29.1.2008 | 06:49
London Calling ferðasaga. 1. hluti.
Við hjónin skruppum til lundúna í fimm daga nú í byrjun árs. Inga var að fara ásamt nokkrum samkennurum á tölvu og tækniráðstefnu sem kallast BETT og er haldin árlega. Þar sem ég var í aðstöðu til að skella mér með þá gerði ég það. Ég hafði aldrei komið til london áður en Inga fór þegar hún var lþó nokkuð yngri. Við vorum því nokkuð forvitinn að koma þangað. Einhverra hluta vegna höfum við ekkert verið neitt rosalega spennt fyrir london. Við höfðum bæði þá mynd í höfðum okkar að þetta væri óhrein, óörugg og fúl borg sem í byggju bara fótboltabullur og annar leiðindalýður . Vá hvað við höfðum rangt fyrir okkur.
Við ákváðum að fara út degi fyrr en kennarahópurinn þar sem flugið þeirra var orðið nokkuð þétt bókað (alltaf stuð að ferðast á starfsmannmiðum). Við tókum síðdegisflugið og vorum komin uppá hótel um kl. 2200. Hótelið heitir Jurys Clifton og er rétt fyrir ofan Oxford street. Við vorum sársvöng eftir ferðalagið og fórum strax út að leita að einhverjum veitingastöðum. Við fundum fljótlega littla þyrpingu af matsölustöðum og gátum valið á milli amerísks, ítalsks, líbansks eða fransks matseðils. Fyrir utan líbanska staðinn sat fólk og reykti vatnspípur og í einfeldni okkar töldum við víst að þarna væri einhver ópíumbúlla og gengum frekar hratt framhjá. Við völdum þann franska og fengum okkur sæti á Cafe Rouge. Ævintýraþráin hafði gripið mig heljartökum á þessari stundu og ég ákvað að velja mér eitthvað sem hljómað ægilega franskt á matseðlinum. Þarna sátum við því skötuhjúin, hún með glas af chardonnay og ég með le tartalette au...eitthvað og hlustuðum á je t´aime sem hljómaði um kaffihúsið. Ægilega franskt eitthvað.
Síðan fórum við að sofa og ætluðum heldur betur að sofa út og njóta þess að vera í fríi. Kl. 0300 um nóttina vaknaði minn með magakveisu dauðans og hélt ég fyrst að ég væri komin með ælupest sem hafði verið að ganga og þetta langþráða frí væri farið í vaskinn (eða klósettið). Eftir að hafa skilað tartalettunum sína leið þá leið mér nú snöggtum betur og líklega hefur þeim einum verið um að kenna enda fékk ég þá skýringu að tartalettur væru helst notaðar undir afganga. Aldrei að panta sér tartalettur ef maður er á veitingastað í útlöndum.
Komumst síðan að því að starfsmannalyfturnar voru staðsettar rétt fyrir utan herbergið okkar og vöknuðum við einhver ding og dong ansi snemma. En þegar maður er þreyttur þá lætur maður svoleiðis nokkuð ekki raska rónni og við snerum okkur bara á hina hliðina og sváfum aðeins lengur.
Meira síðar.
Kv.
KJ
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.2.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.