Þrettán.

Bergur átti afmæli á sunnudaginn (15. júní) og er nú orðin þrettán ára gamall.  Ótrúlegt hvað tíminn líður hratt (á gervihnattaöld). Ég man vel eftir því þegar ég heyrði að við ættum von á okkar fyrsta barni. Ég man líka vel eftir meðgöngunni, kvöldgöngutúrum um Njarðvíkurnar þar sem við bjuggum á þessum tíma.  Eftirvæntingunni og vangaveltum um hvernig barnið myndi líta út, hvaða kyn það yrði, hvað það ætti að heita osfrv. Þetta voru langir 9 mánuðir og tilhlökkunin var næstum því óbærileg fannst mér. Pinch

Þann 15. júní 1995 var ég í vinnunni og kom heim í hádeginu.  Við fórum niður á heilsugæslu í skoðun og eftir þá skoðun var ljóst að nú var þessi stóra stund um það bil að renna upp.  Kl. 20:58 kom síðan í heiminn lítill strákur með tíu putta og tíu tær.  Mér fannst þessi stund ganga kraftaverki næst og mun aldrei nokkurn tíman gleyma henni.  Ég man enn eftir lyktinni af honum nýfæddum, sérstaklega lyktinni af kollinum hans. Og aldrei hef ég verið ástfangari og fyllri aðdáunar á konunni minni en akkúrat á þessari stund. InLove

Afmælisveislurnar hans Bergs hafa stundum verið soldið skrítnar og ekki eins og flestir kannast við.  Bergi finnst afmælissöngurinn svo svakalega sorglegur að hann brestur nær undantekningarlaust í grát við hann.  Því er enginn afmælissöngur í hans afmælum.  Hann kann heldur ekki þá lyst að eignast vini og eftir að hann komst á skólaaldur eru gestirnir bara úr fjölskyldunni.  Stundum er fólk í ferðalagi eða að gera eitthvað annað og þá er gestalistinn soldið þunnskipaður. 

Mamma hans Bergs er mikil afmæliskona. Miklu meiri heldur en ég.  Henni hafa alltaf þótt afmælisdagar vera mjög miklir merkisdagar og alltaf tekist að gera afmælisdaga allra fjölskyldumeðlima að sérstökum dögum sem skilið hafa eftir sig góðar minningar.  Þó að mér sjálfum hafi stundum ekki þótt tilefni til að gera eitthvað mikið úr mínum afmælisdegi þá hefur hún alla tíð verið mér algerlega ósammála og alltaf gert þessa daga eftirminnilega á einn eða annan hátt. Það sama á við um afmælisdagana hans Bergs.

Eitt árið mættu í garðinn hjá okkur á Elliðavöllunum einhverjir menn frá bænum með risastóran hoppukastala sem blásinn var upp.  Ferlíkið var það stórt að kötturinn sem við áttum á þeim tíma lét ekki sjá sig  fyrr en daginn eftir. Síðan mætti í afmælið þessi líka fína skrúðganga af krökkum frá Ragnarsseli og áttum við saman alveg frábæran dag.  Hoppukastali ,pulsupartý og fullt af krökkum, gerist ekki betra.  Ég veit ekki ennþá hvernig hún fór að þessu en þetta er hún í hnotskurn. 

Á þrettán ára afmælisdaginn  fékk Bergur í afmælisgjöf m.a. keflavíkur fótboltabúninginn, peysu og stuttbuxur, sem merkja á með nr. 9 að hans ósk. Hann fékk líka körfuboltaspjald og 2 körfubolta sem sló alveg í gegn. Það er ekki auðvelt að velja afmælisgjafir fyrir hann því bæði þarf að huga að hans þroska og einnig að gjöfin sé eins "age appropriate" og hægt er.  Þetta er oft nokkuð snúið. 

Í miðri afmælisveislunni hvarf síðan afmælisbarnið.  Hann hafði verið úti með Goða eitthvað að dinglast með boltann sinn og amma hans var með honum.  Skyndilega sást ekkert í hvorki dreng né hund.  Ég fór út og byrjaði á að rölta í kring um hús og kallaði til skiptis á hann og hundinn. En ekkert kom svarið og það fannst mér skrítið.  Hann fer yfirleitt ekki langt í burtu og hundurinn kemur um leið og ég kalla. En í þetta skiptið kom hvorugur og það leist mér ekki vel á.  Á endanum var allur gestalistinn komin út að leita og ég var kominn hálfa leiðina upp á þak til að sjá betur þegar Goði kemur hlaupandi.  Ég segi þá við hann "finna Berg" og við það rauk hann af stað og ég á eftir.  Hann hljóp og stoppaði og beið eftir mér (veit, ekki sá fljótasti Whistling) og rauk svo af stað aftur.  Fljótlega sá ég okkar mann niður á fótboltavelli á Vatnsholtinu (rétt hjá Kaskó) og var hann þar bara í góðum fílíng að leika sér með boltann sinn.  Goði hefur líklegast heyrt blístrið hennar Ingu og komið hlaupandi við það. Þetta var alveg frábært og hálfgerð sýnikennsla á hæfileika þessa frábæra hunds.

Fyrir nokkrum dögum síðan var þessi frétt á netmiðlum um fatlaða stúlku sem týndist i hafnarfirði og hafði verið kallað á þyrlu og björgunarsveitir til að leita að henni og ráðgert var að notast einnig við sporhunda. Ef ég man rétt þá fannst hún eftir uþb. 2 eða 3 tíma heil á húfi.  Sú frétt og sú staðreynd að þyrla,björgunarsveit og sporhundar voru þarna í því hlutverki sem Goða er m.a ætlað að sinna, gerir ekki annað en að hvetja okkur áfram í því verkefni sem við erum að vinna að . 

 

Kv.

Kej.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Til hamingju með afmælisstrákinn! Ótrúlegt að hann sé orðinn 13 ára, já tíminn flýgur...
Bestu kveðjur til Bergs, Goða, Gyðu Sveinu og "fólksins á bak við tjöldin."
Stubbaknús,
HGG

Hulda G. G. (IP-tala skráð) 18.6.2008 kl. 22:00

2 Smámynd: Inga Sveinbjörg Ásmundsdóttir

Bestu kveðjur til ykkar á móti .  Alltaf gott að vita af ykkur.  Kv. Inga

Inga Sveinbjörg Ásmundsdóttir, 22.6.2008 kl. 17:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Inga Sveinbjörg Ásmundsdóttir
Inga Sveinbjörg Ásmundsdóttir

Þetta blogg er dagbók 4 manna fjölskyldu í Reykjanesbæ.

Upphaflega var hugmyndin með þessu bloggi að leyfa áhugasömum að fylgjast með framvindu þjálfunar á border collie hundi sem við fengum um árámótin 2008. Markmið þjálfunar var m.a. að kenna hundinum honum Goða að passa upp á hann Berg sem er einhverfur 13 ára drengur. Við vildum líka geta horft til baka og skoðað þetta aðeins í baksýnisspeglinum. 

Bloggið hefur síðan þróast aðeins  og hinar og þessar hugleiðingar hafa dottið hingað inn og ekkert endilega tengdar honum Goða sem bloggið er þó nefnt í höfuðið á. 

Allir þeir sem hafa áhuga á að fylgjast með okkur og jafnvel koma með innlegg eru velkomnir. Fjölskyldumeðlimir eru:

Kristinn Edgar Jóhannsson

Inga Sveinbjörg Ásmundsdóttir

Bergur Edgar Kristinsson

Gyða Sveinbjörg Kristinsdóttir

Goði Freyr Gyðuson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 32
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 32
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Myndaalbúm

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Teppi
  • Hetta
  • ...imag0101
  • ...090228_2_31
  • ...skur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband