Að vera atvinnulaus.

Það er afar sérstök upplifun að vera atvinnulaus.  Ég hef svosem upplifað það áður á yngri árum að ganga í gegn um atvinnuleysistímabil en það breytir óneitanlegu nokkuð miklu um slíka stöðu að vera komin með þær skuldbindingar sem fylgja því að reka fjölskyldu. Í vetur var ég atvinnulaus í c.a. 6 mánuði og það eru margir vinklar á slíku ástandi sem vert er að skoða.

 Það er mjög mikilvægt við slíkar aðstæður að vera eins raunsær og hægt er og missa ekki sýnar á heildarmyndinni.  Í upphafi var staðan ekkert verri en þannig hjá mér að ég þurfti ekki að mæta í vinnu en var þó enn á launum næstu 4 mánuðina.  Ég gat því verið svona bara eins og Lýður í Lotto auglýsingunum og setið heima með kaffibolla og keypt mér hurð á e-bay.  í 4 mánuði þ.e.a.s. Eftir þann tíma yrði þetta þó gjörbreytt og erfiðast fannst mér að gleyma mér ekki í svartsýnishugsunum yfir því hver staðan yrði að loknum uppsagnarfrestinum.  

Óvissan var það langerfiðasta á þessum tíma og ekki bætti neitt úr skák að allt í kring um okkur virtist veröldin vera að hrynja eins og spilaborg og ekkert af því sem maður hafði áður þekkt sem öruggt gat nú talist tryggt. Þetta tók langmest á og var langerfiðast að sjá í jákvæðu ljósi.  Í byrjun desember fékk ég síðan ákveðið vilyrði um vinnu með vorinu og bara það að hafa eitthvað annað en algera óvissu um framtíðina létti alveg ótrúlega mikið af okkur áhyggjum. Það var þó eitthvað sem hægt var að horfa til og mátti líkja þessu sem litlu vonarljósi sem hengt hafði verið upp á dagsetninguna 1. apríl. 

Það er merkilegt hvað það markar okkur mikið að hafa vinnu.  Það fyrsta sem þú spyrð einhvern sem þú hefur ekki séð lengi er: "og hvað ertu að gera þessa dagana, hvar ertu að vinna ?"  Reyndar var stemmingin í þjóðfélaginu í vetur þannig að það var eiginlega lítið hægt að skammast sín fyrir að vera atvinnulaus.  Það voru bara svo margir í þeirri stöðu og svo lítið framboð af vinnu að samfélagið gat ekki annað en samþykkt þá stöðu að vera án atvinnu.  En mér fannst það samt erfitt og leið aldrei vel þegar ég þurfti að svara slíkum spurningum. 

Og það voru fleiri en ég sem leið þannig.  Ég man eftir einu atviki þegar ég og Gyða vorum stödd inni í bakaríinu á Fitjum að fá okkur snúð og með því . Þá sé ég þar einn gamlan vinnufélaga frá fyrri tíð.  Og að sjálfsögðu spyr ég hann hvað sé að frétta, hvað hann sé að gera.  Hans fyrsta svar var að segja mér að hann væri nú með þetta fyrirtæki og hann hefði þessa viðskiptavini og nefndi nokkur nöfn á stórum fyrirtækjum.  Hann sagði mér þetta með krepptar axlir og samanbitna kjálka. Eftir því sem á leið okkar samtal kom þó í ljós að fyrirtækið sem í upphafi samtals var í miklum blóma reyndist í raun vera með hann einan sem starfsmann og allir hans viðskiptavinir höfðu sagt upp samningum.  Hann var því líkt og ég með ekkert að gera að fá sér snúð og með því.  En stoltið var svo mikið að hann fékk ekki af sér að segja mér hvernig staðan væri í raun þegar við fyrst tókum tal saman.  Mér fannst þetta nokkuð mögnuð upplifun að sjá hvað það er manneskjunni mikils virði að vera eitthvað annað en bara hún sjálf. Að geta tengt sig við einhverja vinnu sem manni finnst vera mikilsverð. 

Annar vinkill á þessu og að mörgu leiti af svipuðum toga er mín staða gagnvart fjölskyldunni minni. Ég man vel þegar ég missti vinnuna að ég hugsaði mikið um hvað ég ætti að segja krökkunum mínum.  Í þeirra huga var pabbi aðalmaðurinn í flugstöðinni og án hans var óhugsandi að flugsamgöngur gætu gengið eðlilega til og frá landi.  Allt í einu væri pabbi síðan bara óþarfur og það var erfiður biti að kyngja.  Ég frestaði því aftur og aftur að segja þeim frá hvað væri að gerast þar til að Gyða spurði mig einn daginn: "pabbi þú ferð eiginlega aldrei í vinnuna lengur ".  Þá varð þessu ekki frestað lengur.  Ég sagði henni að pabbi ætlaði bara að vera í fríi í vetur og vera heima með henni og Bergi.  Það fannst henni bara fínt og spurði ekkert meira um þetta.  

Núna þegar ég er aftur komin með vinnu í flugstöðinni lét ég það verða mitt fyrsta verk að bjóða henni  með í vinnuna mína.  Ég var á minni fyrstu næturvakt þar sem ég var einn og óstuddur um daginn og tók Gyðu því með mér í vinnuna.  Fékk fyrir hana aðgangsheimild inn á svæðið og svo fórum við saman um alla flugstöðina og skoðuðum og prófuðum allt sem 8 ára stelpu finnst vera spennandi.  Að öllu öðru ólöstuðu voru það hlaupahjólin sem unnu hug hennar og hjarta. Ég meina hversu svalt er það að vera í vinnu þar sem maður getur leikið sér á hlaupahjóli allann daginn ? Ekki hægt að toppa það.  Það var því ákaflega ánægð og ég held bara stolt lítil stelpa sem fór heim það kvöldið og aftur er pabbi orðin aðal í flugstöðinni.  Cool  Mig langar síðan að reyna að gera eitthvað svipað fyrir Berg en það krefst aðeins öðruvísi nálgunar. 

Annað sem kom mér svolítið á óvart eru félagslegu áhrifin.  Vinnustaðurinn er að mörgu leyti eins og lítil félagsmiðstöð.  Reyndar svolítið stór félagsmiðstöð í mínu tilviki, en þið skiljið hvað ég meina.  Við hittum fólk á hverjum degi og eigum við það samskipti.  Æfum okkur í að umgangast aðrar manneskjur og lærum á hverju degi eitthvað nýtt um mannlegt eðli.  Þegar þetta dettur út er strax komin smá einangrun og það fer siðan eftir hverjum og einum hvernig gengur að takast á við slíkt.  Ég hafði krakkana mína og mína frábæru konu til að tala við.  Ég á líka æðislega nágranna sem ég átti við samskipti.  Og svo kom eitt nýtt element inn í þetta mix sem er samskiptavefurinn Facebook.  Þvílík og önnur eins snilld.  Facebook var eins og lítill gluggi út úr þessari einangrun og þar gat maður fylgst með og átt samskipti við fullt af fólki og m.a. frá gamla vinnustaðnum.

  En auðvitað kemur Facebook aldrei í staðin fyrir samskipti maður á mann.  Og það kom mér aðeins á óvart hvað það hafði mikil áhrif.  Man sérstaklega eftir þegar ég fór með Ingu á árshátíð Keilis.  Ég hafði ekki farið mikið út á lífið þegar að þessu kom og var þarna að fara að hitta fullt af fólki sem ég hafði ekki hitt áður.  Eðlilega vill maður koma vel fyrir á slíkum stundum og ekki vera frúnni mikið til skammar.  Allt kvöldið var ég að reyna að slá upp samræðum við fólk en mér fannst ég vera alveg ótrúlega klaufalegur og sífellt að segja eitthvað vitlaust.  Ég fann mjög sterkt þetta kvöld hvað ég var að detta úr æfingu við að umgangast fólk.  

Ég veit um menn sem misstu vinnuna á svipuðum tíma og hafa ekki í neina fjölskyldu að sækja.  Eiga ekki vini sem þeir umgangast reglulega og eiga jafnvel ekki tölvu til að stytta sér stundir.  Af þessum mönnum hef ég mjög miklar áhyggjur og vil beina því til allra sem þekkja slík dæmi að vera vakandi yfir þessum einangrunarþætti atvinnuleysis og gera það sem hægt er til að rjúfa þannig vítahring. 

Þegar að því kom að ég átti að fara aftur á vinnumarkaðinn kom það mér aðeins á óvart að mig kveið aðeins fyrir þvi að hætta í þeirri rútínu sem á lífið var komin. Þetta var svona þægindahringur sem hafði alveg sína kosti, þurfa ekki að vakna eitthvað extra snemma og eiga hluta dagsins alveg fyrir sig.  Hafði líka áhyggjur af krökkunum mínum sem höfðu í vetur notið þess öryggis sem fylgir því að hafa alltaf einhvern heima.  Það er örugglega bein fylgni á milli þess hversu lengi maður er án atvinnu og hversu erfitt er að fara aftur af stað. Núna heyrir maður af því að það séu einhver láglaunastörf í boði hjá vinnumálastofnun sem erfiðlega gangi að manna. Margir eru ægilega hneykslaðir á því og telja þetta til marks um að það séu bara aumingjar sem nenna ekki að vinna á  atvinnuleysisbótum.  Eftir mína upplifun þá get ég alveg skilið það fólk sem á erfitt með að fara af stað í einhverja vinnu sem það langar ekkert til að vinna við og gefur því ekkert annað en svipaðan krónufjölda og bæturnar eru.  Ég bið fólk um að vera ekki of fljótt að dæma þá sem eru að þiggja atvinnuleysisbætur. 

Lykiltatriði í þessu öllu saman er að fá að halda sinni mannlegu reisn.  Lífið er svo mikið meira en bara launaseðillinn.  Það er svo miklu meira fólgið í því að vera vinnandi maður  en bara hvað þú færð í launaumslagið.  Við þurfum auðvitað öll að standa skil á okkar skuldbindingum og öll viljum við geta veitt fjölskyldum okkar helstu nauðsynjar og kannski aðeins meira þegar svo ber við.  En það er mér ótrúlega mikilvægt geta horft framan í fjölskyldu mína og vini með stolti og finnast ég vera einhvers virði og þá er ég ekki að tala verðmæti sem mæld eru í krónum. 

 

Kv.

Kej

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Inga Sveinbjörg Ásmundsdóttir
Inga Sveinbjörg Ásmundsdóttir

Þetta blogg er dagbók 4 manna fjölskyldu í Reykjanesbæ.

Upphaflega var hugmyndin með þessu bloggi að leyfa áhugasömum að fylgjast með framvindu þjálfunar á border collie hundi sem við fengum um árámótin 2008. Markmið þjálfunar var m.a. að kenna hundinum honum Goða að passa upp á hann Berg sem er einhverfur 13 ára drengur. Við vildum líka geta horft til baka og skoðað þetta aðeins í baksýnisspeglinum. 

Bloggið hefur síðan þróast aðeins  og hinar og þessar hugleiðingar hafa dottið hingað inn og ekkert endilega tengdar honum Goða sem bloggið er þó nefnt í höfuðið á. 

Allir þeir sem hafa áhuga á að fylgjast með okkur og jafnvel koma með innlegg eru velkomnir. Fjölskyldumeðlimir eru:

Kristinn Edgar Jóhannsson

Inga Sveinbjörg Ásmundsdóttir

Bergur Edgar Kristinsson

Gyða Sveinbjörg Kristinsdóttir

Goði Freyr Gyðuson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Myndaalbúm

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Teppi
  • Hetta
  • ...imag0101
  • ...090228_2_31
  • ...skur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband