23.11.2008 | 14:45
Tímamót
Ævi hvers manns er alsett tímamótum. Hver einasti dagur felur í sér krossgötur og tímamót sem eru misjafnlega stór. Stundum er spurningin hvaða leið við ætlum í vinnuna eða hvað við ætlum að hafa í matinn . Við erum alla daga að velja og ákveða hvaða leið við ætlum að fara. Skiljanlega veljum við oftast leiðina sem er kunnuglegri og forðumst göturnar sem eru myrkari og virka óþægilegri.
En svo koma stóru tímamótin eins og að eignast barn, ganga í hjónaband nú eða að skilja, eiga stórafmæli, að missa ástvin og að byrja í nýrri vinnu. Allt eru þetta tímamót sem marka okkur og jafnvel breyta.
Þann 25 september síðastliðin urðu hjá mér tímamót sem falla í þennan síðarnefnda flokk. Þá var starfið mitt sem ég hef unnið við síðastliðin þrjú ár, lagt niður og mér tjáð að ég þyrfti ekki að vinna minn uppsagnarfrest. Ég hef unnið hjá fyrirtækinu við hin ýmsu störf í einni eða annarri mynd síðan árið 1985 og því óneitanlega skrítið að vera ekki lengur hluti af þessari fjölskyldu. Þessi dagur verður mér líklegast alltaf í fersku minni og verður flokkaður með öðrum hamfaraminningum eins og þegar Discovery geimferjan sprakk og 11 september.
Að takast á við vinnumissi er ekki auðvelt. Ekki síst þegar um er að ræða vinnu sem var skemmtileg og oft á tíðum gefandi og gaf einnig ágætlega af sér. Þegar við bætast síðan þær hörmungar sem gengu yfir landið um 2 vikum síðar og ekki sér fyrir endan á, þá er þetta orðið nokkuð stór pakki. En þetta eru enn einar krossgöturnar í lífinu og í raun bara spurning um hvaða leið þú ætlar að fara. Ætlar þú að taka þessa breiðu og augljósu leið sem kallast gæti svekkelsis og þunglyndis breiðgata eða muntu velja eina af þessum þröngu og torförnu götum sem kalla á jákvæðni á stundu þar sem fátt jákvætt er að finna.
Einhverja hluta vegna á heimleið af uppsagnarfundinum glumdi í höfðinu á mér textinn við lagið So What með Pink: "So what, I´m still a rockstar, I got my rock moves". Og frá fyrstu stundu var ég ákveðin að láta þetta ekki buga mig. Ég hef reynt að sjá aðeins það jákvæða við þessar aðstæður sem ég er núna komin í og átti engan þátt í að skapa. Hvað get ég gert gott úr þessu öllu saman. Það er mjög auðvelt að detta í fýlupakkann og velta sér upp úr því hvað allt sé glatað og hvað ég eigi bágt. En það skilar mér og minni fjölskyldu akkúrat engu nema leiðindum að gera það og því kýs ég að sleppa því.
Það er samt ekki alltaf eins auðvelt og að segja það. Að kjósa að sleppa því að láta þetta hörmungarástand hafa áhrif á sig. Hljómar svakalega flott en er í raun alveg brjáluð vinna. Suma daga vaknar maður og hlær að þessu bulli og skellir sér svo í ræktina. En aðra daga vill maður helst sitja og stara fram fyrir sig og ekki tala við neinn. Ég hef reynt eins og hægt er að halda einhverri rútínu, vakna alltaf með krökkunum kl. 0700 og kem þeim í skólann. Fer svo í ræktina (á góðu geðdögunum) og reyni að hafa eitthvað fyrir stafni sem kallar fram jákvæða strauma. Ég reyni af fremsta megni að sækja í athafnir sem kalla fram jákvæðni og forðast það sem kallar fram neikvæðar tilfinningar. En stundum lýsa þó hin fleygu orð sem ég las á einu kröfuspjaldi á Austurvelli um daginn hugarástandinu best eða: "Djöfulsins fokking fokk"
Við hjónin vorum búin að stilla upp ferð til Minneapolis um miðjan Október áður en allt þetta dundi yfir. Við veltum því mikið fyrir okkur hvort við ættum að hætta við þegar dollarinn tók að hækka upp úr öllu valdi. Við ákváðum þó að láta bara vaða og fórum út með dollarann í 115kr. Og þvílíkt sem var gott að komast aðeins í burt úr allri neikvæðninni hér á landi og sjá eitthvað annað í fréttum en hörmungar og eymd. Í MSP gátum við talað okkur saman um hvernig við ætlum að takast á við komandi tíma sama hvað dúkkar upp. Við keyptum okkur líka nýja Asics hlaupaskó og það er mjög stór hluti af meðferðinni gegn allri neikvæðninni að eiga góða hlaupaskó skal ég segja ykkur.
Reyndar var ég búin að ráða mig í aðra vinnu uþb 2 vikum síðar þegar ég áttaði mig á því að um leið og ég færi að vinna annarstaðar myndi fyrri vinnuveitandi hætta að borga mér uppsagnarfrestinn. Ég hefði tapað einhverjum peningum á því og ákvað að draga mig út úr þeirri vinnu. Óneitanlega hugsar maður stundum hvort að sú ákvörðun hafi verið röng í ljósi þess hve kreppann virðist dýpka með hverjum deginum sem líður. En við sjáum hvað setur með það.
Ég er því núna að bíða af mér minn 4 mánaða uppsagnarfrest að viðbættu lokauppgjöri á fríum og öðru og er því góður launalega séð fram í feb-mar. Ég ætla að vera heimavinnandi húsfaðir fram að þeim tíma og er í raun alveg nóg að gera í þeirri vinnu. Heimilið okkar er ágætlega erilsamt og nóg að þvo og þrífa, hjálpa til með heimanám, versla í matinn og elda, baka og viðra hundinn. Einnig sé ég fram á að geta loks sinnt ræktinni og skokkinu betur og er að komast í ágætis form. Ég er alveg handviss um að ég fæ eitthvað að gera þegar þar að kemur og bara spurning um hvað það verður. Auðvitað eru mjög margir óvissuþættir sem erfitt er að spá fyrir um. Ég kýs að velta mér ekki upp úr því sem ég get ekki haft áhrif á og láta hverjum degi nægja sína þjáningu.
Ef allt verður síðan í kaldakoli hér á klakanum á vormánuðum og enga vinnu að hafa sem hægt er að sætta sig við þá förum við við bara eitthvað annað og hefjum nýtt líf í öðru landi. Ekkert mál. Það er alltaf einhver lausn og einhver leið sem hægt er að fara.
Ég neita að láta þetta bullástand sem ég átti engan þátt í að skapa buga mig og draga mig og mína fjölskyldu niður í neikvæðnina. Og hana nú !
Kv.
Kej.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Mér finnst þessi afstað þín alveg frábær og sérstaklega þessi orð:
"Ég neita að láta þetta bullástand sem ég átti engan þátt í að skapa buga mig og draga mig og mína fjölskyldu niður í neikvæðnina. Og hana nú ! "
Ég kíki of við á síðuna en hef ekki verið að kvitta en hér með kvitta ég.
Baráttu kveðja
Nanna Þ
Nanna Þórisdóttir (IP-tala skráð) 24.11.2008 kl. 18:33
Takk fyrir kveðjuna, ég set hana í pokann með öllu jákvæða dótinu mínu.
Kv.
Kej
Inga Sveinbjörg Ásmundsdóttir, 26.11.2008 kl. 09:17
Sæll Krissi
Góður pistill! Það er rétt hjá þér, það gengur ekkert að vera neikvæður en djöfulsins fokking fokk er þetta maður
Ég veit að þetta er ekki gott, en er þetta nokkuð slæmt??? Við skulum ræða það eftir 10 ár.
Icelandic financial meltdown museum?? Er það ekki business??
Kveðja frá þröngri götu
Jóhann Þór Leifsson (IP-tala skráð) 28.11.2008 kl. 01:43
Einmitt Jói, það er líka alltaf hægt að finna einhver tækifæri eins og þetta ágæta safn sem þú ert greinilega komin af stað með að skipuleggja. Ef þig vantar safnvörð þá er ég laus
Inga Sveinbjörg Ásmundsdóttir, 30.11.2008 kl. 10:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.