Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008
29.3.2008 | 18:15
Meira af þjálfun.
Við Gyða fórum saman í hundaþjálfun á fimmtudagskvöldið og gekk vel eins og áður. Gyðu finnst gaman að vera þáttakandi og líkar vel þegar hún fær hlutverk hjá Atla. Atli vann áfram með hæl,sestu, leggstu, komdu skipanir og lét Gyðu taka við taumnum og spila stærra hlutverk en áður. Aberandi var hversu erfitt Goða fannst að standast hana Gyðu sína og þegar Atli bað hana um að annaðhvort ganga út úr herberginu eða að labba framhjá honum þá stóðst okkar maður ekki mátið og elti hana.
Við fengum þau fyrirmæli frá Atla að verða okkur úti um c.a. 20cm langan bút af kústskafti og merkja annan enda þess sem handfang en safna munnvatni frá Bergi á hinn endann. Þessi bútur verður síðan í aðalhlutverki þegar kemur að sporaþjálfun hjá Goða. Þá verður lyktin af Bergi föst í prikinu og Goði látin leita að því. Eins er verkefni næstu daga að fá hann til að láta af leikglefsi. Hann er eiginlega alveg hættur að glefsa í mig í leik. Ef hann glefsar í mig þá tek ég utan um trýnið hans og held í nokkrar sekúndur. Það líkar honum ekkert sérlega vel og eftir 2-3 skipti hætti hann þessu eiginlega alveg. En hann gerir það enn þá við Gyðu og Berg. Þetta er náttúrulega ekkert fast og bara vel meint hjá honum en Atli vill meina að þetta sé ekki jákvætt fyrir næsta hluta þjálfunarinnar.
Atli er síðan byrjaður að æfa Goða í að taka hluti í kjaftinn án þess að skaða eða skemma þá og sleppa þeim síðan aftur. Það gerir hann með því að sitja í stól með Goða sitjandi á milli fóta hans. Síðan klæðir hann sig í vinnuhanska og setur vísifingur upp í hann , rétt aftan við vígtennurnar og segir um leið "taka" . Síðan lætur hann hundinn halda utan um fingurinn í smá tíma með skipuninni "halda" sem er endurtekinn reglulega (halda, halda, halda...) og síðan "takk" og þá á Goði að sleppa. Næsta skref er síðan að setja áðurnefndan spítubút inn í vetlinginn í stað fingursins og á endanum hverfur hanskinn alveg en búturinn verður notaður áfram. Það var alveg magnað að fylgjast með hvernig Atli vann þessa æfingu sem krefst mikillar þolinmæði. Hundurinn fer í hálfgert dáleiðsluástand og lygnir aftur augum þegar á líður. Goði stóð sig rosalega vel í þessari æfingu sem gerir þó nokkrar kröfur á hann. Atli hafði á orði að hann væri efni í eðalveiðihund miðað við hversu snöggur hann var að ná tökum á þessari æfingu.
Gyðu fannst aftur á móti erfitt að fylgjast með þessari æfingu því henni fannst Goða ekki líða vel í henni. Hún er með svo mikið dýrahjarta þessi stelpa að hún getur ekki hugsað til þess að einhver sé ekki góður við Goða. Ég benti Atla á þetta og hann útskýrði vel fyrir henni hvað hann væri að gera og hvers vegna maður þyrfti stundum að vera ákveðinn við Goða og leyfa honum ekki að ráða. Einnig fór hann yfir með henni hvernig hún ætti að bregðast við óæskilegri hegðun hjá honum eins og að flaðra upp um, leikglefsa og að labba fram fyrir hana í taumi. En okkur finnst að Goði líti á Gyðu sem jafningja og leikfélaga og þó að hann vilji alltaf koma til hennar og fari helst til hennar þó að aðrir kalli á hann þá er hún ekki endilega leiðtoginn í þeirra sambandi.
Atli benti okkur líka á að prófa aðeins nefið á Goða heima fyrir og sjá með eigin augum hvílíkt undratæki hundsnefið er. Víð skárum niður nokkra littla harðfiskbúta og prófuðum síðan að fela þá einn af öðrum. Felustaðirnir urðu erfiðari og erfiðari en alltaf fann hann þá alveg um leið. Sama þó harðfiskurinn væri settur í plastpoka og stungið á kaf ofan í óhreinatauskörfuna þá fann hann bútinn á innan við 10 sekúndum. Alveg hreint magnað.
Síðan bregst ekki að þegar heim er komið eftir þjálfun þá leggur Goði sig og fljótlega eftir að hann er sofnaður þá fer hann að hlaupa í svefni og jafnvel að röfla eitthvað líka. Það er víst merki um að hann sé að meðtaka það sem var verið að leggja inn hjá honum það kvöldið. Ótrúlega fyndið.
Kv. Kej.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
24.3.2008 | 13:44
Hóst, hóst, snökt, snökt og atsjúúú..
Hér hefur öll fjölskyldan steinlegið í veikindum síðustu 2 vikurnar (fyrir utan hundinn reyndar). Undirritaður lagðist fyrstur með hálsbólgu og mikla vanlíðan, síðan Bergur, Inga og síðust lagðist Gyða. Svo þegar Bergur og Inga eru að komast á lappir er ég lagstur aftur með hita og kuldaköst og almennann aumingjaskap. Við Bergur fórum til læknis og létum kíkja á okkur og ég fékk þau skilaboð að mikilvægt væri að hvíla sig og slaka vel á í svona veikindum. Vissi ekki hvort ég ætti að hlægja eða gráta.
Hundaþjáflun gengur vel og Atli hundaþjálfari komst svo að orði að ef þetti gengi svona vel áfram þá þyrftum við ekkert að örvænta. Hann átti þó ekki von á að þetta gengi svona vel alltaf, það kæmi yfirleitt alltaf eitthvað smá bakslag þar sem hundurinn mótmælir og neitar að taka þátt. Honum finnst þetta eiginlega ganga of vel. Við höfum síðan af veikum mætti reynt að æfa okkur heima með hundinn eftir því hvaða fjölskyldumeðlimur er uppistandandi hverju sinni. Goði hefur alltaf hlýtt mér nokkuð vel og okkur gengið bærilega að ganga við hæl. Hann hefur ekki hlýtt Ingu eins vel og hefur stundum komið hlaupandi til mín í skjól þegar hún er að gefa honum skipanir. En það er allt að koma og hann er að taka hana í sátt sem yfirmann. Í gær fóru Inga og Bergur með Goða á sparkvöll í smá fótbolta og þar voru fleiri krakkar í boltaleik. Að öllu jöfnu hefði okkar maður verið hrókur alls fagnaðar og skemmt sér konunglega við að elta og skemma alla bolta í kílómetersradíus. En í þetta skipti sat hann kyrr (kvartaði eitthvað smávegis) og lét alla bolta í friði. Mæðginin gátu leikið sér í smá tíma með bolta og hann fylgdist bara með. Alger snilld.
Ég setti síðan inn nýtt myndaalbúm á bloggið sem heitir því frumlega nafn "Hundaþjálfun" þar sem má einmitt sjá myndir úr hundaþjálfun.
Kv. Kej.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.3.2008 | 06:48
Þjálfun hafin.
Jæja þá er hann Goði loks byrjaður í þjálfuninni. Við fórum á miðvikudagskvöldið til hans Atla í fyrsta tíma og gekk alveg ljómandi vel. Því miður gleymdist myndavélin í fyrsta tíma en hún verður með í næsta tíma og þá set ég inn nokkrar myndir.
Aðaláherslan til að byrja með verður á að ganga við hæl ásamt nokkrum öðrum skipunum. Við höfðum verið að æfa okkur áður en þetta námskeið hófst og fannst mér okkur Goða ganga bærilega að ganga við hæl. Eftir að hafa séð handtökin hjá Atla sá ég að við höfðum ekki gert þetta alveg rétt og í raun ekki gengið eins vel og við héldum.
Það var nokkuð magnað að sjá hvernig Goði brást við handtökunum og skipunum hans Atla því hann gekk strax við hæl hjá honum og fylgdi honum algerlega snurðulaust . Hann var samt alltaf að gjóa augunum til okkar og vildi helst bara vera hjá okkur en ekki þessum brjálaða kalli sem var alltaf að gera einhverjar kröfur á hann. Atli sýndi okkur líka hvernig við getum fengið hann til þess að hætta að flaðra upp um okkur. Það gerði hann svona: Fyrst egndi hann Goða til þess að setja framlappirnar upp á hann og um leið og hann gerði það setti hann hnéð út og ýtti honum þannig af sér og sagði ákveðið "nei! ". Þegar heim var komið ákvað ég að prófa þetta sjálfur þar sem Goði gerir mikið af því að stökkva upp á okkur og oft er það hið versta mál t.d. úti í hesthúsi með hestskítin á loppunum. Ég vissi að alltaf þegar ég teygi úr mér þá er hundurinn mættur með framloppurnar uppá bringu. Því teygði ég duglega úr mér þannig að hann sæi og um leið var hann mættur. Ég rak þá hnéð út og sagði við hann "nei". Goði greyið varð heldur lúpulegur og lallaði sér í burtu alveg hissa á þessari meðferð. En eitthvað tengdi hann þetta skakkt greyið því nú er svo komið að ef ég teygi úr mér þá setur hann skottið á milli lappana og flýr í skjól hjá næsta meðlimi fjölskyldunnar. Úps.
Næsti tími féll síðan niður vegna veikinda á heimilnu og þegar þessar línur eru skrifaðar eru 3 af fjórum meðlimum fjölskyldunnar í veikindum.
Kv. Kej
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
10.3.2008 | 22:38
6 mars 2001
Ég man vel eftir 6 mars 2001. Við hjónin melduðum okkur inn á sjúkrahúsið í keflavík snemma á þessum miðvikudagsmorgni því nú var komið að því að okkar annað barn skyldi koma í þennan heim. Við höfðum ákveðið að barnið skyldi tekið með keisaraskurði og um kl. 1000 um morguninn hélt ég á litlu stelpunni minni í fyrsta sinn. Ég man þegar hún opnaði augun sín í fyrsta sinn og horfði að því að virtist ákaflega hugsi á þennan skrítna kall sem hélt á henni. Þetta stelpuskott hélt síðan áfram að heilla pabba sinn á sjúkrahúsinu og ég man þegar ég hélt á henni þannig að hún sneri fram og hvíldi bakhluta höfuðs síns á bringunni minni. Allt í einu sneri hún höfði og horfði upp á mig í smá tíma eins og hún væri að átta sig á mér. Ég varð náttúrulega alveg gapandi hissa því ég hélt að nýfædd börn ættu ekki að geta þetta.
Ég man líka vel eftir því þegar ég var að ná í hana til dagmömmunnar ekki orðin 2 ára og við röltum saman heim á leið. Mér fannst hún svo óendanlega mikið krútt og sneri mér oft við og bakkaði svo ég gæti séð hana betur. Þá sneri hún sér líka við og bakkaði eins og ég. Þvílíkt krútt. Hún hefur alla tíð síðan komið okkur á óvart með reglulegu millibili og er í alla staði alveg rosalega dugleg stelpa. Hestaáhuginn kviknaði snemma og ég man hversu heilluð hún varð af þessum tilkomumiklu skepnum.
Við héldum uppá 7 ára afmælið hennar á föstudaginn og eftir nokkrar pælingar ákváðum við að bjóða öllum stelpunum í bekknum eða í raun árganginum þar sem ekki er hið eiginlega bekkjarkerfi hjá þeim. Við veltum þessu nokkuð fyrir okkur og gestalistinn tók nokkrum breytingum dagana fyrir afmælið. Á endanum ákváðum við að bjóða bara öllum og ekki skilja neinn útundan. Lítið var um forföll og hingað mættu 26 skottur í afmæli. Gríðarlegt fjör. Dagskráin var eftirfarandi:
17:00 Gestirnir mæta (mjög spennt afmælisbarn mætir þeim flestum úti á plani)
17:45 Afmælisbarnið opnar gjafirnar sínar með viðhöfn (hennar hugmynd by the way)
18:00 Eftir smá frjálsan leik var bingó með alvöru bingóvél og páskaeggjum í verðlaun. Afmælisbarnið var náttúrulega bingóstjóri og þurfti maður að bíta sig nokkrum sinnum í tunguna til að missa sig ekki í hláturskast yfir tilburðunum hjá henni. Hún tók þetta hlutverk mjög alvarlega og stóð hún sig alveg rosalega vel. ("Stelpur þið verðið að hafa hljóð, ímyndið ykkur bara að ég sé Magga í frístund !"
18:30 Kökur,nammi og afmælissöngur og síðan ásadans og stoppdans með litlum páskaeggjum í verðlaun. Afmælisbarnið tók aftur við stjórnartaumum og kláraði það hlutverk með stæl.
19:00 Gestirnir fara heim. Gríðaránægt afmælisbarn kveður gestina einn af öðrum.
Foreldrar vel þreyttir og afmælisbarnið ánægt. Lykilatriði í þessu prógrami var að hafa kökurnar og nammið aftarlega á dagskránni.
Sér kaka var síðan gerð fyrir stóra bróðir þar sem hann var á Heiðarholti í helgarvistun þessa helgi.
Það er aðeins meira en að segja það að bjóða 26 stelpuskottum í afmæli en mikið rosalega var þetta samt skemmtilegt. Ég þykist vita fyrir víst að afmælisbarnið hafi verið hæstánægt með þetta allt saman og ekki sá ég betur en að gestirnir hafi skemmt sér vel.
Svo er bara spurning hvernig við náum að fylgja þessu eftir á 13 ára afmælinu hjá stóra bróður.
Kveðja KEJ.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar