30.5.2008 | 15:24
Bergur mætir til leiks
Nú er komið að því að Bergur fari að taka fullan þátt í þjálfuninni. Hann mætti í fyrsta tíma um daginn og gekk eiginlega vonum framar að mínu mati. Ekki alveg gott að sjá fyrir hvernig þetta muni ganga með hann og ég átti alveg eins von á að hann myndi ekkert vilja taka þátt í þessu rugl með okkur. Hann vildi fyrst ekkert koma inn í salinn sem notaður er til þjálfunar og sagðist vera hræddur. En eftir smá tiltal varð hann samstarfsfúsari. Atli lét Berg hafa tauminn í aðra hendina og leiddi hann eða lét hann halda utan um öxlina á sér með hinni. Svo gaf Bergur sínar skipanir og Atli sá til þess að Goði skildi hann og færi eftir hans skipunum. Einnig fór hann yfir hvernig Bergur á að hrósa Goða fyrir að gera rétt. Bergur vildi helst henda sér niður í hvert sinn og knúsa og hnoða hann en Atli sýndi honum hvernig viðeigandi hrós færi fram. Mér fannst Bergur bregðast vel við Atla og hans fyrirmælum og vona innilega að hann kaupi hann sem einhvern sem hann á að hlýða og þýði ekkert að vera með einhver fíflalæti við.
Goði greyið var hálf ringlaður á þessu fyrst. Vissi ekki alveg hverjum hann átti að hlýða. Ekki bætti úr skák að ég var að sniglast í kring um þá með myndavélina og hann var alveg ringlaður á goggunarröðinni. Reyndar varð myndavélin batteríslaus en ég náði samt að kreista nokkrar myndir úr henni.
Bergur var síðan í miklu óstuði fyrir næsta tíma og við ákváðum að fresta tímanum og ekki taka sénsinn á að gera þetta að einhverri neikvæðri upplifun. En svona er þetta bara, maður er ekki alltaf í stuði og þá verður að taka tillit til þess. Annars er það líka í fréttum að Bergur fékk sumarklippinguna um daginn. Pabbi hans notaði sénsinn þegar mamman var í burtu í 4 daga og snoðaði drenginn almennilega. Honum finnst fátt eins óþægilegt og klipping og því var þetta alveg kjörið. Þar sem hann lætur öllum illum látum við þessar athafnir þá var ekki í boði að klippa hann au couture og því var bara allt rakað af. Hann situr nú löngum stundum og strýkur yfir kollinn sinn og segist vera sköllóttur .
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.12.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.