Vísbending...

 

Bergur oft vill skjóta upp dóti Cool

Heyrist þá mikið braml og bank Devil

Besti finnst honum aftur á móti Happy

Að fara með stashið upp á t_ _ k. Smile


Bergur og nýja þráhyggjan.

Bergur fékk í vöggugjöf töluvert mikla þráhyggju.  Hún hefur síðustu ár snúist að mjög miklu leyti um flugelda og er engu logið þegar sagt er að hann sé mesti flugeldaáhugamaður Íslands.  Hann er allt árið að bíða eftir 28 Desember, því þá er byrjað að selja flugelda og þá má maður skjóta upp án þess að eiga það á hættu að löggan banki uppá hjá manni.  

Annars hafa árin liðið þannig að eftir áramótin og þrettándann erum við að reyna að slökkva þessa þráhyggju hægt og rólega og tekst það svona sirka í kring um vor.  Sumrin ganga síðan nokkuð rólega fyrir sig og ekki mikið verið að spá í flugelda, en þó alltaf öðru hvoru.  Í lok sumars taka síðan við bæjarhátíðir eins og Ljósanótt, Menningarnótt, Selfossdagar og annað slíkt þar sem slúttað er með flugeldasýningum.  Þá gýs yfirleitt upp aftur þessi áhugi sem síðan stigmagnast og nær hápunkti 28 Desember.   

Nýlega tók sér bólfestu ný þráhyggja hjá Bergi sem snýst um úrkomu, regn eða snjókomu.  Þessi þráhyggja er öllu öðru sterkara og hefur Bergur átt mjög erfitt með að hafa stjórn á sér þegar hún tekur af honum völdin.  Þegar þetta er ritað er flugeldasala á fullu en litli flueldakallinn minn er fastur i að draga fyrir glugga og að spá í hvenær muni hætta að snjóa.  Í fyrsta sinn eru fluegldarnir ekki í fyrsta öðru og þriðja sæti. 

Núna tekur nýja þráhyggjan alla skemmtun og gleði sem hann hafði af þeirri þráhyggju og hreinlega slekkur á honum.  

Hann hefur dregið úr brjálæðisköstum þegar þetta er skrifað og tekið uppá því að draga teppi eða annað yfir höfuðið og bíða þar til hætti að snjóa.  Ef hann er úti eða í bílnum, þá dregur hann hettuna á úlpunni yfir sig.   Svefnpoki

 

 

 Hetta

 

Teppi 

 

 

 

 

 

 

Þetta myndband er tekið 28 Desember, sem er dagurinn sem flugeldasölurnar opna.  Við vorum búnir að fara á eina flugeldasölu og versla og að öllu jöfnu hefði hann snúist í hringi um góssið sitt og ljómað af gleði yfir því.  En þarna hafði nýlega byrjað að snjóa og þráhyggjan tekur yfir.  Við höfðum að ásettu ráði tekið niður rúllugardínur svo hann væri ekki að draga þær niður og upp endalaust en hann reynir samt að draga aðrar gardínur fyrir.  Takið líka eftir þegar hann situr í sófanum og í sjónvarpinu kemur flugeldaauglýsing sem að öllu jöfnu hefði fangað alla hans athygli.  Núna lítur hann ekki á sjónvarpið en horfir bara út um gluggann á snjókomuna.  Þetta er mjög ólíkt flugeldaáhugamanninum honum Bergi.  

 

 

Hjálp !


Að vera atvinnulaus.

Það er afar sérstök upplifun að vera atvinnulaus.  Ég hef svosem upplifað það áður á yngri árum að ganga í gegn um atvinnuleysistímabil en það breytir óneitanlegu nokkuð miklu um slíka stöðu að vera komin með þær skuldbindingar sem fylgja því að reka fjölskyldu. Í vetur var ég atvinnulaus í c.a. 6 mánuði og það eru margir vinklar á slíku ástandi sem vert er að skoða.

 Það er mjög mikilvægt við slíkar aðstæður að vera eins raunsær og hægt er og missa ekki sýnar á heildarmyndinni.  Í upphafi var staðan ekkert verri en þannig hjá mér að ég þurfti ekki að mæta í vinnu en var þó enn á launum næstu 4 mánuðina.  Ég gat því verið svona bara eins og Lýður í Lotto auglýsingunum og setið heima með kaffibolla og keypt mér hurð á e-bay.  í 4 mánuði þ.e.a.s. Eftir þann tíma yrði þetta þó gjörbreytt og erfiðast fannst mér að gleyma mér ekki í svartsýnishugsunum yfir því hver staðan yrði að loknum uppsagnarfrestinum.  

Óvissan var það langerfiðasta á þessum tíma og ekki bætti neitt úr skák að allt í kring um okkur virtist veröldin vera að hrynja eins og spilaborg og ekkert af því sem maður hafði áður þekkt sem öruggt gat nú talist tryggt. Þetta tók langmest á og var langerfiðast að sjá í jákvæðu ljósi.  Í byrjun desember fékk ég síðan ákveðið vilyrði um vinnu með vorinu og bara það að hafa eitthvað annað en algera óvissu um framtíðina létti alveg ótrúlega mikið af okkur áhyggjum. Það var þó eitthvað sem hægt var að horfa til og mátti líkja þessu sem litlu vonarljósi sem hengt hafði verið upp á dagsetninguna 1. apríl. 

Það er merkilegt hvað það markar okkur mikið að hafa vinnu.  Það fyrsta sem þú spyrð einhvern sem þú hefur ekki séð lengi er: "og hvað ertu að gera þessa dagana, hvar ertu að vinna ?"  Reyndar var stemmingin í þjóðfélaginu í vetur þannig að það var eiginlega lítið hægt að skammast sín fyrir að vera atvinnulaus.  Það voru bara svo margir í þeirri stöðu og svo lítið framboð af vinnu að samfélagið gat ekki annað en samþykkt þá stöðu að vera án atvinnu.  En mér fannst það samt erfitt og leið aldrei vel þegar ég þurfti að svara slíkum spurningum. 

Og það voru fleiri en ég sem leið þannig.  Ég man eftir einu atviki þegar ég og Gyða vorum stödd inni í bakaríinu á Fitjum að fá okkur snúð og með því . Þá sé ég þar einn gamlan vinnufélaga frá fyrri tíð.  Og að sjálfsögðu spyr ég hann hvað sé að frétta, hvað hann sé að gera.  Hans fyrsta svar var að segja mér að hann væri nú með þetta fyrirtæki og hann hefði þessa viðskiptavini og nefndi nokkur nöfn á stórum fyrirtækjum.  Hann sagði mér þetta með krepptar axlir og samanbitna kjálka. Eftir því sem á leið okkar samtal kom þó í ljós að fyrirtækið sem í upphafi samtals var í miklum blóma reyndist í raun vera með hann einan sem starfsmann og allir hans viðskiptavinir höfðu sagt upp samningum.  Hann var því líkt og ég með ekkert að gera að fá sér snúð og með því.  En stoltið var svo mikið að hann fékk ekki af sér að segja mér hvernig staðan væri í raun þegar við fyrst tókum tal saman.  Mér fannst þetta nokkuð mögnuð upplifun að sjá hvað það er manneskjunni mikils virði að vera eitthvað annað en bara hún sjálf. Að geta tengt sig við einhverja vinnu sem manni finnst vera mikilsverð. 

Annar vinkill á þessu og að mörgu leiti af svipuðum toga er mín staða gagnvart fjölskyldunni minni. Ég man vel þegar ég missti vinnuna að ég hugsaði mikið um hvað ég ætti að segja krökkunum mínum.  Í þeirra huga var pabbi aðalmaðurinn í flugstöðinni og án hans var óhugsandi að flugsamgöngur gætu gengið eðlilega til og frá landi.  Allt í einu væri pabbi síðan bara óþarfur og það var erfiður biti að kyngja.  Ég frestaði því aftur og aftur að segja þeim frá hvað væri að gerast þar til að Gyða spurði mig einn daginn: "pabbi þú ferð eiginlega aldrei í vinnuna lengur ".  Þá varð þessu ekki frestað lengur.  Ég sagði henni að pabbi ætlaði bara að vera í fríi í vetur og vera heima með henni og Bergi.  Það fannst henni bara fínt og spurði ekkert meira um þetta.  

Núna þegar ég er aftur komin með vinnu í flugstöðinni lét ég það verða mitt fyrsta verk að bjóða henni  með í vinnuna mína.  Ég var á minni fyrstu næturvakt þar sem ég var einn og óstuddur um daginn og tók Gyðu því með mér í vinnuna.  Fékk fyrir hana aðgangsheimild inn á svæðið og svo fórum við saman um alla flugstöðina og skoðuðum og prófuðum allt sem 8 ára stelpu finnst vera spennandi.  Að öllu öðru ólöstuðu voru það hlaupahjólin sem unnu hug hennar og hjarta. Ég meina hversu svalt er það að vera í vinnu þar sem maður getur leikið sér á hlaupahjóli allann daginn ? Ekki hægt að toppa það.  Það var því ákaflega ánægð og ég held bara stolt lítil stelpa sem fór heim það kvöldið og aftur er pabbi orðin aðal í flugstöðinni.  Cool  Mig langar síðan að reyna að gera eitthvað svipað fyrir Berg en það krefst aðeins öðruvísi nálgunar. 

Annað sem kom mér svolítið á óvart eru félagslegu áhrifin.  Vinnustaðurinn er að mörgu leyti eins og lítil félagsmiðstöð.  Reyndar svolítið stór félagsmiðstöð í mínu tilviki, en þið skiljið hvað ég meina.  Við hittum fólk á hverjum degi og eigum við það samskipti.  Æfum okkur í að umgangast aðrar manneskjur og lærum á hverju degi eitthvað nýtt um mannlegt eðli.  Þegar þetta dettur út er strax komin smá einangrun og það fer siðan eftir hverjum og einum hvernig gengur að takast á við slíkt.  Ég hafði krakkana mína og mína frábæru konu til að tala við.  Ég á líka æðislega nágranna sem ég átti við samskipti.  Og svo kom eitt nýtt element inn í þetta mix sem er samskiptavefurinn Facebook.  Þvílík og önnur eins snilld.  Facebook var eins og lítill gluggi út úr þessari einangrun og þar gat maður fylgst með og átt samskipti við fullt af fólki og m.a. frá gamla vinnustaðnum.

  En auðvitað kemur Facebook aldrei í staðin fyrir samskipti maður á mann.  Og það kom mér aðeins á óvart hvað það hafði mikil áhrif.  Man sérstaklega eftir þegar ég fór með Ingu á árshátíð Keilis.  Ég hafði ekki farið mikið út á lífið þegar að þessu kom og var þarna að fara að hitta fullt af fólki sem ég hafði ekki hitt áður.  Eðlilega vill maður koma vel fyrir á slíkum stundum og ekki vera frúnni mikið til skammar.  Allt kvöldið var ég að reyna að slá upp samræðum við fólk en mér fannst ég vera alveg ótrúlega klaufalegur og sífellt að segja eitthvað vitlaust.  Ég fann mjög sterkt þetta kvöld hvað ég var að detta úr æfingu við að umgangast fólk.  

Ég veit um menn sem misstu vinnuna á svipuðum tíma og hafa ekki í neina fjölskyldu að sækja.  Eiga ekki vini sem þeir umgangast reglulega og eiga jafnvel ekki tölvu til að stytta sér stundir.  Af þessum mönnum hef ég mjög miklar áhyggjur og vil beina því til allra sem þekkja slík dæmi að vera vakandi yfir þessum einangrunarþætti atvinnuleysis og gera það sem hægt er til að rjúfa þannig vítahring. 

Þegar að því kom að ég átti að fara aftur á vinnumarkaðinn kom það mér aðeins á óvart að mig kveið aðeins fyrir þvi að hætta í þeirri rútínu sem á lífið var komin. Þetta var svona þægindahringur sem hafði alveg sína kosti, þurfa ekki að vakna eitthvað extra snemma og eiga hluta dagsins alveg fyrir sig.  Hafði líka áhyggjur af krökkunum mínum sem höfðu í vetur notið þess öryggis sem fylgir því að hafa alltaf einhvern heima.  Það er örugglega bein fylgni á milli þess hversu lengi maður er án atvinnu og hversu erfitt er að fara aftur af stað. Núna heyrir maður af því að það séu einhver láglaunastörf í boði hjá vinnumálastofnun sem erfiðlega gangi að manna. Margir eru ægilega hneykslaðir á því og telja þetta til marks um að það séu bara aumingjar sem nenna ekki að vinna á  atvinnuleysisbótum.  Eftir mína upplifun þá get ég alveg skilið það fólk sem á erfitt með að fara af stað í einhverja vinnu sem það langar ekkert til að vinna við og gefur því ekkert annað en svipaðan krónufjölda og bæturnar eru.  Ég bið fólk um að vera ekki of fljótt að dæma þá sem eru að þiggja atvinnuleysisbætur. 

Lykiltatriði í þessu öllu saman er að fá að halda sinni mannlegu reisn.  Lífið er svo mikið meira en bara launaseðillinn.  Það er svo miklu meira fólgið í því að vera vinnandi maður  en bara hvað þú færð í launaumslagið.  Við þurfum auðvitað öll að standa skil á okkar skuldbindingum og öll viljum við geta veitt fjölskyldum okkar helstu nauðsynjar og kannski aðeins meira þegar svo ber við.  En það er mér ótrúlega mikilvægt geta horft framan í fjölskyldu mína og vini með stolti og finnast ég vera einhvers virði og þá er ég ekki að tala verðmæti sem mæld eru í krónum. 

 

Kv.

Kej

 


Kreppa 101

 Þann 1 apríl síðastliðinn lauk hjá mér mjög skrítnu ferðalagi.  Þetta ferðalag hófst 25 september kl. 10:00 að morgni og lauk eins og áður sagði á sprelldaginn sjálfan 1. apríl kl. 05:30 að morgni. Það sem gerði þetta ferðalag svona frábrugðið hefðbundnum ferðalögum var m.a. að það fór að mestu leiti fram í rússíbana  og hossið tók 6 mánuði Sideways.    Á einhvern undarlega hátt var það svolítið viðeigandi að þessu ferðalagi skyldi hafa lokið á þessum degi, vantaði bara að einhver hefði slegið hressilega á bakið á mér og sagt: djóoooook, 1.apríl. Tounge

Ef einhver skyldi ekki núþegar vera búin að ráða í þessa eitruðu myndlíkingu hjá mér þá er ég semsagt að tala um það þegar ég varð atvinnulaus á haustmánuðum 2008 korteri fyrir hrun. 

Það er undarleg upplifun að vera sagt upp störfum.  Ég þóttist vita að einhverra breytinga væri að vænta á þessum tíma og kreppudraugurinn hafði þá þegar litið við í flestum deildum fyrirtækisins með miður skemmtilegum afleiðingum.  Ég hafði því búið mig undir breytingar og jafnvel einhverri skerðingu á starfshlutfalli og launum.    En í mínum villtustu martröðum átti ég ekki von á því að standa uppi atvinnulaus og hafa ekki í neina vinnu að sækja.  Það varð samt raunin og þar með hófst þessi undarlega rússíbanareið sem lagði undir sig hjá okkur veturinn 2008/09.  

Á þessum tíma var verið að segja upp fólki mjög víða i þjóðfélaginu og margir urðu líka að taka á sig launaskerðingar.  Menn tóku þessum áföllum með misjöfnum hætti, margir áttu mjög erfitt með að sætta sig við það sem var að gerast  og skyldi kannski engan undra.  Ég sá menn sem allt að því  buguðust og ég sá líka menn sem urðu alveg ofboðslega reiðir og bitrir.  Viðbrögð hvers og eins við þessum áföllum höfðu síðan smitandi áhrif á þeirra nánasta umhverfi. Makar og börn sýktust af biturleika og vonbrigðum sem síðan dreifði sér yfir í nám og vinnu hjá viðkomandi.   Þetta sá ég gerast í kring um mig og ég vissi alveg að hætta væri á að gerðist hjá mér. 

  Þegar ég var í bílnum mínum á leiðinni heim af þessum örlagaríka fundi var bara ein hugsun sem komst að.  Ég skyldi ekki leyfa þessum neikvæðu fréttum að draga fjölskylduna mína niður í fen reiði og vonleysis.  Inga var nýlega byrjuð í háskólanámi sem hún var búin að stefna að í mörg ár og ég vissi alveg að ef ég héldi ekki rétt á spilunum þá væri mikil hætta á að hún flosnaði upp úr því námi.  Hún á það til að láta þá bræður kvíða og áhyggjur Crying taka völdin af þeim systkinum skynsemi og raunsæi Cool og þá er voðin vís. Það var því algert forgangsatriði að fara í gegn um þetta tímabil, hversu lengi sem það stæði, án þessa að hún missti tökin á þeirri tilveru sem hún var að reyna að skapa sér.

Um það bil viku eftir að mér hafði verið sagt upp hrundi síðan bankakerfi landsins og allt í einu var vont ástand farið að líta mun verr út og fór aðeins versnandi.  Allur fréttaflutningur á þessum tíma dró mjög úr okkur kjark og bjartsýni og svo fór að við ákváðum að hætta að leyfa þessu neikvæða fréttaflutningi dag eftir dag að koma með alla þessa neikvæðu strauma inn á heimili okkar.  Að sjálfsögðu fylgdumst við með hvað var að gerast en hættum að láta fréttirnar dynja á okkur daginn út og inn.  Við tókum þann pól í hæðina að nú væru einhverjir hlutir að gerast sem við áttum enga sök á og gætum lítil áhrif haft á. 

Til að bæta gráu ofan á svart vorum við búin að ákveða að fara til Minneapolis einmitt í vikunni sem allt hrundi og krónan var í frjálsu falli.  Við byrjuðum á að fresta þeirri ferð um viku en ákváðum síðan að láta bara vaða og stinga af úr þessu rugli öllu saman og reyna að ná einhverri skynsemissýn á það sem var að gerast hjá okkur.  Sú ákvörðun að kúpla okkur út úr ruglinu hér heima á þessum tímapunkti reyndist algerlega frábær.  Strax í flugvélinni á leiðinni út fann ég hversu mikið við þurftum á þessu að halda.  Í Minneapolis náðum við að stilla upp smá hernaðaráætlun fyrir það sem framundan var og tala okkur saman um þessa undarlegu stöðu sem upp var komin.  

 Næstu vikur voru síðan rosalega upp og niður, út og suður og mikið tilfinningarúss Sick.  Það var skrítið að finna hvernig smá saman maður aftengdist þessu vaktakerfislífi og allt í einu var ég ekki viss hvaða dagur var í dag og hvort það væri helgi eða virkur dagur.  Ég er búin að vera svo lengi í vaktavinnu að sú breyting var mjög áþreifanleg.  En einhvernvegin vandist það og lífið hélt áfram þrátt fyrir allar hrakspár um annað í flestum fjölmiðlum landsins.  

Eitt af því sem ég kveið fyrir var desembermánuður og allt það sem honum fylgdi.  Þessi mánuður sem vanalega kemur með svo margt skemmtilegt með sér.  Ég var hreinlega ekki viss um hvað desember 2008 bæri í skauti sér miðað við alla þá bölsýni og neikvæðni sem var í loftinu á þessum tíma. Reyndin varð þó sú að árið 2008 upplifði ég einhver bestu jól og áramót með börnunum mínum frá því að þau fæddust.  Ég hafði aldrei áður átt svona mikinn tíma með þeim og getað tekið svona mikinn þátt í aðventunni og öllum undirbúningnum.  Áramótin með rakettukallinum mínum voru líka alveg geggjuð í orðsins fyllstu merkingu W00t.  

Það urðu líka breytingar hjá Ingu á þessu tímabili þar sem enga vinnu var að fá og allt í eymd og volæði.  Hún bætti við sig kennslu hjá miðstöð símentunnar og var síðan ráðin í fulla vinnu sem umsjónarmaður fjarnema í háskólabrúnni hjá Keili. Í framhaldinu hætti hún í sínu gamla starfi sem kennari við Holtaskóla   Þannig að núna var konan mín sem hafði minnkað við sig vinnu til þessa að geta sinnt háskólanámi í stærðfræði, komin í eina og hálfa vinnu ásamt því að vera í námi. Og allt í einu var bara assgoti gott að vera með svona heimavinnandi húsfaðir til að sjá um heimili og börn á meðan að konan sá um að draga björg í bú.  

Eftir áramótin var mér farið að finnast þetta alveg ágætt.  Að vera heima að sjá um heimilið, taka á móti Gyðu þegar hún kom heim úr skólanum.  Hjálpa henni með heimanámið og koma henni svo í fimleika eða út í hesthús. Þvo þvott, taka til og þrífa, fara í búð, elda eitthvað fyrir kvöldmatinn osfrv. Við fórum í ótal sleðaferðir, pabbinn bakaði bananabrauð í nesti og tókum gjarnan strákana úr næsta húsi með.   Á þessum tíma var ég líka komin með vilyrði fyrir vinnu með vorinu og var því laus við mestu óvissuna sem var það sem einna erfiðast var að eiga við.   Stundum var ég ekki viss um að mér mætti finnast þetta vera fínt því þetta stríðir gegn flestum normum sem segja að karlmenn eigi að vera útivinnandi og eigi að finnast húsverk leiðinleg.  Það komu líka dagar þar sem mér fannst tilbreytingarleysið svolítið erfitt og þá var ekkert annað að gera en að hringja í vinina og skipuleggja smá hitting.  Það dugði fínt til að hlaða aðeins batteríin.  

Ég passaði mig líka á því að halda rútínu allan veturinn, vakna kl. 07:00 og fara að sofa fyrir miðnætti.  Notaði svo morgnana í að labba með Goða eða fara í ræktina.  Ég passaði mig líka á að forðast flest það sem kallaði fram neikvæðni eins og áfengi og óhoflegt sjónvarps eða tölvuhangs. Öll þessi smáatriði gerðu það að verkum að geðheilsan er að koma nokkurn veginn óbrotin undan vetri.  Auðvitað tókst þetta ekkert alltaf og suma daga var maður bara hundfúll og hundleiðinlegur og nennti ekki neinu.  Var jafnvel ógeðslega fúll út í allt og alla og fannst maður eiga rosalega bágt.  En slíkir dagar voru í miklum minnihluta og stóðu stutt yfir þegar þeir komu.   

Þegar nær dró þeim degi sem ég átti að fara aftur í vinnu fór ég að finna fyrir smá kvíða fyrir því að brjóta þessa rútínu sem við vorum komin með á fjölskyldulífið okkar.  Auðvitað var ómögulegt að vera á atvinnuleysisbótum en fjölskyldulega og heimilislega var þetta bara ágætt.  Mér fannst ég að mörgu leyti vera að yfirgefa börnin mín með því að fara á vinnumarkaðinn aftur nú þegar að Inga var komin í meiri vinnu og í námi.  Ég var líka með blendnar tilfinningar gagnvart því að fara aftur að vinna við þetta starf sem ég hafði sinnt einhverjum 8 árum áður. Það var á þeim tíma mjög erfitt og vanþakklátt starf og ég var svo sem ekkert að deyja úr spenningi að hverfa aftur til þess tíma.  En svo fór að þann 1. apríl mætti ég aftur í vinnu hjá IGS.  

Það var mjög undarlegt að labba aftur inn í flugstöðina og hitta allt það fólk sem þar vinnur og átta sig á því að ég væri komin aftur inn á þennan stóra vinnustað.   Satt best að segja var ég um tíma ekkert viss hver mín staða var gagnvart þessum vinnustað og hafði alveg hugleitt það hvort að þessu tímabili í mínu lífi væri kannski bara lokið. Fyrsti dagurinn í vinnunni eftir þetta 6 mánaða frí tók alveg ótrúlega mikla orku frá mér en samt gerði ég eiginlega ekkert annað en að flækjast um stöðina og fylgjast með.  Þegar ég kom heim um kvöldið var ég svo gjörsamlega þurrausinn allri orku og var farinn að hvæsa á allt og alla um kl. hálf níu. Það fór gjörsamlega allt í taugarnar á mér og ég var tilbúin að rífast yfir öllu Devil.   Þá skipaði konan mín mér inn í rúm og sem betur fer hlýddi ég því og var svo sofnaður nokkru áður en höfuðið hitti koddann.  

Þannig að núna er að hefjast nýtt tímabil í lífi litlu fjölskyldunnar okkar. Tímabil þar sem við Inga verðum útivinnandi í allt sumar og eigum í fyrsta sinn í nokkuð langan tíma ekki rétt á neinu sumarfríi.  Ég er líka lausráðin í þeirri vinnu sem ég er í núna og veit svo sem ekki hvað tekur við að hausti.   Við höfum þurft að undirbúa okkur og setja upp áætlum um hvernig við ætlum að tækla þetta tímabil sem framundan er á sama hátt og við töluðum okkur saman um hvernig við ætluðum að mæta tímabili atvinnuleysis í vetur. Staðan í þjóðfélaginu er einfaldlega þannig að hver og einn þarf að synda sitt björgunarsund í gegn um þennan ólgusjó sem þjóðarskútunni var sökkt í. Við erum ekkert undanskilin þar og gerum okkur alveg grein fyrir því. Við ætlum okkur í gegn um þetta tímabil með reisn  og bara leyfa hverjum degi að nægja sína þjáningu.   Cool

Kv.

Kej. 

 


Ókleif fjöll.

Jæja ætli maður verði ekki að koma frá sér nokkrum línum svo að þeir moggamenn loki ekki bara þessum bloggræfli hjá okkur Crying.  Ég lærði það af Hávamálum í fjölbrautinni hérna í denn að ef maður hefur ekkert að segja sé réttast að þegja bara. Og þar sem mér fannst ég ekkert hafa að segja sem fólk hefði einhvern áhuga á að lesa, þá þagði ég bara.

En nú hefur aldeilis borið til tíðinda hjá okkur því að  laugardaginn þann 14. mars var fermdur í keflavíkurkirkju Bergur Edgar Kristinsson.  Þetta eru slík stórtíðindi að mér hefði ekki þótt neitt athugavert við að sjá fréttamenn frá bæði stöð 2 og ruv á staðnum W00t.

Það var í maí 2008 sem við byrjuðum að velta fyrir okkur þessum gerningi sem fermingin er.  Ætluðum við að ferma hann, hvar, hvernig, hjá hverjum og síðast en ekki síst, hvort það hreinlega væri hægt að koma drengnum í gegn um fermingarathöfn án þess að gera allt brjálað.  Við ákváðum að stefna á að ferma hann í keflavíkurkirkju en ekki með sínum skólafélögum.  Við vildum að hann fermdist einn og okkur langaði rosalega mikið að hafa einhverja athöfn sem gæti verið bæði persónuleg og líka hátíðleg.  En þekkjandi okkar mann þá var það eins  og hver annar fjarlægur draumur á þessum tímapunkti.  

 Við vorum alveg ákveðin í því að ef drengurinn ætti að ganga í gegn um kirkjulega fermingarathöfn þá skyldi hann fá fræðslu eins og önnur fermingarbörn.  Af ástæðum sem ég ætla ekki að tiltaka hérna þá ákváðum við að sækja ekki fermingarfræðslu til þeirra annars ágætu presta í keflavíkursókn og komum okkur í samband við hana séra Guðnýju Hallgrímsdóttur sem er prestur fatlaðra. Við höfðum ákveðið fyrsta fund með henni þann 25 september, eftir hádegi og þá ætluðum við að kanna hvort að við gætum unnið saman að þessu verkefni sem óx okkur svo mikið í augum. Um morguninn þennan sama dag fæ ég þær fréttir frá mínum vinnuveitanda að búið sé að leggja niður starfið mitt og mér þar með sagt upp störfum og þyrfti ekki að mæta meira til vinnu. Maður var því í ansi undarlegu hugarástandi á þessum fyrsta fundi Alien.  

Skemmst er frá því að segja að við fyrstu kynni féllum við öll kylliflöt fyrir henni Guðnýju og ekki síst hann Bergur.  Alveg einstök manneskja sem átti eftir að reynast okkur mjög vel þennan skrítna og erfiða vetur.Við ákváðum á þessum fundi að Bergur myndi sækja sína fermingarfræðslu inn í Öskjuhlíðarskóla með öðrum fermingarbörnum þar.  Bergur fór síðan með pabba sínum á þriðjudögum inn i Öskjuhlíð og fræddist um Jesú.  Þessar ferðir hjá okkur voru mjög góðar og þó svo að hann hafi ekkert alltaf verið í stuði með Guði þá gekk þetta oftast vel hjá honum.  Stundirnar á reykjanesbrautinni voru síðan ómetanlegar þar sem við gátum rætt saman um það sem Guðný hafði verið að tala um ásamt því að gera atlögu að lausn lífsgátunnar. 

Eftir áramótin var síðan komið að því að æfa athöfnina i kirkjunni.  Okkur Ingu langaði rosalega mikið til að fá að vera svona eins og "venjulegir" foreldrar og fá að sitja bara og fylgjast með fermingunni og kannski grenja smá líka.  Ekki vera í fullri vinnu við að reyna að toga hann upp að altari og passa að hann sparkaði ekki í prestinn.  Blush

Og þá var komið að honum Gylfa.  

Gylfi hefur verið stuðningsaðili við Berg í nokkur ár.  Hann hefur náð alveg ótrúlega vel til hans og hefur verið aðdáunarvert að fylgjast með þeirra samskiptum í gegn um tíðina.  Gylfi var til í slaginn þegar Inga spurði hvort hann vildi hjálpa  okkur í þessu verkefni. Hann tók síðan þetta hlutverk langt út fyrir  það sem við þorðum að vonast eftir og á algerlega skuldlaust heiðurinn af því hvernig til tókst í kirkjunni. 

Þegar við Inga vorum að velta fyrir okkur hvernig athöfn við vildum sjá þá var alltaf soldið erfitt að hugsa út fyrir raunsæið.  Bergur er bara þannig gerður að ákveðnir hlutir koma honum úr jafnvægi og eiginlega allt sem tengdist fermingunni var á þeim lista Devil.  Þannig að ef við litum á þetta raunsætt, þá var þetta bara ókleift fjall.  Hvernig átti að koma honum í spariföt án þess að vera með brækurnar girtar ofaní  sokka, hann gat ekki haft bindi, ekki verið í kyrtli án þess að brjálast úr pirringi.  Hvernig átti að koma honum inn í kirkjuna, upp að altarinu og að fara í gegn um athöfnina.  Hvernig átti að spila tónlist í kirkjunni án þess að hann færi að garga og hvernig átti svo að koma honum út úr kirkjunni fram hjá öllum gestunum án þess að gera einhvern skandal. Svo var veislan öll eftir og satt best að segja átti maður ekkert endilega von á að hann fengist til að koma í hana sjálfur og vorum við með backup plan að ákveðin aðili myndi þá fara með hann á rúntinn.  

Æfingar í kirkjunni gengu upp og ofan og fljótlega virtist myndast smá mynstur sem lýsti sér þannig að ef foreldrar voru að skipta sér af þá gekk illa en ef Gylfi fékk að ráða þá gekk vel.  Þannig að á síðustu tveimur æfingum héldum við okkur til hlés og þá allt í einu virtist eins og þetta gæti gengið. Halli Valli gítarsnillingur kom á síðustu æfinguna 2 dögum fyrir athöfn og virtist það ganga alveg ótrúlega vel.  Satt best að segja var ég ekki viss um að ég ætti að trúa þessu öllu sem Gylfi sagði því að ég hafði aldrei séð þetta ganga svona vel eins og hann sagði.   Við létum þetta því algerlega í hendurnar á Gylfa og leyfðum honum að ákveða fyrirkomulagið á athöfninni þ.e.a.s hvaða tónlist yrði spiluð, hvernig hún yrði flutt (gítar eða ipod) og hann sá alveg um að koma Bergi í kyrtil og inn í kirkju.  

Á fermingardaginn kom Gylfi síðan kl. 1330 og sótti Berg.  Þeir fóru síðan saman félagarnir alveg glerfínir.  Bergur hafði verið smá pirraður þegar ég var að klæða hann í jakkafötin en um leið og Gylfi birtist gufaði sá pirringur upp.  Við fórum síðan sjálf niður í kirkju um kl. 1400 og þorðum varla að fara inni í kirkjuna sjálfa.  Þegar við síðan gengum loks inn og sáum allt þetta góða fólk sem var mætt og drenginn okkar sitja með þessum frábæru vinum sínum Halla Valla og Gylfa og prestinn síðan sitja ferlega heimilislega á altarinu hjá honum þá kom það ansi sterkt við hjartað í okkur.  Ég er bara þannig gerður að ég tek allt það sem snýr að börnunum mínum alveg beint inn í hjartarót og á oft mjög erfitt með leyna tilfinningum mínum þegar þau eru annarsvegar.  Sem dæmi tók skírnarathöfnin hans Bergs frekar langan tíma þar sem pabbinn ætlaði bara ekki að geta hætt að grenja Whistling

Ég hafði því mjög miklar áhyggjur af því að ég myndi verða mér til algerrar og fullkominnar skammar í kirkjunni og grenja hástöfum.  Ekki bætti úr skák að eftir þennan mjög svo undarlega vetur var sálartetrið stútfullt af allskonar skrítnum tilfinningum sem ég hélt að myndu brjótast út við þetta tilefni.  Ég hélt í fullri alvöru að ég myndi bara springa á einhverjum tímapunkti. En sem betur fer gerðist það nú ekki og maður hélt svona nokkurn vegin haus.  En verð samt að viðurkenna að þegar minn maður kraup við altarið og sagðist vilja leyfa Jesú að vera vinur sinn alla ævi þá var þetta frekar mikið erfitt. 

Þessi dagur sem við höfðum kviðið svo mikið fyrir og í einlægni ekki átt von á að gæti gengið án skakkafalla varð að einhverjum æðislegasta degi sem við sem fjölskylda höfum átt saman.  Athöfnin fór fram úr okkar björtustu vonum, fermingarbarnið var til fyrirmyndar og tónlistarflutningur og annað var akkúrat eins og okkur hafði dreymt um.  Veislan var síðan mjög skemmtileg og við vorum sammála um að í veislusalnum hefði ríkt mjög góður andi Heart

Það er nefnilega ótrúlegt hvað hann Bergur á mikið af góðu fólki sem er tilbúið að koma til hjálpar og leggja sitt af mörkum þegar hann er annars vegar.  Þessi einstaki strákur hefur skilið eftir fótspor í hjörtum ansi margra sem hafa lagt sig fram um að kynnast honum í gegn um tíðina.  Og það er sannarlega mikils virði fyrir okkur foreldrana að fá að upplifa þennan einlæga og fölskvalausa hlýhug í hans garð og alla þessa samgleði frá vinum hans og ættingjum á svona degi.

Við segjum því kærar þakkir til allra þeirra sem hjálpuðu okkur að klífa þennan tind  sem okkur hafði virst ókleifur.   Það þarf sannarlega fólk eins og ykkur fyrir fólk eins og okkur.  Grin

Kveðja

Kristinn J

090228_2_31.jpg

 


Já komdu með í gamlárspartý....

...gamlárspartý, gamlárspartý.  Við skulum skjóta upp rakettummmmmm....LoL

Þó svo að þessir 10 dagar sem Bergur hefur beðið eftir allt árið krefjist gríðarmikillar orku af okkur sem höfum fengið það hlutverk að vera foreldrar hans, þá get ég ekki annað sagt en að það séu töluverð forréttindi að fá að upplifa þessa miklu eftirvæntingu og hrifningu sem fylgir þessu þráhyggjukennda áhugamáli hans. Síðustu 2 dagarnir á árinu 2008 voru mjög skemmtilegir og munu seint líða okkur úr minni.  Ég ætla að reyna að setja atburði þessara daga upp í smá tímaröð og leyfa ykkur að gægjast aðeins inn í hugarheim rakettudellustráksins míns.Tounge

Bergi var boðið að koma í heimsókn á flugeldasölu björgunarsveitarinnar í grindavík á þriðjudagsmorgninum (30.des) og gekk af þeim sökum afar erfiðlega að sofna kvöldinu áður. Það hafðist þó þegar farið var að nálgast miðnættið.  

30.des

  • 06:14 Bergur vaknar og spyr hvort að nóttin sé búin. Honum er tjáð af svefnstjörfum foreldrum að svo sé ekki heldur þvert á móti.
  • 08:30 Bergur vaknar og segist ætla að fara til grindavíkur.  Allar mútutilraunir til áframhaldandi svefns brotna líkt og brim á bergvegg.
  • 11:45 Bergur og pabbi hans eru mættir fyrir utan flugeldasölu björgunarsveitarinnar í grindavík. Honum hafði verið boðið að koma og skoða aðeins á bakvið borðið áður en að salan opnaði.  Við þáðum það með þökkum og sáum fram á að geta skoðað okkur vel um og verslað síðan eitthvað í kjölfarið. Við erum síðan slegnir algerlega út af laginu þegar björgunarsveitarfólkið tekur upp a því að hlaða Berg gjöfum.  Hann fer heim með derhúfu, límmiða, 2 glóandi partýglös,vasaljós og eitt stykki af Gunnlaugi Ormstungu skotköku.  Ekkert smá höfðinglegar móttökur sem við fengum hjá þessu frábæra fólki.
  • 13:50 Fer með pabba sínum út að skjóta upp einhverju smádrasli
  • 16:20 Séra Skúli bankar uppá hjá okkur með ekki eina heldur 2 hlussu skotkökur.  "Guðmundur almáttugur" segir Bergur og sérann fær risaknús frá Begga.
  • 20:00 Lætur pabbi loks undan þrýstingi um að fara út að skjóta upp einhverju dóti.  Ég sagði honum að fara yfir til Unnars og Elvars í næsta húsi, banka uppá og segja strákunum að við ætluðum að skjóta aðeins upp.  Bergur hleypur yfir ,æðir inn án þess að gera nokkur boð á undan sér og æpir yfir allt " Elvar, rakettur !!" og hleypur síðan sem fætur toga til baka.
  • 23:40 Sofnar seint og um síðir með rakettupokann, rakettukassann og fjölskyldupakkann á gólfinu hjá sér. Vildi fyrst hafa fjölskyldupakkann á koddanum við hliðina á sér með sængina breidda yfir en pabbi strækaði á það. 
31.des - 01.jan Gamlársdagur og Nýársmorgun
  •  05:30 Vaknar og vill fara að skjóta upp.  "Heyrðu pabbi, er nóttin búin.  Hægt að skjóta upp??"  Pabbinn blótar í hljóði þegar hann rekur litlu tánna í hurðarkarminn þar sem hann ráfar svefndrukkinn inn til unglingsins og reynir síðan að  hnoða allri fyrstu önninni í rökfræðum 103 í eina setningu en dettur þó ekkert betra í hug en "...ennþá nótt úti, sofa aðeins meira".
  • 09:00 Vaknar og allar tilraunir til áframhaldandi svefns eru árangurslausar. Hefur litla sem enga matarlyst og nennir ekkert að fylgjast með barnaefni í sjónvarpinu.  Rogast um húsið með rakettupokann sinn, fjölskyldupakkann og rakettukassann líka. 
  • 13:35 Fer út með pabba sínum að kveikja í smádrasli.  Var búin að suða frá því hann vaknaði en af tillitssemi i við aðra íbúa i hverfinu dró pabbinn þetta á langinn eins og hægt var. 
  • 15:14 Bankað á dyrnar og skuggi af óvenju hávöxnum einstaklingi sést í gegn um glerið.  Fyrir utan stendur hann Halli Valli með risa rakettu sem búið er að árita sérstaklega fyrir Berg.  Halli Valli var liðveisla og stuðningur við hann Berg um tíma og hefur alla tíð síðan reynst honum mikill og góður vinur.  Bergur er mjög ánægður með að hafa fengið " Halla Valla rakettu".
  • 16:03 Aftur er bankað á dyrnar og nú er hann Diddi mættur til að heilsa aðeins upp á Berg á þessum stóra degi.  Diddi er núverandi liðveisla fyrir hann Berg og algerlega frábær í því hlutverki.  Diddi bað Berg síðan að koma aðeins með sér út í bíl og sótti þar eina forláta skotköku sem hann gaf svo Bergi.  Hamingjuvísitala Bergs tók umtalsvert stökk við þessa gjöf og vissi hann varla í hvorn fótinn hann átti að stíga.  
  • 17:30 Fer í gamlársveislu hjá Ömmu og Afa með rakettudótið sitt. 
  • 19:40 Förum út i sandgerði á brennu og flugeldasýningu.  Höfum farið þarna á hverju ári í nokkur ár og aldrei verið svikinn af flugeldasýningunni þeirra hjá björgunarsveitinni Sigurvon í sandgerði. Bergur er rosalega ánægður með lífið. 
  • 21:00 Er kominn aftur til Ömmu og Afa í gamlárspartý og fer til skiptis út á pall að fylgjast með hvort verið sé að skjóta upp og niður í skúr að fara yfir hvað sé til af flugeldum. 
  • 22:00 Er farinn út með frænda sínum og frænku að skjóta aðeins upp
  • 22:30 Skaupið að byrja og pabbi gerir sig kláran í að fara út með Begga og leyfa öðrum gestum að njóta skaupsins.  Að þessu sinni er honum snúið við af ömmu Möggu sem komin er í kuldagallann sinn og sagt að fara inn og horfa á skaupið. 
  • 23:30 Skaupið búið og allir búa sig út. Hin einstaka íslenska allsherjar flugeldasýning er að hefjast og mun standa í u.þ.b. eina klst. 
 
horfir_upp.jpgBergur stendur hugfangin og fylgist með þessu einstaka sjónarspili með öryggisgleraugun sín og derhúfuna sem hann fékk hjá flugeldasölu björgunarsveitarinnar í grindavík.  Hann sækir hvert flugeldadótið af öðru og kemur með út.  Foreldrar hans mega hafa sig alla við að passa að hann sæki úr réttu góssi. Hann fer nokkrum sinnum með pabba sínum og "aðstoðar" við að tendra kveikinn og hleypur síðan til baka með rosalegum tröllahlátri LoL. En aðallega horfir hann á sjónarspilið á himninum með hendur í vösum og segir bara "vááááá...".
 
  • 00:30 Mestu sprengingarnar búnar og allir nema Bergur og foreldrar hans eru farnir inn.  Mamma og systir hans koma út með 4 glös og saman skálar fjölskyldan fyrir nýju ári.
  • 01:15 Kveðjum gamlársveisluna og höldum heim á leið. Bergur er ennþá úti að fylgjast með og hefur eiginlega ekki fengist inn frá kl. 22:00. 
  • 03:00 Nær loksins að sofna eftir nokkrar tilraunir.  Er mjög spenntur og á erfitt með að ná sér í ró. 
  • 10:00 Vaknar og vill fara að skjóta upp.  Pabbi skríður upp  í til hans og fær hann til að kúra til hádegis.
  • 12:00 Vaknar og fer að leita að rakettupokanum sínum. 

skur.jpgÞannig gengu áramótin í garð hjá okkur að þessu sinni.  Mikið fjör og mikið gaman.  Það er eiginlega ekki hægt að lýsa með orðum þessum undarlega hugarheimi sem við fáum að fylgjast með þegar þessir dagar í kring um áramótin koma og fara. Við teljum það mikil forréttindi að fá að fylgjast með þessari hrifningu svona nálægt.  Við erum líka meðvituð um hlutverk okkar foreldrana á þessum dögum.  Það er undir okkur komið að upplifunin verði með sem jákvæðasta móti. Þá meina ég ekki að við splæsum nógu miklum peningum í flugelda heldur að samveran og stússið í kring um flugeldana verði jákvæð og skemmtileg.  Það kostar svosem töluverða orku og þegar jólafríinu lýkur er orkutankurinn oftast tæmdur og varatankurinn líka.  En þeirri orku er vel varið, líkt og peningarnir sem flugeldasala björgunarsveitanna fær. Wink

Við óskum svo öllum sem hafa nennt að fylgjast með okkur á þessu bloggi gleðilegs árs og þökkum fyrir samveruna á síðasta ári hvort sem hún var í net eða raunheimi.  Smile

Kv.

Kej. 


Sirkusinn er komin í bæinn !

Og þá er komið að því.  Stóra stundin loks runnin upp. Núna er búið að opna fyrir sölu á flugeldum og engin hætta er á því að löggan komi og skammi mann fyrir að vera eitthvað að vesenast með flugelda. Grin

 Ég hafði ætlað að blogga aðeins þéttar um aðdragandann að þessum stóra degi í hjarta einhverfa unglingsins míns en það varð nú bara svo að þegar að fellybylurinn Bergur lenti á Þverholtinu af fullum þunga yfir jólahátíðina þá urðu bloggtækifærin álíka mörg og hárin á höfðinu á mér. 

Hann Stúfur jólasveinn kom öllum á óvart á aðfangadag með því að setja pakka undir tréð sem minnti grunsamlega á lögun  fjölskyldupakkanna frá björgunarsveitunum Whistling.  Það kom síðan á daginn að sá grunur reyndist á rökum reistur og úr varð gríðarmikil hamingja.  Að auki fékk Bergur í jólagjöf gjafapoka með allskonar flugeldadóti frá nágrönnunum í næsta húsi. Ekki varð hamingjan minni við það allt saman.  Þessum tveimur gjöfum hefur Bergur síðan druslað með sér hvert sem hann fer, á klósettið, í bílinn, upp í rúm að sofa og bara hvert sem hann hefur farið.  

Þegar að búið var að kveikja í flestu því sem var í gjafapokanum frá nágrannanum var Bergi svo boðið að koma yfir og velja sér meira flugeldadót í pokann sinn.  Okkar maður var gríðarlega sáttur við þessa tilhögun og er nú alltaf að tala um hvað hún Erla hafi verið góð við hann.  InLove

En það eru líka fleiri sem eru góðir við hann Berg þessa dagana.  Margir sem greinilega hafa orðið snortnir af þessum rosalega mikla flugeldaáhugamanni.  Bergur hefur safnað peningum í rakettusjóð allt árið og hafa amma og afi verið dugleg að pota peningum í budduna hans.  Hann hefur líka oft fengið óvæntar rakettugjafir á gamlárskvöld frá vinum hans héðan og þaðan.  Við Beggi fórum í kvöld og heimsóttum flugeldasöluna hjá knattspyrnudeildinni hjá Keflavík.  Við höfum yfirleitt byrjað á því að koma við hjá þeim á fyrsta söludegi og keypt eitthvað smáræði þar og farið síðan yfir til björgunarsveitanna og gert aðalinnkaupinn hjá þeim.  Í fyrra bar svo við að Bergur mætti til K flugelda á fyrsta söludegi og heillaði alla viðstadda upp úr skónum með sínum einlæga áhuga.  Seinna sama dag mætti síðan fulltrúi frá Keflavík til okkar á Þverholtið og færði Bergi og Gyðu mjög veglegar flugeldagjafir.  Einungis vegna þess einlæga áhuga sem hann hafði sýnt á sölunni hjá þeim fyrr um daginn. 

Í ár byrjuðum við hinsvegar á að fara í heimsókn til björgunarsveitanna og versluðum soldið við þá.  Við vorum ekki alveg viss hvernig verðlag yrði í ár og hversu mikið við gætum verslað. Það er að sönnu töluvert hærra en í fyrra og við vorum eins hófstillt og við gátum leyft okkur að vera. En við ákváðum að fara samt sem áður til K flugelda og sjá hvað þeir væru með.  

Þegar við mættum síðan til þeirra í kvöld þekktu allir sölumenn hann með nafni og höfðu á orði að þeir hefðu nú átt von á honum í gær. "Jæja ertu loksins komin" var sagt við hann og honum síðan færður að gjöf svakalega flottur kassi með alskonar rakettudrasli sem hægt er að dunda sér við í langan tíma.  Þessi kassi hefur nú tekið sér stöðu við hlið gjafapokans og fjölskyldupakkans og liggur við hliðina á rúminu hans þegar hann fer að sofa. 

Í fyrramálið er síðan búið að bjóða Bergi að koma í aðstöðuna hjá björgunarsveitinni í Grindavík og skoða hjá þeim flugeldalagerinn. Það verður án efa athyglisvert á alla kanta. Tounge

Kv.

Kej. 


10 ár og 10 dagar

Síðustu 10 ár eða svo hefur Desember mánuður verið erfiðasti mánuður ársins.  Án nokkurs vafa.  Aðdragandi jóla og ekki síst áramóta hefur nánast undantekningarlaust kallað fram flogaköst hjá Bergi og hann hefur alltaf átt mjög erfitt með að höndla þá spennu sem fylgir öllu stússinu.  Þegar hátíðin gengur svo í garð með öllum sínum jólaboðum og jólahefðum hefur lífið hjá þessari litlu fjölskyldu oft á tíðum verið mjög erfitt.  Litli maðurinn áttaði sig aldrei á því að á jólunum ætti maður að haga sér eftir einhverri forskrift og að úr jólafríinu ætti fólk að koma úthvílt.

Þau eru ótal vonbrigðin sem maður getur rifjað upp, jólaboð sem fóru í vaskinn.  Spilakvöld sem ekki var hægt að taka þátt. Sjónvarpsefni sem ekki var hægt að fylgjast með og hvíld sem ekki náðist.  Oft voru það þreyttir og allt að því bugaðir einstaklingar sem mættu aftur í vinnu eftir jólafrí og vissu ekki hvernig þeir áttu að svara klassísku spurningunni: "Hafðir þú það ekki fínt í fríinu ?".

Ég man eiginlega ekki eftir jólum síðustu c.a. 10 árin þar sem við höfum náð að njóta jólanna og upplifa jólastemmingu eins og kannski flestir gera ráð fyrir að gera.  Ég hef áður komið inn á þann punkt að allt snýst þetta um hvaða væntingar maður gerir til jólanna og reyndar lífsins sjálfs.  Fyrstu árin fórum við inn í jólin með þær væntingar að við fengjum svipaða upplifun af jólunum og hefð var fyrir áður en að Bergur fæddist.  En eitt árið tókum við meðvitaða ákvörðun saman um að hætta að gera þessar óraunæfu væntingar sem aldrei stóðust hvort eð er og lækka væntingarránna niður í hæðina hans Bergs.  Eftir það breyttist mikið hjá okkur, jólaboðin urðu ekki eins erfið, samt aldrei létt og vonbrigðin urðu ekki eins mikil, en samt alltaf einhver. 

myndir_1378.jpgEn nú er svo komið í desembermánuði á því herrans ári 2008 að okkar þrettán ára gamli einhverfi drengur er komin í svo mikið jóla og áramótaskap að það dugir eiginlega fyrir okkur öll.  Systir hans er svo sem engin eftirbátur hans og saman hafa þau náð að lýsa upp skammdegið fyrir okkur hjónunum og eiginlega ekki nokkur leið að fyllast ekki barnslegri eftirvæntingu eftir jólunum. Tounge  Í ár hefur Bergur náð að höndla aðdraganda jólanna á mun betri hátt en áður og enn bólar ekkert á flogakastinu (sjö, níu, þrettán).  Það er eiginlega svo komið þann 18 desember að við erum öll fjögur komin í alveg húrrandi jólaskap og hlakkar bara töluvert til jólahátíðarinnar.  Ég hef ekki eins miklar áhyggjur af þessu langa fríi frá skólanum og daglegri rútínu og geng jafnvel svo langt að hlakka til þess að eiga tíma með báðum krökkunum mínum í ár.  Það er alveg nýtt og það er alveg frábært. 

Við vorum að velta fyrir okkur hversvegna Bergur væri afslappaðri í ár en oft áður og teljum að hluti af skýringunni gæti verið sú að í fyrra fékk hann eftir krókaleiðum, flugeldafjölskyldupakka í jólagjöf frá jólasveininum og hann væntir þess að svo muni einnig verða í ár.  Við útbjuggum líka fyrir hann forláta möppu með fullt af flottum flugeldamyndum sem hann hefur verið að skoða og velta fyrir sér allan þennan mánuð.   Og ekki má gleyma rakettumyndbandinu sem pabbi hans klippti saman handa honum og setti á dvd disk og inn á ipodinn okkar.  Það er eins og þetta hafi einhvernvegin tappað af þrýstingi af áramótaspenningnum og jafnað hann betur út. 

Flugeldar eru hans helsta áhugamál og þið getið kannski ímyndað ykkur að hafa gríðarlegan áhuga á einhverju eins og t.d. fótbolta ,hestum eða bara hverju sem er, en geta ekki og mega ekki sinna þessu áhugamáli nema í nokkra daga á ári hverju.  Líklega myndi nú byggjast upp einhver spenna í aðdraganda þeirra fáu daga og einhverjir fengju jafnvel nett flog. 

Og svo að það sé á hreinu þá eru núna 10 daga þar til flugeldasölur opna.  Grin

Kv.

Kej.

 


Tónlist,tilfinningar og Tom Waits.

Ég elska tónlist.  Gæti ekki lifað í heimi án tónlistar.  Tónlist gefur mér orku og nærir í mér sálina.  Ég elska að spila á hljóðfæri og elska að hlusta á aðra flytja tónlist.  Að fara á tónleika finnst mér ein besta skemmtun sem til er.  Spenningurinn sem myndast í tónleikasalnum rétt áður en listamaðurinn eða hljómsveitin stígur á stokk er engu líkur.  Joyful

Eg fór að velta mér upp úr því um daginn hversu tengt það er hvernig mér líður hverju sinni og hvað ég er að hlusta á þá stundina. Síðasta vetur sem dæmi hlustaði ég mjög mikið á Arcade Fire, Damien Rice og Sigurós.  Að mörgu leyti er þetta allt tónlist sem sveiflast í neðri hluta geðkúrvunnar og hentug til að vökva og viðhalda geðlægðum. 

Í sumar hlustaði ég hinsvegar rosalega mikið á tónlistamenn eins og Manchester tvíeykið Ting Tings New York skvísuna Santogold, Sri Lanka ættuðu London stelpuna M.I.A. og hina geðugu Toronto drengi í Holy F--k.   Allt alveg gríðarlega hress og upplífgandi tónlist.  Enda var ástandið á sjálfinu allt annað og hressara heldur en á vetrarmánuðum.  

Nú á haustmánuðum var ég svo komin á kaf í Tom Waits og veit eiginlega ekki alveg hvað ég á að halda um það. Allt frá því á áttunda áratugnum hef ég verið að heyra um Tom Waits og hversu frábær hann sé.  Ég hef einhvernvegin aldrei náð honum og fyrir mér var þetta bara skrítin kall sem söng skrítin lög með sinni skrítnu rödd.  En um daginn "áskotnaðist" mér safn með öllu því sem gefið hefur verið út með kallinum og ákvað ég að láta reyna á hvort ég væri að missa af einhverju. Byrjaði á fyrstu plötunni, Closing Time frá 1973. Og viti menn í staðin fyrir skrítin kall að syngja skrítin lög hljómaði þessi líka fíni melódíski píanó djass.  Ég vann mig síðan í gegn um ferilinn hans og eftir Swordfishtrombones frá 1983 og Rain Dogs frá 1985 var ég alveg kolfallinn fyrir þessum snillingi. 

Einhver lýsti röddinni hans með þeim orðum að eftir að hafa verið marineruð í viskíi og látin hanga i reykkofa í nokkra mánuði hefði hún verið dregin út á götu og bíll látin keyra yfir hana nokkrum sinnum. Tónistargáfa og tilfinning þessa manns fá eiginlega ekki orð lýst og þegar maður hugsar til þess að árið 1976 þegar heimsbyggðin var að spá í Bee Gees og ABBA kemur Tom Waits með Tom Trauberts Blues á plötunni  Small Change.  Ég get ekki hlustað á þetta lag án þess að fá gæsahúð, það er bara svoleiðis. 

Nú þegar veturinn hefur lagst yfir síðustu haustlaufin og allir fjölmiðlar keppast við að telja okkur trú um að framtíð þessarar þjóðar sé eymd, vesæld og volæði þá sit ég hér og hlusta á þrefaldan safndisk Rúnars Júlíussonar , Söngvar um Lífið og get í framhaldinu ekki verið meira ósammála þeim sem vilja predika dómsdagsspár um framtíð okkar litla lands. 

Það þarf fólk eins og þig, fyrir fólk eins og mig. 

Kv.

Kej. 


12 dagar.

12 dagar í opnun fyrir sölu á flugeldum  og einhverjir hafa nú verið að þjófstarta FootinMouth.  Heyrst hafa hvellir sem benda til flugeldafikts og einnig hafa borist fregnir af því að póstkassi hafi verið sprengdur upp. Okkar maður hefur sem betur fer ekki tekið eftir þessu og er bara tiltölulega rólegur yfir þessu öllu saman, so far.  Rakettumappan hefur nú aðeins vikið fyrir skóstússi.  Nú er aðalmálið að haga sér vel svo maður fái nú eitthvað í skóinn sinn.  Svo fer morguninn í það að troða því sem kom í skóinn, ásamt því sem kom í gær og jafnvel daginn áður, aftur í skóinn.  Rúmfræði hefur aldrei verið sterkasta hlið Bergs og því gengur oft soldið mikið á þegar hann er að þessu því oftast passar þetta ekki í skóinn

Þau systkinin eru komin í þvílíkt jólaskap að við gamla settið erum bara skilin eftir í reyk.  Eftir að jólasýningunni lauk hjá fimleikafélaginu datt litla skottið okkar í jólagírinn af fullum krafti.  Bergur segist reglulega vera í jólaskapi og eftir að jólasveinarnir fóru að pota einhverju í skóinn hans þá varð ekki aftur snúið með það. Í morgun fór hann svo í skólann með jólasveinahúfu, sagðist heita Stúfur, og tók með sér skóinn sinn með því sem hann fékk frá Pottaskefli til þess að sýna kennurunum  sínum hvað hann hefði fengið. Ég bauð honum að velja á milli rakettumöppunnar og skósins og mappan var skilin eftir. W00t

Þegar þessar línur eru skrifaðar er dúnalogn myrkur og fallandi snjór .  Jólalög í útvarpinu og eiginlega kjöraðstæður til þess að komast í jólaskap.   Af einhverjum orsökum næ ég samt ekki að detta í jólagírinn almennilega.  Ætli það sé kreppunni að kenna ?Errm

Kv.

Kej


Næsta síða »

Um bloggið

Inga Sveinbjörg Ásmundsdóttir
Inga Sveinbjörg Ásmundsdóttir

Þetta blogg er dagbók 4 manna fjölskyldu í Reykjanesbæ.

Upphaflega var hugmyndin með þessu bloggi að leyfa áhugasömum að fylgjast með framvindu þjálfunar á border collie hundi sem við fengum um árámótin 2008. Markmið þjálfunar var m.a. að kenna hundinum honum Goða að passa upp á hann Berg sem er einhverfur 13 ára drengur. Við vildum líka geta horft til baka og skoðað þetta aðeins í baksýnisspeglinum. 

Bloggið hefur síðan þróast aðeins  og hinar og þessar hugleiðingar hafa dottið hingað inn og ekkert endilega tengdar honum Goða sem bloggið er þó nefnt í höfuðið á. 

Allir þeir sem hafa áhuga á að fylgjast með okkur og jafnvel koma með innlegg eru velkomnir. Fjölskyldumeðlimir eru:

Kristinn Edgar Jóhannsson

Inga Sveinbjörg Ásmundsdóttir

Bergur Edgar Kristinsson

Gyða Sveinbjörg Kristinsdóttir

Goði Freyr Gyðuson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Myndaalbúm

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Teppi
  • Hetta
  • ...imag0101
  • ...090228_2_31
  • ...skur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband