Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008
29.12.2008 | 23:39
Sirkusinn er komin í bæinn !
Og þá er komið að því. Stóra stundin loks runnin upp. Núna er búið að opna fyrir sölu á flugeldum og engin hætta er á því að löggan komi og skammi mann fyrir að vera eitthvað að vesenast með flugelda.
Ég hafði ætlað að blogga aðeins þéttar um aðdragandann að þessum stóra degi í hjarta einhverfa unglingsins míns en það varð nú bara svo að þegar að fellybylurinn Bergur lenti á Þverholtinu af fullum þunga yfir jólahátíðina þá urðu bloggtækifærin álíka mörg og hárin á höfðinu á mér.
Hann Stúfur jólasveinn kom öllum á óvart á aðfangadag með því að setja pakka undir tréð sem minnti grunsamlega á lögun fjölskyldupakkanna frá björgunarsveitunum . Það kom síðan á daginn að sá grunur reyndist á rökum reistur og úr varð gríðarmikil hamingja. Að auki fékk Bergur í jólagjöf gjafapoka með allskonar flugeldadóti frá nágrönnunum í næsta húsi. Ekki varð hamingjan minni við það allt saman. Þessum tveimur gjöfum hefur Bergur síðan druslað með sér hvert sem hann fer, á klósettið, í bílinn, upp í rúm að sofa og bara hvert sem hann hefur farið.
Þegar að búið var að kveikja í flestu því sem var í gjafapokanum frá nágrannanum var Bergi svo boðið að koma yfir og velja sér meira flugeldadót í pokann sinn. Okkar maður var gríðarlega sáttur við þessa tilhögun og er nú alltaf að tala um hvað hún Erla hafi verið góð við hann.
En það eru líka fleiri sem eru góðir við hann Berg þessa dagana. Margir sem greinilega hafa orðið snortnir af þessum rosalega mikla flugeldaáhugamanni. Bergur hefur safnað peningum í rakettusjóð allt árið og hafa amma og afi verið dugleg að pota peningum í budduna hans. Hann hefur líka oft fengið óvæntar rakettugjafir á gamlárskvöld frá vinum hans héðan og þaðan. Við Beggi fórum í kvöld og heimsóttum flugeldasöluna hjá knattspyrnudeildinni hjá Keflavík. Við höfum yfirleitt byrjað á því að koma við hjá þeim á fyrsta söludegi og keypt eitthvað smáræði þar og farið síðan yfir til björgunarsveitanna og gert aðalinnkaupinn hjá þeim. Í fyrra bar svo við að Bergur mætti til K flugelda á fyrsta söludegi og heillaði alla viðstadda upp úr skónum með sínum einlæga áhuga. Seinna sama dag mætti síðan fulltrúi frá Keflavík til okkar á Þverholtið og færði Bergi og Gyðu mjög veglegar flugeldagjafir. Einungis vegna þess einlæga áhuga sem hann hafði sýnt á sölunni hjá þeim fyrr um daginn.
Í ár byrjuðum við hinsvegar á að fara í heimsókn til björgunarsveitanna og versluðum soldið við þá. Við vorum ekki alveg viss hvernig verðlag yrði í ár og hversu mikið við gætum verslað. Það er að sönnu töluvert hærra en í fyrra og við vorum eins hófstillt og við gátum leyft okkur að vera. En við ákváðum að fara samt sem áður til K flugelda og sjá hvað þeir væru með.
Þegar við mættum síðan til þeirra í kvöld þekktu allir sölumenn hann með nafni og höfðu á orði að þeir hefðu nú átt von á honum í gær. "Jæja ertu loksins komin" var sagt við hann og honum síðan færður að gjöf svakalega flottur kassi með alskonar rakettudrasli sem hægt er að dunda sér við í langan tíma. Þessi kassi hefur nú tekið sér stöðu við hlið gjafapokans og fjölskyldupakkans og liggur við hliðina á rúminu hans þegar hann fer að sofa.
Í fyrramálið er síðan búið að bjóða Bergi að koma í aðstöðuna hjá björgunarsveitinni í Grindavík og skoða hjá þeim flugeldalagerinn. Það verður án efa athyglisvert á alla kanta.
Kv.
Kej.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.12.2008 | 13:50
10 ár og 10 dagar
Síðustu 10 ár eða svo hefur Desember mánuður verið erfiðasti mánuður ársins. Án nokkurs vafa. Aðdragandi jóla og ekki síst áramóta hefur nánast undantekningarlaust kallað fram flogaköst hjá Bergi og hann hefur alltaf átt mjög erfitt með að höndla þá spennu sem fylgir öllu stússinu. Þegar hátíðin gengur svo í garð með öllum sínum jólaboðum og jólahefðum hefur lífið hjá þessari litlu fjölskyldu oft á tíðum verið mjög erfitt. Litli maðurinn áttaði sig aldrei á því að á jólunum ætti maður að haga sér eftir einhverri forskrift og að úr jólafríinu ætti fólk að koma úthvílt.
Þau eru ótal vonbrigðin sem maður getur rifjað upp, jólaboð sem fóru í vaskinn. Spilakvöld sem ekki var hægt að taka þátt. Sjónvarpsefni sem ekki var hægt að fylgjast með og hvíld sem ekki náðist. Oft voru það þreyttir og allt að því bugaðir einstaklingar sem mættu aftur í vinnu eftir jólafrí og vissu ekki hvernig þeir áttu að svara klassísku spurningunni: "Hafðir þú það ekki fínt í fríinu ?".
Ég man eiginlega ekki eftir jólum síðustu c.a. 10 árin þar sem við höfum náð að njóta jólanna og upplifa jólastemmingu eins og kannski flestir gera ráð fyrir að gera. Ég hef áður komið inn á þann punkt að allt snýst þetta um hvaða væntingar maður gerir til jólanna og reyndar lífsins sjálfs. Fyrstu árin fórum við inn í jólin með þær væntingar að við fengjum svipaða upplifun af jólunum og hefð var fyrir áður en að Bergur fæddist. En eitt árið tókum við meðvitaða ákvörðun saman um að hætta að gera þessar óraunæfu væntingar sem aldrei stóðust hvort eð er og lækka væntingarránna niður í hæðina hans Bergs. Eftir það breyttist mikið hjá okkur, jólaboðin urðu ekki eins erfið, samt aldrei létt og vonbrigðin urðu ekki eins mikil, en samt alltaf einhver.
En nú er svo komið í desembermánuði á því herrans ári 2008 að okkar þrettán ára gamli einhverfi drengur er komin í svo mikið jóla og áramótaskap að það dugir eiginlega fyrir okkur öll. Systir hans er svo sem engin eftirbátur hans og saman hafa þau náð að lýsa upp skammdegið fyrir okkur hjónunum og eiginlega ekki nokkur leið að fyllast ekki barnslegri eftirvæntingu eftir jólunum. Í ár hefur Bergur náð að höndla aðdraganda jólanna á mun betri hátt en áður og enn bólar ekkert á flogakastinu (sjö, níu, þrettán). Það er eiginlega svo komið þann 18 desember að við erum öll fjögur komin í alveg húrrandi jólaskap og hlakkar bara töluvert til jólahátíðarinnar. Ég hef ekki eins miklar áhyggjur af þessu langa fríi frá skólanum og daglegri rútínu og geng jafnvel svo langt að hlakka til þess að eiga tíma með báðum krökkunum mínum í ár. Það er alveg nýtt og það er alveg frábært.
Við vorum að velta fyrir okkur hversvegna Bergur væri afslappaðri í ár en oft áður og teljum að hluti af skýringunni gæti verið sú að í fyrra fékk hann eftir krókaleiðum, flugeldafjölskyldupakka í jólagjöf frá jólasveininum og hann væntir þess að svo muni einnig verða í ár. Við útbjuggum líka fyrir hann forláta möppu með fullt af flottum flugeldamyndum sem hann hefur verið að skoða og velta fyrir sér allan þennan mánuð. Og ekki má gleyma rakettumyndbandinu sem pabbi hans klippti saman handa honum og setti á dvd disk og inn á ipodinn okkar. Það er eins og þetta hafi einhvernvegin tappað af þrýstingi af áramótaspenningnum og jafnað hann betur út.
Flugeldar eru hans helsta áhugamál og þið getið kannski ímyndað ykkur að hafa gríðarlegan áhuga á einhverju eins og t.d. fótbolta ,hestum eða bara hverju sem er, en geta ekki og mega ekki sinna þessu áhugamáli nema í nokkra daga á ári hverju. Líklega myndi nú byggjast upp einhver spenna í aðdraganda þeirra fáu daga og einhverjir fengju jafnvel nett flog.
Og svo að það sé á hreinu þá eru núna 10 daga þar til flugeldasölur opna.
Kv.
Kej.
Bloggar | Breytt 19.12.2008 kl. 11:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
17.12.2008 | 13:59
Tónlist,tilfinningar og Tom Waits.
Ég elska tónlist. Gæti ekki lifað í heimi án tónlistar. Tónlist gefur mér orku og nærir í mér sálina. Ég elska að spila á hljóðfæri og elska að hlusta á aðra flytja tónlist. Að fara á tónleika finnst mér ein besta skemmtun sem til er. Spenningurinn sem myndast í tónleikasalnum rétt áður en listamaðurinn eða hljómsveitin stígur á stokk er engu líkur.
Eg fór að velta mér upp úr því um daginn hversu tengt það er hvernig mér líður hverju sinni og hvað ég er að hlusta á þá stundina. Síðasta vetur sem dæmi hlustaði ég mjög mikið á Arcade Fire, Damien Rice og Sigurós. Að mörgu leyti er þetta allt tónlist sem sveiflast í neðri hluta geðkúrvunnar og hentug til að vökva og viðhalda geðlægðum.
Í sumar hlustaði ég hinsvegar rosalega mikið á tónlistamenn eins og Manchester tvíeykið Ting Tings New York skvísuna Santogold, Sri Lanka ættuðu London stelpuna M.I.A. og hina geðugu Toronto drengi í Holy F--k. Allt alveg gríðarlega hress og upplífgandi tónlist. Enda var ástandið á sjálfinu allt annað og hressara heldur en á vetrarmánuðum.
Nú á haustmánuðum var ég svo komin á kaf í Tom Waits og veit eiginlega ekki alveg hvað ég á að halda um það. Allt frá því á áttunda áratugnum hef ég verið að heyra um Tom Waits og hversu frábær hann sé. Ég hef einhvernvegin aldrei náð honum og fyrir mér var þetta bara skrítin kall sem söng skrítin lög með sinni skrítnu rödd. En um daginn "áskotnaðist" mér safn með öllu því sem gefið hefur verið út með kallinum og ákvað ég að láta reyna á hvort ég væri að missa af einhverju. Byrjaði á fyrstu plötunni, Closing Time frá 1973. Og viti menn í staðin fyrir skrítin kall að syngja skrítin lög hljómaði þessi líka fíni melódíski píanó djass. Ég vann mig síðan í gegn um ferilinn hans og eftir Swordfishtrombones frá 1983 og Rain Dogs frá 1985 var ég alveg kolfallinn fyrir þessum snillingi.
Einhver lýsti röddinni hans með þeim orðum að eftir að hafa verið marineruð í viskíi og látin hanga i reykkofa í nokkra mánuði hefði hún verið dregin út á götu og bíll látin keyra yfir hana nokkrum sinnum. Tónistargáfa og tilfinning þessa manns fá eiginlega ekki orð lýst og þegar maður hugsar til þess að árið 1976 þegar heimsbyggðin var að spá í Bee Gees og ABBA kemur Tom Waits með Tom Trauberts Blues á plötunni Small Change. Ég get ekki hlustað á þetta lag án þess að fá gæsahúð, það er bara svoleiðis.
Nú þegar veturinn hefur lagst yfir síðustu haustlaufin og allir fjölmiðlar keppast við að telja okkur trú um að framtíð þessarar þjóðar sé eymd, vesæld og volæði þá sit ég hér og hlusta á þrefaldan safndisk Rúnars Júlíussonar , Söngvar um Lífið og get í framhaldinu ekki verið meira ósammála þeim sem vilja predika dómsdagsspár um framtíð okkar litla lands.
Það þarf fólk eins og þig, fyrir fólk eins og mig.
Kv.
Kej.
Bloggar | Breytt 18.12.2008 kl. 08:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.12.2008 | 09:19
12 dagar.
12 dagar í opnun fyrir sölu á flugeldum og einhverjir hafa nú verið að þjófstarta . Heyrst hafa hvellir sem benda til flugeldafikts og einnig hafa borist fregnir af því að póstkassi hafi verið sprengdur upp. Okkar maður hefur sem betur fer ekki tekið eftir þessu og er bara tiltölulega rólegur yfir þessu öllu saman, so far. Rakettumappan hefur nú aðeins vikið fyrir skóstússi. Nú er aðalmálið að haga sér vel svo maður fái nú eitthvað í skóinn sinn. Svo fer morguninn í það að troða því sem kom í skóinn, ásamt því sem kom í gær og jafnvel daginn áður, aftur í skóinn. Rúmfræði hefur aldrei verið sterkasta hlið Bergs og því gengur oft soldið mikið á þegar hann er að þessu því oftast passar þetta ekki í skóinn
Þau systkinin eru komin í þvílíkt jólaskap að við gamla settið erum bara skilin eftir í reyk. Eftir að jólasýningunni lauk hjá fimleikafélaginu datt litla skottið okkar í jólagírinn af fullum krafti. Bergur segist reglulega vera í jólaskapi og eftir að jólasveinarnir fóru að pota einhverju í skóinn hans þá varð ekki aftur snúið með það. Í morgun fór hann svo í skólann með jólasveinahúfu, sagðist heita Stúfur, og tók með sér skóinn sinn með því sem hann fékk frá Pottaskefli til þess að sýna kennurunum sínum hvað hann hefði fengið. Ég bauð honum að velja á milli rakettumöppunnar og skósins og mappan var skilin eftir.
Þegar þessar línur eru skrifaðar er dúnalogn myrkur og fallandi snjór . Jólalög í útvarpinu og eiginlega kjöraðstæður til þess að komast í jólaskap. Af einhverjum orsökum næ ég samt ekki að detta í jólagírinn almennilega. Ætli það sé kreppunni að kenna ?
Kv.
Kej
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.12.2008 | 09:56
Jólaball með bæjó.
Þá eru 17 dagar í opnun á flugeldasölum og hér eru menn ákveðnir í að standa sig og láta ekki hanka sig á þvi að vera með einhverja óþekkt sem væri ekki jólasveinum að skapi og gæti jafnvel dregið úr líkum á þvi að maður fái nú eitthvað í skóinn sinn.
Bergur fór á jólaball í gær í boði bæjarstjórans og voru send spariföt með honum á Ragnarssel ásamt nýjum Nike körfuboltaskóm sem hann hafði ekki farið í áður. Við vorum búin að máta dressið daginn áður og prófa skóna en Bergur ætlaði sko ekkert að fara neitt meira í þessa larfa og ekkert að púkka upp á þessa ömurlegu skó sem voru með reimum og allt. Það var því mjög svo undrandi pabbi sem sá unglinginn sinn alveg hreint glerfínan í hvítri skyrtu og tíglapeysu með buxurnar utanyfir skóna sína svona bara eins og venjulegur unglingur. Ásta Rós fær umsvifalaust 10 rokkstig fyrir að koma honum í dressið.
Bergi var mikið í mun að sýna jólasveinum sem mættu í partýið rakettumöppuna sína og jafnvel benda þeim á hverskonar fjölskyldupakka hann vildi fá frá jólasveininum undir jólatréð á aðfangadag. Að endingu þurfti að toga kappan í burt frá sveinka svo að aðrir kæmust nú líka að. Alla leið út á bílastæði var Bergur mjög meðvitaður um að sýna ekkert annað en sparihegðun ef ske kynni að jólasveinninn sæi nú eitthvað til hans. Bað svo pabba sinn að segja jólasveinum að Bergur væri "stilltur og prúður piltur".
Hann og systir hans fengu svo sitthvorn nammipokann frá Kertasníki og á meðan að systir hans gæddi sér á innihaldinu þegar heim var komið náði Bergur í skóna sína (ekkert nóg að hafa bara einn) og setti sitt nammi í annan skóinn og síðan báða skóna út í glugga. Ekki er ráð nema í tíma sé tekið. Í kvöld er víst von á honum Stekkjastaur og þá er nú eins gott að vera með allt á hreinu, skóna tilbúna, ekkert að vera óþekkur og fara snemma að sofa. Þá er aldrei að vita nema að eitthvað verði í skónum þegar maður vaknar.
Bloggar | Breytt 15.12.2008 kl. 21:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.12.2008 | 22:51
Úr rakettudagbókinni ofl.
20 dagar þar til flugeldasölurnar opna og okkar manni farið að hlakka mikið til. Hann ákvað í gær að mappan sem ég útbjó fyrir hann með öllum rakettumyndunum væri alveg ómöguleg og heimtaði að fá "harða möppu" og að endingu mátti mamma hans láta sig hafa það að losa eina skólamöppuna sína svo að flugeldafræðingurinn fengi nú hörðu möppuna sína.
Hann situr núna í gömlu borðtölvunni okkar og flettir gömlum myndum frá gamlárskvöldi 2003 í bland við myndir sem við sóttum af netinu af flugeldasölum héðan og þaðan. Þess á milli flettir hann möppunni sinni og spyr foreldra sína ýmissa rakettutengdra spurninga, eða varpar fram flugeldatengdum fullyrðingum eins og t.d. : "Fólk springur ekki, bara rakettur !" eða "Fyrst koma jólin og svo koma raketturnar !" og ekki má gleyma "Bráðum koma raketturnar !".
Annars er jólastemmingin aldeilis farin að blómstra hjá okkur á Þverholtinu og um helgina voru bakaðar smákökur, horft á Christmas Vacation (skylduáhorf) og klárað að kaupa síðustu jólagjafirnar. Bergur og Gyða höfðu ótrúlega gaman af að horfa á þessa frábæru mynd sem Christmas Vacation er og Bergur hló alveg eins og asni að henni þegar eitthvað fór úrskeiðis hjá aumingja Griswold.
Síðan styttist í hina árlegu jólasýningu hjá Fimleikafélaginu og ef maður er ekki komin í jólaskap fyrir hana þá fer maður pottþétt í jólaskapi heim af þeirri frábæru sýningu. Gyða er búin að vera rosalega duglega að mæta á æfingar og æfa dansinn þeirra heima. Hún kann dansinn alveg utanað en svo er spurning hvort að sýningarstressið hafi einhver áhrif á það hjá henni.
Hún kom heim af æfingu um daginn og fræddi pabba sinn á því að í dag hefði hún fengið að tengja. Hún var svo rosalega ánægð með þetta og ég var ekki alveg að átta mig á því hvað væri svona merkilegt við að fá að tengja. Hélt þetta væri eitthvað svona rafmagns, stinga einhverju í samband eða eitthvað. En nei, það var ekki það heldur fékk hún að fara í arabastökk og beint í flikk á eftir og var mín kona heldur betur ánægð með það. Fyrir þá sem ekki vita þá er arabastökk-flikk eitt það allra flottasta, alla veganna í mínum huga. Og núna er litla 7 ára skottið mitt byrjað að æfa það. Ómægod.
Og aldrei þessu vant erum við búin að ganga frá öllu jólagjafastússi. Held við höfum aldrei verið svona snemma í því áður. Við ætlum að reyna að leyfa aðventunni að líða í rólegheitum og leggja áherslu á samveru og kósýheit. Ég er búin að viða að mér haug af jólabíómyndum og við ætlum að renna saman í gegnum þær og skemmta okkur saman.
Einkunnarorð þessara jóla verða gleði, rólegheit og fjölskyldusamvera.
Kv.
Kej.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
1.12.2008 | 14:56
Af rakettum og mönnum.
Ef einhver er ekki með það á hreinu þá eru núna 27 dagar þar til flugeldasölur opna. Ykkur finnst það kannski undarlegt að vera að varpa þessu fram þegar jólastemmingin er ekki einu sinni almennilega skollinn á en trúið mér að það er góð og gild ástæða fyrir þessu öllu saman.
Í því gjaldeyris fárviðri sem geisað hefur að undanförnu hef ég ólíkt mörgum verið algerlega laus við áhyggjur af Cocoa Puffs og Cadburys skorti í hillum verslana. Það sem haldið hefur fyrir mér vöku er sú spurning hvort að hömlur verði á innflutningi á flugeldum fyrir áramótin. En fyrir skömmu fékk ég fullvissu fyrir því að gámarnir væru komnir til landsins og ekkert sem stæði í vegi fyrir hefðbundinni flugeldasölu í ár.
Þeir sem þekkja til á Þverholtinu vita sem er að ástæða þessara vangaveltna er hin 13 ára gamli flugeldafræðingur sem hann sonur minn er. Hann byrjaði að spá í gamlárskvöldi að morgni 1. janúar 2008 og hafa þær pælingar stigmagnast eftir því sem dagarnir líða og nær dregur. Eftir því sem jólaljósum fjölgar í bæjarfélaginu hefur okkar maður eflst í þeirri trú að nú styttist í stóra daginn og er hann óþreytandi við að ræða þetta áhugamál sitt við alla sem vilja.
Við erum yfirleitt mættir að kvöldi 27 des fyrir utan flugeldasölurnar og fylgjumst með í leyni þegar verið er að bera kassana úr flutningabílunum og inn í verslanirnar. Síðan erum við mættir á slaginu þegar opnað er daginn eftir. Bergur er búin að vera að safna peningum í sérstaka rakettubuddu allt árið og er ákveðin í að kaupa "fullt af drasli " eins og hann segir sjálfur.
Um daginn tók ég mig til og prentaði út nokkrar myndir sem teknar voru af flugeldasölum og líka af öllum fjölskyldupökkunum frá björgunarsveitunum. Honum hafði áður áskotnast þessi líka fína mynd af rakettum og öðru dóti og þegar hún var um það bil að detta í sundur sá ég að eitthvað varð að gera. Við útbjuggum því smá möppu með c.a. 5 blaðsíðum og settum allt í plastvasa. Þessi mappa er núna miðpunktur alheimsins í huga þessa unga manns og liggur á koddanum við hliðina á honum þegar hann sefur.
Framundan eru spennandi dagar sem stigmagnast og ná hámarki á gamlárskvöldi. Og það er eins gott að pabbi hans Bergs er pínu leynirakettukall líka.
Kv.
Kej.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar