Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009
4.1.2009 | 23:06
Já komdu með í gamlárspartý....
...gamlárspartý, gamlárspartý. Við skulum skjóta upp rakettummmmmm....
Þó svo að þessir 10 dagar sem Bergur hefur beðið eftir allt árið krefjist gríðarmikillar orku af okkur sem höfum fengið það hlutverk að vera foreldrar hans, þá get ég ekki annað sagt en að það séu töluverð forréttindi að fá að upplifa þessa miklu eftirvæntingu og hrifningu sem fylgir þessu þráhyggjukennda áhugamáli hans. Síðustu 2 dagarnir á árinu 2008 voru mjög skemmtilegir og munu seint líða okkur úr minni. Ég ætla að reyna að setja atburði þessara daga upp í smá tímaröð og leyfa ykkur að gægjast aðeins inn í hugarheim rakettudellustráksins míns.
Bergi var boðið að koma í heimsókn á flugeldasölu björgunarsveitarinnar í grindavík á þriðjudagsmorgninum (30.des) og gekk af þeim sökum afar erfiðlega að sofna kvöldinu áður. Það hafðist þó þegar farið var að nálgast miðnættið.
30.des
- 06:14 Bergur vaknar og spyr hvort að nóttin sé búin. Honum er tjáð af svefnstjörfum foreldrum að svo sé ekki heldur þvert á móti.
- 08:30 Bergur vaknar og segist ætla að fara til grindavíkur. Allar mútutilraunir til áframhaldandi svefns brotna líkt og brim á bergvegg.
- 11:45 Bergur og pabbi hans eru mættir fyrir utan flugeldasölu björgunarsveitarinnar í grindavík. Honum hafði verið boðið að koma og skoða aðeins á bakvið borðið áður en að salan opnaði. Við þáðum það með þökkum og sáum fram á að geta skoðað okkur vel um og verslað síðan eitthvað í kjölfarið. Við erum síðan slegnir algerlega út af laginu þegar björgunarsveitarfólkið tekur upp a því að hlaða Berg gjöfum. Hann fer heim með derhúfu, límmiða, 2 glóandi partýglös,vasaljós og eitt stykki af Gunnlaugi Ormstungu skotköku. Ekkert smá höfðinglegar móttökur sem við fengum hjá þessu frábæra fólki.
- 13:50 Fer með pabba sínum út að skjóta upp einhverju smádrasli
- 16:20 Séra Skúli bankar uppá hjá okkur með ekki eina heldur 2 hlussu skotkökur. "Guðmundur almáttugur" segir Bergur og sérann fær risaknús frá Begga.
- 20:00 Lætur pabbi loks undan þrýstingi um að fara út að skjóta upp einhverju dóti. Ég sagði honum að fara yfir til Unnars og Elvars í næsta húsi, banka uppá og segja strákunum að við ætluðum að skjóta aðeins upp. Bergur hleypur yfir ,æðir inn án þess að gera nokkur boð á undan sér og æpir yfir allt " Elvar, rakettur !!" og hleypur síðan sem fætur toga til baka.
- 23:40 Sofnar seint og um síðir með rakettupokann, rakettukassann og fjölskyldupakkann á gólfinu hjá sér. Vildi fyrst hafa fjölskyldupakkann á koddanum við hliðina á sér með sængina breidda yfir en pabbi strækaði á það.
- 05:30 Vaknar og vill fara að skjóta upp. "Heyrðu pabbi, er nóttin búin. Hægt að skjóta upp??" Pabbinn blótar í hljóði þegar hann rekur litlu tánna í hurðarkarminn þar sem hann ráfar svefndrukkinn inn til unglingsins og reynir síðan að hnoða allri fyrstu önninni í rökfræðum 103 í eina setningu en dettur þó ekkert betra í hug en "...ennþá nótt úti, sofa aðeins meira".
- 09:00 Vaknar og allar tilraunir til áframhaldandi svefns eru árangurslausar. Hefur litla sem enga matarlyst og nennir ekkert að fylgjast með barnaefni í sjónvarpinu. Rogast um húsið með rakettupokann sinn, fjölskyldupakkann og rakettukassann líka.
- 13:35 Fer út með pabba sínum að kveikja í smádrasli. Var búin að suða frá því hann vaknaði en af tillitssemi i við aðra íbúa i hverfinu dró pabbinn þetta á langinn eins og hægt var.
- 15:14 Bankað á dyrnar og skuggi af óvenju hávöxnum einstaklingi sést í gegn um glerið. Fyrir utan stendur hann Halli Valli með risa rakettu sem búið er að árita sérstaklega fyrir Berg. Halli Valli var liðveisla og stuðningur við hann Berg um tíma og hefur alla tíð síðan reynst honum mikill og góður vinur. Bergur er mjög ánægður með að hafa fengið " Halla Valla rakettu".
- 16:03 Aftur er bankað á dyrnar og nú er hann Diddi mættur til að heilsa aðeins upp á Berg á þessum stóra degi. Diddi er núverandi liðveisla fyrir hann Berg og algerlega frábær í því hlutverki. Diddi bað Berg síðan að koma aðeins með sér út í bíl og sótti þar eina forláta skotköku sem hann gaf svo Bergi. Hamingjuvísitala Bergs tók umtalsvert stökk við þessa gjöf og vissi hann varla í hvorn fótinn hann átti að stíga.
- 17:30 Fer í gamlársveislu hjá Ömmu og Afa með rakettudótið sitt.
- 19:40 Förum út i sandgerði á brennu og flugeldasýningu. Höfum farið þarna á hverju ári í nokkur ár og aldrei verið svikinn af flugeldasýningunni þeirra hjá björgunarsveitinni Sigurvon í sandgerði. Bergur er rosalega ánægður með lífið.
- 21:00 Er kominn aftur til Ömmu og Afa í gamlárspartý og fer til skiptis út á pall að fylgjast með hvort verið sé að skjóta upp og niður í skúr að fara yfir hvað sé til af flugeldum.
- 22:00 Er farinn út með frænda sínum og frænku að skjóta aðeins upp
- 22:30 Skaupið að byrja og pabbi gerir sig kláran í að fara út með Begga og leyfa öðrum gestum að njóta skaupsins. Að þessu sinni er honum snúið við af ömmu Möggu sem komin er í kuldagallann sinn og sagt að fara inn og horfa á skaupið.
- 23:30 Skaupið búið og allir búa sig út. Hin einstaka íslenska allsherjar flugeldasýning er að hefjast og mun standa í u.þ.b. eina klst.
- 00:30 Mestu sprengingarnar búnar og allir nema Bergur og foreldrar hans eru farnir inn. Mamma og systir hans koma út með 4 glös og saman skálar fjölskyldan fyrir nýju ári.
- 01:15 Kveðjum gamlársveisluna og höldum heim á leið. Bergur er ennþá úti að fylgjast með og hefur eiginlega ekki fengist inn frá kl. 22:00.
- 03:00 Nær loksins að sofna eftir nokkrar tilraunir. Er mjög spenntur og á erfitt með að ná sér í ró.
- 10:00 Vaknar og vill fara að skjóta upp. Pabbi skríður upp í til hans og fær hann til að kúra til hádegis.
- 12:00 Vaknar og fer að leita að rakettupokanum sínum.
Þannig gengu áramótin í garð hjá okkur að þessu sinni. Mikið fjör og mikið gaman. Það er eiginlega ekki hægt að lýsa með orðum þessum undarlega hugarheimi sem við fáum að fylgjast með þegar þessir dagar í kring um áramótin koma og fara. Við teljum það mikil forréttindi að fá að fylgjast með þessari hrifningu svona nálægt. Við erum líka meðvituð um hlutverk okkar foreldrana á þessum dögum. Það er undir okkur komið að upplifunin verði með sem jákvæðasta móti. Þá meina ég ekki að við splæsum nógu miklum peningum í flugelda heldur að samveran og stússið í kring um flugeldana verði jákvæð og skemmtileg. Það kostar svosem töluverða orku og þegar jólafríinu lýkur er orkutankurinn oftast tæmdur og varatankurinn líka. En þeirri orku er vel varið, líkt og peningarnir sem flugeldasala björgunarsveitanna fær.
Við óskum svo öllum sem hafa nennt að fylgjast með okkur á þessu bloggi gleðilegs árs og þökkum fyrir samveruna á síðasta ári hvort sem hún var í net eða raunheimi.
Kv.
Kej.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar