Lífið er yndislegt, eða hvað.

    Merkileg vera þessi tilvera. Merkilegt hvað mannfólkið er misjafnt og hvað við fáumst við mismunandi hluti á lífsleiðinni.  Okkur eru færð mismunandi góð spil við fæðingu og oft markar það síðan þá leið sem við förum á æviskeiðinu.  Sumir fá beinan og breiðan veg án mikilla hindrana en aðrir þurfa að sætta sig við að brjótast í gegn um illfæra skógarstíga.  En það er í þessu ferðalagi eins og öðrum að það er ekki áfangastaðurinn sem skiptir mestu máli heldur leiðin þangað. Langflestir ferðalangar kjósa að bruna sem hraðast á afangastaðinn með sem fæstum stoppum, helst bara til að pissa og ekkert annað. Það er helst ef að fólk lendir í einhverju áfalli, jafnvel lendir í lífsháska að það áttar sig á því hversu stutt lífið getur verið og hversu mikilvægt það er að taka mörg stopp og gefa sér tíma til þess að skoða umhverfið sitt.

Ekki er gott að finna skýringu á því hversvegna við mannfólkið erum svona vitlaus. Nú er ég alls ekki að setja mig á háan hest því ég er ekkert skárri sjálfur. Mér til málsbóta vil ég þó segja að ég er algerlega þeirrar skoðunar að það er ekkert mikilvægara í mínu lífi en fjölskyldan mín.  Börnin mín og eiginkona eru það allra verðmætasta sem ég á og það sem mótar mig allra mest sem mann.  Ég myndi skrifa undir yfirlýsingu þess efnis að það eina sem ég í raun þyrfti væri fjölskyldan, þak yfir höfuðið og nægileg framfærsla til þess að eiga ofan í okkur og á.

Að því sögðu þá er ég eiginlega alveg ferlegur neysluseggur. Ég er alltaf að spá í að kaupa þetta eða hitt, nýjan bíl, mótorhjól, flatskjá, flakkara osfrv.  Við vorum með alveg ágætis 28" sjónvarp af gömlu gerðinni sem virkaði fínt.  Ég hafði í nokkurn tíma hlegið góðlátlega að mönnum sem voru að eyða formúgu í nýja flatskjái þó svo að þeir ættu annað sjónvarp sem virkaði alveg.  Ég veit ekki alveg hvað gerðist en einn daginn stóð ég sjálfan mig að því að vera að fletta elko og bt bæklingum eins og óður maður og lesandi mig til á netinu um eiginleika plasma annarsvegar og lcd hinsvegar.  Og viti menn, í dag hangir á veggnum glansandi fínn lcd flatskjár sem ég get ekki með nokkru móti réttlætt kaupin á.  Nýjustu mælingar á sjálfum mér hafa aukinheldur ekki sýnt neina sjáanlega aukningu á hamingju eða gleði í kjölfar kaupana. 

Ég hef í gegn um tíðina reynt að temja mér þann hugsunarhátt að peningar séu ekki þess virði að hafa miklar áhyggjur af. Það gengur náttúrulega ekki alltaf en ég reyni samt.  Auðvitað þurfa allir að hafa einhverja lágmarks framfærslu og allir vilja geta  látið sér eftir einhvern munað.  Það er síðan matsatriði hvað hver og einn flokkar sem munað. Mér finnst munaður þegar við hjónin eða fjölskyldan förum í leikhús eða bíó, mér finnst dekur að panta okkur pizzu og við látum okkur það eftir að kaupa okkur árskort í líkamsræktarstöðvar. Einnig tel ég ekki eftir mér að borga fyrir þær íþróttir og tómstundir sem börnin mín stunda. 

Ég hef gríðar mikinn áhuga á að fylgjast með íþróttum og er fótbolti í miklu uppáhaldi.  Ég hef verið liverpool maður frá unga aldri og fylgist vel með þeim bæði í ensku deildinni og meistaradeildinni.  Afturármóti læt ég mér ekki eftir þann munað að borga þær tæpu 9 þúsund krónur sem 365 vill fá fyrir að leyfa mér að fylgjast með. Ef ég legðist nú yfir fjölskyldubókhaldið og framreiknaði hversu mikil slagsíða kæmi á heimilisskútuna við að missa þessar 9 þús. kr. á mánuði þá er ég nokkuð viss um að hún yrði vart mælanleg. En það er að mínu mati aukaatriði, fyrir mér er þetta meira prinsip mál að borga ekki þennan pening. Ég þykist vita að mjög margir eru mér ósammála um þetta og borga þetta án þess að velta því mikið fyrir sér og þar komum við aftur að mismunandi túlkun á því hvað er munaður.

Aðstæður á okkar heimili eru nokkuð sérstakar.  Ekki kannski eins og flest fólk á að venjast. Afleiðing af þessum aðstæðum sem við búum við er að  við höfum þróað með okkur töluverðar ranghugmyndir um hvað teljist vera þægindi og munaður.  Við höfum mjög undarlegar væntingar oft á tíðum og setjum okkur stundum skrítin markmið.  Nætursvefn er munaður sem við búum sjaldnast við. 13 ár eru liðin frá því að það taldist eðlileg krafa að sofa alla nóttina. Að fara með alla fjölskyldumeðlimi á meðal fólks, jól, áramót, afmæli, ferming, 17.júní, íþróttaleikir osfrv. er eitthvað sem skapar mjög mikinn kvíða og eru væntingar oft mjög litlar fyrir slík tilefni.  Löng frí eins og jólafrí og páskafrí eru litinn mjög illum augum á mínu heimili og er andlegi tankurinn yfirleitt alltaf tómur þegar skólar loks opna aftur.  Helgarfrí eru tími til að spenna herðarnar og halda í sér andanum fram á mánudag.  Þetta er aðeins smábrot af þessu öfugsnúna lífi sem við erum að reyna að komast í gegn um.

En auðvitað er þetta ekki bara basl og erfitt.  Það er líka oft mjög gaman.  Bergur er ótrúlega fyndin strákur og oft mjög gaman að fá að vera með honum í hans heimi.  Mestu árekstrarnir eru þegar við erum að reyna að toga hann inn í okkar heim með öllum þeim gildum og venjum sem hann bara áttar sig ekkert á og sér ekki neinn tilgang í.  Stundum veltum við því fyrir okkur hversvegna við séum alltaf að reyna að aðlaga hann að okkar "heimi" í stað þess að sníða okkur að hans veröld. Við getum glaðst rosalega mikið yfir hans sigrum sem utanfrá gætu sýnst frekar litlir.  Um daginn var hann að frekjast eitthvað og vildi að ég myndi finna rakettupokann hans.  Hann sagði við mig með nokkru þjósti "Pabbi, ná í raketturnar !".  Ég sagði við hann að þetta dygði ekki til, hann yrði nú að biðja mig fallegar en þetta.  Þá leit okkar maður á pabba sinn með hvolpaugum og segir "Elsku  pabbi, viltu ná í raketturnar úti í bíl ?".  Ingu svelgdist á og ég varð alveg kjaftstopp því svona setningamyndun heyrum við ekki hjá honum.  Að sjálfsögðu voru raketturnar sóttar og það snarlega. 

Bergur á líka alveg frábæra systir.  Hún er alveg rosalega dugleg og höfum við stundum áhyggjur af því hvaða áhrif þessar skrítnu uppeldisaðstæður munu koma til með að hafa á hana. Við teljum okkur nokkuð meðvituð um þesslegs mál og höfum sótt fyrirlestra og lesið okkur til um slíkt en það breytir ekki því að það er hún sjálf sem kemur til með að þurfa að takast á við þessar aðstæður.  Manni  svíður stundum í hjartaræturnar að sjá hana eiga við bróður sinn og heyra hana réttlæta hann fyrir vinum og vandamönnum. Hún elskar bróðir sinn mikið og á sinn hátt eru þau góðir vinir og reyna að finna sér leiki sem þau geta leikið saman.  Það er yfirleitt eitthvað sem felur í sér mikinn gauragang og stundum eignaspjöll en þau eru þó að leika sér saman. Þar sem við höfum í gegn um tíðina þróað með okkur þann eiginleika að mynda mjög lítil tengsl við dauða hluti á heimilinu þá er það oftast ekkert mikið mál þó að brotni einn lampi hér og einn blómavasi þar. Og þar komum við aftur að því hvort maður ætlar að lifa fyrir efnishyggjuna eða eitthvað annað.  

Hvað finnst þér ? Sideways

Kv. Kej.  

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mikið er þetta nú skemmtileg færsla, lífið er jú svo fjölbreytilegt og tvær hliðar á öllu, margt sem er erfitt getur líka glatt okkur og ekki síður þroskað. Ég veit það bara að þið eruð frábær og þessi skrif sýna þroskaða (og þrautreynda) sýn á lífið. Knús á línuna  Hulda

Hulda G. G. (IP-tala skráð) 14.4.2008 kl. 22:02

2 identicon

Takk Hulda mín.  Já allir fá sinn skammt af þroskastökkinu einhverntímann á lífsleiðinni og það veist þú á annan hátt en ég.  Knús og klem til baka

Inga Sveina (IP-tala skráð) 16.4.2008 kl. 19:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Inga Sveinbjörg Ásmundsdóttir
Inga Sveinbjörg Ásmundsdóttir

Þetta blogg er dagbók 4 manna fjölskyldu í Reykjanesbæ.

Upphaflega var hugmyndin með þessu bloggi að leyfa áhugasömum að fylgjast með framvindu þjálfunar á border collie hundi sem við fengum um árámótin 2008. Markmið þjálfunar var m.a. að kenna hundinum honum Goða að passa upp á hann Berg sem er einhverfur 13 ára drengur. Við vildum líka geta horft til baka og skoðað þetta aðeins í baksýnisspeglinum. 

Bloggið hefur síðan þróast aðeins  og hinar og þessar hugleiðingar hafa dottið hingað inn og ekkert endilega tengdar honum Goða sem bloggið er þó nefnt í höfuðið á. 

Allir þeir sem hafa áhuga á að fylgjast með okkur og jafnvel koma með innlegg eru velkomnir. Fjölskyldumeðlimir eru:

Kristinn Edgar Jóhannsson

Inga Sveinbjörg Ásmundsdóttir

Bergur Edgar Kristinsson

Gyða Sveinbjörg Kristinsdóttir

Goði Freyr Gyðuson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.12.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Myndaalbúm

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • Teppi
  • Hetta
  • ...imag0101
  • ...090228_2_31
  • ...skur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband