29.4.2008 | 11:37
Á biðstofunni.
Þessi minning hefur sótt nokkuð á mig undanfarið:
Þau sátu á biðstofunni á efstu hæð Domus Medica og biðu. Biðu eftir því sem koma skyldi. Áttu svo sem ekki von á neinu góðu en reyndu af einhverjum mætti að halda í lítin vonarneista sem enn logaði í brjóstum þeirra um að kannski væri þetta ekki eins slæmt og þau sjálf héldu. Drengurinn átti nokkra mánuði í 2 ára afmælisdaginn og á þessari stundu vissu þau bæði að eitthvað var að. Þau bara vissu ekki hvað það var sem orsakaði þessa skrítnu hegðun og seina þroska á litla drengnum þeirra.
Á fæðingardeildinni hafði hann virst vera algerlega fullkominn. Líkt og aðrir foreldrar vörpuðu þau öndinni léttar þegar þau sáu að hann var með alla útlimi í lagi og leit út eins og nýfætt ungabarn á að líta út. Þegar heim var komið virtist hann þroskast eðlilega, var farinn að segja mamma og klappaði með mömmu sinni þegar hún söng fyrir hann klappa saman lófunum. Lífið var bjart og hlýtt og breiddi út faðm sinn fyrir nýbökuðu foreldrana. Um 5 mánaða aldurinn var hann hættur að segja mamma og hættur að klappa með. Hún var alveg viss um að eitthvað væri að en hann vildi ekki viðurkenna það. Það var ekkert að stráknum hans, hann var bara aðeins seinn til. Hann hafði víst verið þannig sjálfur sem ungabarn og því ekkert til að hafa áhyggjur af.
Tímaritin á bistofunni voru gömul og snjáð. Hann tók eitthvað blað upp og flétti því annarshugar. Man ekki hvort það var Mannlíf eða Vikan. Kannski var það fréttablað félags hjúkrunarfræðinema. Augnablikið var afstætt og tíminn virtist standa kyrr. Drengurinn sat á gólfinu við litskrúðugan trérugguhest og ýtti á hann svo hann ruggaði. Hún fylgdist með honum og velti fyrir sér hvort hún ætti að athuga hvort hann vildi prófa að setjast á hestinn. Hann hafði ekki sýnt því neinn áhuga hingað til en kannski langaði honum til þess núna. Hún hafði ekki eirð í sér til að lesa neitt en leit öðru hvoru út um gluggann þar sem lífið hélt áfram af fullkomnu miskunarleysi .
Hún hafði eins og margar aðrar mæður á þessum tíma verið í nuddhóp þar sem mömmurnar hittust reglulega með börnin og báru saman bækur sínar ásamt því að læra ungbarnanudd. Óhjákvæmilega fór fram ákveðin samanburður á þessum samkomum og hægt en örugglega dróst litli drengurinn aftur úr í þeim samanburði. Hann varð óvenju feitur af brjóstamjólkinni og var því oftast kennt um þegar reynt var að finna skýringar á áhugaleysi hans gagnvart umhverfi sínu. Einhverju sinni hafði hópurinn ákveðið að hittast í sólbrekkuskógi og gera sér glaðan dag þar og var það í fyrsta skipti sem pabbinn fékk að taka þátt í þessum félagsskap. Þegar hann sá drenginn sinn við hlið þessara barna sem sum hver höfðu verið á sama tíma og sonur hans á vöggustofunni varð honum í fyrsta sinn ljóst að eitthvað var ekki eins og það átti að vera. Hin börnin voru mjög áhugasöm um umhverfið sitt, áttu mikil og skýr samskipti við foreldra sína og voru flest farinn að ganga um. Hans drengur sat hinsvegar á sama stað, bað ekki um neitt og sýndi umhverfinu lítin áhuga. Frávikin æptu á pabbann og drógu hann með harkalegum hætti úr þægilegum doða afneitunarinnar yfir í ískaldan og óþægilegan raunveruleikann.
Drengurinn fór í sjúkraþjálfun og heimsótti sérfræðinga . Einn af þeim virtari sagði hann vissulega vera á eftir en að hann myndi líklegast vera búin að ná jafnöldrum sínum um þriggja ára aldurinn. Aðrir sögðu minna, ekki gott að átta sig á stöðunni þegar hann er svona ungur sögðu þeir flestir. Eftir innan við 2 mánuði var fyrirhugað brúðkaup hjá ungu foreldrunum og eins og gengur og gerist að ýmsu að hyggja þar að lútandi. Sú gleðistund var þó órafjarri huga þeirra á þessu síðdegi í mars.
Ritarinn á læknastofunni var kona á miðjum aldri líklega búin að vinna þarna í nokkurn tíma. Hún hafði þróað vel með sér þann eiginleika að taka vinnuna ekki of mikið inn á sig án þess þó að vanrækja faglega hluta starfsins. Viðmótið var í senn faglegt og öruggt en laust við óþarfa hlýleika. Hún var á einhvern undarlegan hátt algerlega ótengd þeirri atburðarrás sem þarna var átti sér stað en á sama tíma í stóru aukahlutverki. Gjöriði svo vel, Stefán getur tekið á móti ykkur núna sagði hún og setti upp bros sem hæfði augnablikinu. Læknirinn var góðlegur maður á sextugsaldri og ólíkt ritaranum hafði honum aldrei tekist að aðskilja vinnuna frá sálinni. Handtakið var þétt og hlýtt og brosið var einlægt. Hann vissi það ekki á þessari stundu að nokkrum árum eftir þennan fund myndi hann sjálfur eignast afabarn sem yrði í svipaðri stöðu og litli drengurinn sem nú var inni á stofunni hans.
Þau gengu út af fundinum í einhverri skrítinni leiðslu. Man eftir að labba út úr skrifstofu læknisins og framhjá ritaranum. Fylltist undarlegri reiði gagnvart ritaranum sem þó hafði ekkert til saka unnið. Stefán hafði staðfest það sem þau höfðu óttast. Hann hafði lagt fyrir son þeirra staðlað þroskapróf og niðurstaðan var skýr: Drengurinn var þroskaskertur og yrði það líklegast alla sína ævi. Þessi strákur keyrir á c.a. 40% hraða hafði hann sagt. Man næst eftir reykjanesbrautinni. Þögn. Aðeins þrúgandi þögn. Lítið talað á leiðinni. Slökkt á útvarpinu. Komin heim um kvöldmatarleytið. Líklega borðuðum við eitthvað en man ekki eftir því. Gátu ekki talað við neinn og vildu ekki tala við neinn. Sofnuðu bæði snemma og skildu ekki afhverju þau voru svona þreytt þetta snemma kvölds.
Daginn eftir fóru þau bæði til vinnu. Hann fór í gegn um morgunverkin í sömu skrítnu leiðslunni og var óvenju utan við sig. Talaði við fáa og vissi ekki hvernig hann gat losað þennan þunga stein sem hafði komið sér fyrir í brjósti hans. Ákvað loks um hádegisbilið að hringja í foreldra sína og segja þeim frá stöðu mála. Gerði nokkrar tilraunir til að tala í símann en kom aldrei neinu orði upp. Í hvert sinn sem hann reyndi tala um niðurstöður fundarins var eins og brot kvarnaðist úr steininum í brjóstinu sem settist síðan í kokið og varnaði þannig orðunum útgöngu. Reyndi að koma sér úr sjónlínu vinnufélaganna svo þeir sæu ekki að hann var að beygja af. Skellti loks á enda tilgangslaust að eyða símtali í að tala ekkert. Eftir hádegi rakst hann á gamla vinkonu sem var á leið í flug. Gerði aðra tilraun til að tala um atburði gærdagsins við hana en aftur kvarnaðist úr steininum og tárin tóku að renna. Stakk sér út um hliðarhurð svo að enginn sæi hann gráta. Skildi ekkert í sjálfum sér að geta ekki talað um þetta. Eftir því sem tilraunum til þess að ræða um þennan atburð fjölgaði losnaði meira um grjótið þar til loks opnaðist nægilegt gat til þess að orðin kæmust alla leið frá hjartanu til talstöðvanna.
Einhverjum dögum síðar lásu þau um að flugvél frá flugleiðum hefði lent í ókyrrð á leið til Íslands. Tekið var fram í fréttinni að umsvifalaust hefði verið kallað út neyðarteymi frá rauða krossinum og öllum farþegum boðið tafarlaust upp á áfallahjálp.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Ég veit að þetta er alls ekki sama staða og þið lentuð í, en ég kannast við þessa sögu af eigin reynslu.
Pabbi minn fékk hjartaáfall fyrir 7 árum og ég þurfti að hringja á sjúkrabíl fyrir hann. Við héldum að allt væri í lagi þegar hann var sendur heim 2 vikum seinna. Hann átti að fara í aðgerð næstu viku eftir....náði ekki einu sinni svo langt. Hann fékk annað stærra hjartaáfall og var tæknilega dáinn 2sinnum á leiðinn upp á spítala. Sjúkraflutingamennirnir frömdu kraftaverk fyrir okkur það kvöldið. Hann var skorinn 3sinnum upp á sólahringi til að laga æðar og gera hjáveitu frá skemmdum í hjarta. Honum var haldið sofandi í 2 vikur á gjörgæslu en hann losnaði þaðan 2 dögum fyrir jól og fór á hjartadeild.
Pabbi minn var sterkasti maður sem ég þekkti. Hann var foreldrinn sem ól mig upp þegar mamma fór erlendis að læra. Hann er besti vinurinn minn og sá sem sagði að ég gæti allt sem mér langaði í.
Hann man ekki eftir 4 mánuðum í lífi sínu. Hann man ekki eftir gjörgæslunni, hann man ekki eftir hve mikið hann grét yfir sársauka meðan ég sat við hlið hans og hélt í hönd hans. Hann man ekki eftir því þegar systir mín sagði að hún væri ólétt af fyrsta afabarni hans.
Pabbi minn er 75% öryrki. Eftir veikindinn hans kom í ljós að hann hafi verið þunglyndur í meira en 15 ár og íhugaði stundum sjálfsvíg. Fjármálin hjá okkur voru í hræðilegu ástandi og ég sá oft húsið okkar auglýst á nauðungaruppoði. Náðum að "redda" okkur úr því.
Áfall við veikindi hefur varanleg áhrif á fjölskyldur. Ég bý ennþá með pabba mínum, hugsa um hann þó hann geti gert það sjálfur að einhverju leyti. Hjartað er þó ónýtt og nýrun eru í enn verri ástandi. Hann verður oft þreyttur en hefur fengið aftur lífsvilja í gegnum áhugamál og vini. Hann á núna 4 barnabörn sem hann spillir með gotterí og leik.
Ég tel að það á að setja á fót áfallahjálpastöð sem getur tekið á móti fólki sem þarf áfallahjálp. Veikindi, vinnumissir, slys, ofbeldisárásir. Hópur af fólki sem getur leiðbeint og hjálpað. Því allir þurfa hjálp einhvern tímann.
Vona að ykkur gangi sem best í framtíðinni.
Margrét Þórðardóttir (IP-tala skráð) 29.4.2008 kl. 12:02
Vel skrifað og hittir mann í hjartastað. Þið hafið náð langt frá þessum tíma og unnið afrek með drenginn við erfiðar aðstæður. En stærsta afrekið er þó að halda fjölskyldunni saman og bugast ekki þó oft hafi aðstæðurnar verið mjög, mjög erfiðar. Já, það er sérstakt hvernig samfélagið metur "áföll" í lífinu og hvaða hjálp er í boði. Horfði einmitt á Opruh þátt í morgun sem fjallaði um einhverfu og það var mjög fróðlegt. Þó maður geti aldrei sett sig í spor annara þá vill maður gjarna fræðast svo maður öðlist betur skilning á því sem aðrir ganga í gegn um, sérstaklega þeir sem standa manni nærri.
Stórt knús á línuna,
Hulda
Hulda G. G. (IP-tala skráð) 30.4.2008 kl. 15:39
Elsku Inga og Krissi, til hamingju með daginn í dag.
Kveðja, Njarðvíkurgengið!
Fjölskyldan í Lyngmóa 9 (IP-tala skráð) 4.5.2008 kl. 16:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.