16.3.2008 | 06:48
Þjálfun hafin.
Jæja þá er hann Goði loks byrjaður í þjálfuninni. Við fórum á miðvikudagskvöldið til hans Atla í fyrsta tíma og gekk alveg ljómandi vel. Því miður gleymdist myndavélin í fyrsta tíma en hún verður með í næsta tíma og þá set ég inn nokkrar myndir.
Aðaláherslan til að byrja með verður á að ganga við hæl ásamt nokkrum öðrum skipunum. Við höfðum verið að æfa okkur áður en þetta námskeið hófst og fannst mér okkur Goða ganga bærilega að ganga við hæl. Eftir að hafa séð handtökin hjá Atla sá ég að við höfðum ekki gert þetta alveg rétt og í raun ekki gengið eins vel og við héldum.
Það var nokkuð magnað að sjá hvernig Goði brást við handtökunum og skipunum hans Atla því hann gekk strax við hæl hjá honum og fylgdi honum algerlega snurðulaust . Hann var samt alltaf að gjóa augunum til okkar og vildi helst bara vera hjá okkur en ekki þessum brjálaða kalli sem var alltaf að gera einhverjar kröfur á hann. Atli sýndi okkur líka hvernig við getum fengið hann til þess að hætta að flaðra upp um okkur. Það gerði hann svona: Fyrst egndi hann Goða til þess að setja framlappirnar upp á hann og um leið og hann gerði það setti hann hnéð út og ýtti honum þannig af sér og sagði ákveðið "nei! ". Þegar heim var komið ákvað ég að prófa þetta sjálfur þar sem Goði gerir mikið af því að stökkva upp á okkur og oft er það hið versta mál t.d. úti í hesthúsi með hestskítin á loppunum. Ég vissi að alltaf þegar ég teygi úr mér þá er hundurinn mættur með framloppurnar uppá bringu. Því teygði ég duglega úr mér þannig að hann sæi og um leið var hann mættur. Ég rak þá hnéð út og sagði við hann "nei". Goði greyið varð heldur lúpulegur og lallaði sér í burtu alveg hissa á þessari meðferð. En eitthvað tengdi hann þetta skakkt greyið því nú er svo komið að ef ég teygi úr mér þá setur hann skottið á milli lappana og flýr í skjól hjá næsta meðlimi fjölskyldunnar. Úps.
Næsti tími féll síðan niður vegna veikinda á heimilnu og þegar þessar línur eru skrifaðar eru 3 af fjórum meðlimum fjölskyldunnar í veikindum.
Kv. Kej
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Hæ hæ við erum að fara með hana Nölu okkar í þjálfun í næstu viku, og það er smá kvíði í okkur yfir því hún er nefnilega voða góð og hlýðin INNAN dyra en leið og hún fer út þá bara er hún heyrnalaus og blind og hún verður vægast sagt brjáluð ef hún hittir aðra hunda svo að þetta verður forvitilegt að sjá hvernig gengur á svona námskeiði með fullt af hundum
vona að famelían fari að hressast
kv Sóley
Sóley (IP-tala skráð) 16.3.2008 kl. 08:43
Gleðilega páska óskum við ykkur öllum
Sigrún Friðriksdóttir, 23.3.2008 kl. 17:43
Hæ, sá commentið hjá þér á minni síðu. Við erum svo mikið að spá í að fá okkur hund fyrir okkar einhverfa strák. Hann ljómar allur alltaf þegar hann sér hunda og ég held að hundur mundi örva hann. Hann hefur líka áhuga á svo fáu en hundur virðist vekja áhuga hans. Ertu að fara með þann einhvera með í hundaþjálfunina? Ég sé það nú ekki alveg gagna með minn, hann þyrfti nú slíka þjálfun sjálfur .
Það voru líka allir búnir að vera veikir hér - til skiptist- allir í röð og svo aftur næsta veiki....nema sá elsti (15 ára) auðvitað en hann verður aldrei veikur.
Halla Rut , 23.3.2008 kl. 23:23
Rosalega er þetta áhugavert. Verð að fá að fylgjast með ykkur.
Jóna Á. Gísladóttir, 23.3.2008 kl. 23:31
Hæ hæ Gleðilega páska
Fórum með Nölu á námskeiðið og gekk svona glimrandi vel
Nala er nýlega farin að hoppa svona upp á alla, og svo þegar við fórum að fylgjast aðeins með þá var Tedda búin að vera að kenna henni það hún sem sagt dælir í hana nammi ef hún hoppar upp á Teddu svo að nú er hún farin að hoppa upp á alla í von um nammi......
vona að allir séu orðnir hressir
kv Sóley
p.s. spurning að fara að hittast bara á kaffihúsi í Keflavík
Sóley (IP-tala skráð) 24.3.2008 kl. 09:59
Jóna: Ég setti inn tilvitnun í þína síðu aðeins fyrr í blogginu okkar og ætlaði alltaf að benda þér á það en gleymdi því síðan. Vona að þér sé sama.
http://www.godihundur.blog.is/blog/godihundur/entry/438443/
Sóley:Það var Teddu líkt að egna kvikindið í að flaðra upp á hana. En þess ber að geta að Goði er algjörlega steinhættur að stökkva upp á mig jafnvel þó við séum að leika með eitthvað nagdót. A júdómáli myndi þetta kallast Ippon eða fullnaðarsigur.
Halla:Tilgangur þjálfunarinnar er að Goði og Bergur verði vinir og passi upp á hvorn annan. Goði verður samt sem áður alltaf fjölskylduhundur en bara með aðeins sérhæfðari þjálfun en hin almenni hundur. Bergur kemur inn í þjálfunina aðeins seinna eða þegar búið er að vinna með s.k. grunnþjálfun.
Inga Sveinbjörg Ásmundsdóttir, 24.3.2008 kl. 14:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.