eftir dag að koma með alla þessa neikvæðu strauma inn á heimili okkar. Að sjálfsögðu fylgdumst við með hvað var að gerast en hættum að láta fréttirnar dynja á okkur daginn út og inn. Við tókum þann pól í hæðina að nú væru einhverjir hlutir að gerast sem við áttum enga sök á og gætum lítil áhrif haft á.
Til að bæta gráu ofan á svart vorum við búin að ákveða að fara til Minneapolis einmitt í vikunni sem allt hrundi og krónan var í frjálsu falli. Við byrjuðum á að fresta þeirri ferð um viku en ákváðum síðan að láta bara vaða og stinga af úr þessu rugli öllu saman og reyna að ná einhverri skynsemissýn á það sem var að gerast hjá okkur. Sú ákvörðun að kúpla okkur út úr ruglinu hér heima á þessum tímapunkti reyndist algerlega frábær. Strax í flugvélinni á leiðinni út fann ég hversu mikið við þurftum á þessu að halda. Í Minneapolis náðum við að stilla upp smá hernaðaráætlun fyrir það sem framundan var og tala okkur saman um þessa undarlegu stöðu sem upp var komin.
Næstu vikur voru síðan rosalega upp og niður, út og suður og mikið tilfinningarúss . Það var skrítið að finna hvernig smá saman maður aftengdist þessu vaktakerfislífi og allt í einu var ég ekki viss hvaða dagur var í dag og hvort það væri helgi eða virkur dagur. Ég er búin að vera svo lengi í vaktavinnu að sú breyting var mjög áþreifanleg. En einhvernvegin vandist það og lífið hélt áfram þrátt fyrir allar hrakspár um annað í flestum fjölmiðlum landsins.
Eitt af því sem ég kveið fyrir var desembermánuður og allt það sem honum fylgdi. Þessi mánuður sem vanalega kemur með svo margt skemmtilegt með sér. Ég var hreinlega ekki viss um hvað desember 2008 bæri í skauti sér miðað við alla þá bölsýni og neikvæðni sem var í loftinu á þessum tíma. Reyndin varð þó sú að árið 2008 upplifði ég einhver bestu jól og áramót með börnunum mínum frá því að þau fæddust. Ég hafði aldrei áður átt svona mikinn tíma með þeim og getað tekið svona mikinn þátt í aðventunni og öllum undirbúningnum. Áramótin með rakettukallinum mínum voru líka alveg geggjuð í orðsins fyllstu merkingu .
Það urðu líka breytingar hjá Ingu á þessu tímabili þar sem enga vinnu var að fá og allt í eymd og volæði. Hún bætti við sig kennslu hjá miðstöð símentunnar og var síðan ráðin í fulla vinnu sem umsjónarmaður fjarnema í háskólabrúnni hjá Keili. Í framhaldinu hætti hún í sínu gamla starfi sem kennari við Holtaskóla Þannig að núna var konan mín sem hafði minnkað við sig vinnu til þessa að geta sinnt háskólanámi í stærðfræði, komin í eina og hálfa vinnu ásamt því að vera í námi. Og allt í einu var bara assgoti gott að vera með svona heimavinnandi húsfaðir til að sjá um heimili og börn á meðan að konan sá um að draga björg í bú.
Eftir áramótin var mér farið að finnast þetta alveg ágætt. Að vera heima að sjá um heimilið, taka á móti Gyðu þegar hún kom heim úr skólanum. Hjálpa henni með heimanámið og koma henni svo í fimleika eða út í hesthús. Þvo þvott, taka til og þrífa, fara í búð, elda eitthvað fyrir kvöldmatinn osfrv. Við fórum í ótal sleðaferðir, pabbinn bakaði bananabrauð í nesti og tókum gjarnan strákana úr næsta húsi með. Á þessum tíma var ég líka komin með vilyrði fyrir vinnu með vorinu og var því laus við mestu óvissuna sem var það sem einna erfiðast var að eiga við. Stundum var ég ekki viss um að mér mætti finnast þetta vera fínt því þetta stríðir gegn flestum normum sem segja að karlmenn eigi að vera útivinnandi og eigi að finnast húsverk leiðinleg. Það komu líka dagar þar sem mér fannst tilbreytingarleysið svolítið erfitt og þá var ekkert annað að gera en að hringja í vinina og skipuleggja smá hitting. Það dugði fínt til að hlaða aðeins batteríin.
Ég passaði mig líka á því að halda rútínu allan veturinn, vakna kl. 07:00 og fara að sofa fyrir miðnætti. Notaði svo morgnana í að labba með Goða eða fara í ræktina. Ég passaði mig líka á að forðast flest það sem kallaði fram neikvæðni eins og áfengi og óhoflegt sjónvarps eða tölvuhangs. Öll þessi smáatriði gerðu það að verkum að geðheilsan er að koma nokkurn veginn óbrotin undan vetri. Auðvitað tókst þetta ekkert alltaf og suma daga var maður bara hundfúll og hundleiðinlegur og nennti ekki neinu. Var jafnvel ógeðslega fúll út í allt og alla og fannst maður eiga rosalega bágt. En slíkir dagar voru í miklum minnihluta og stóðu stutt yfir þegar þeir komu.
Þegar nær dró þeim degi sem ég átti að fara aftur í vinnu fór ég að finna fyrir smá kvíða fyrir því að brjóta þessa rútínu sem við vorum komin með á fjölskyldulífið okkar. Auðvitað var ómögulegt að vera á atvinnuleysisbótum en fjölskyldulega og heimilislega var þetta bara ágætt. Mér fannst ég að mörgu leyti vera að yfirgefa börnin mín með því að fara á vinnumarkaðinn aftur nú þegar að Inga var komin í meiri vinnu og í námi. Ég var líka með blendnar tilfinningar gagnvart því að fara aftur að vinna við þetta starf sem ég hafði sinnt einhverjum 8 árum áður. Það var á þeim tíma mjög erfitt og vanþakklátt starf og ég var svo sem ekkert að deyja úr spenningi að hverfa aftur til þess tíma. En svo fór að þann 1. apríl mætti ég aftur í vinnu hjá IGS.
Það var mjög undarlegt að labba aftur inn í flugstöðina og hitta allt það fólk sem þar vinnur og átta sig á því að ég væri komin aftur inn á þennan stóra vinnustað. Satt best að segja var ég um tíma ekkert viss hver mín staða var gagnvart þessum vinnustað og hafði alveg hugleitt það hvort að þessu tímabili í mínu lífi væri kannski bara lokið. Fyrsti dagurinn í vinnunni eftir þetta 6 mánaða frí tók alveg ótrúlega mikla orku frá mér en samt gerði ég eiginlega ekkert annað en að flækjast um stöðina og fylgjast með. Þegar ég kom heim um kvöldið var ég svo gjörsamlega þurrausinn allri orku og var farinn að hvæsa á allt og alla um kl. hálf níu. Það fór gjörsamlega allt í taugarnar á mér og ég var tilbúin að rífast yfir öllu . Þá skipaði konan mín mér inn í rúm og sem betur fer hlýddi ég því og var svo sofnaður nokkru áður en höfuðið hitti koddann.
Þannig að núna er að hefjast nýtt tímabil í lífi litlu fjölskyldunnar okkar. Tímabil þar sem við Inga verðum útivinnandi í allt sumar og eigum í fyrsta sinn í nokkuð langan tíma ekki rétt á neinu sumarfríi. Ég er líka lausráðin í þeirri vinnu sem ég er í núna og veit svo sem ekki hvað tekur við að hausti. Við höfum þurft að undirbúa okkur og setja upp áætlum um hvernig við ætlum að tækla þetta tímabil sem framundan er á sama hátt og við töluðum okkur saman um hvernig við ætluðum að mæta tímabili atvinnuleysis í vetur. Staðan í þjóðfélaginu er einfaldlega þannig að hver og einn þarf að synda sitt björgunarsund í gegn um þennan ólgusjó sem þjóðarskútunni var sökkt í. Við erum ekkert undanskilin þar og gerum okkur alveg grein fyrir því. Við ætlum okkur í gegn um þetta tímabil með reisn og bara leyfa hverjum degi að nægja sína þjáningu.
Kv.
Kej.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.