Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008
29.4.2008 | 11:37
Á biðstofunni.
Þessi minning hefur sótt nokkuð á mig undanfarið:
Þau sátu á biðstofunni á efstu hæð Domus Medica og biðu. Biðu eftir því sem koma skyldi. Áttu svo sem ekki von á neinu góðu en reyndu af einhverjum mætti að halda í lítin vonarneista sem enn logaði í brjóstum þeirra um að kannski væri þetta ekki eins slæmt og þau sjálf héldu. Drengurinn átti nokkra mánuði í 2 ára afmælisdaginn og á þessari stundu vissu þau bæði að eitthvað var að. Þau bara vissu ekki hvað það var sem orsakaði þessa skrítnu hegðun og seina þroska á litla drengnum þeirra.
Á fæðingardeildinni hafði hann virst vera algerlega fullkominn. Líkt og aðrir foreldrar vörpuðu þau öndinni léttar þegar þau sáu að hann var með alla útlimi í lagi og leit út eins og nýfætt ungabarn á að líta út. Þegar heim var komið virtist hann þroskast eðlilega, var farinn að segja mamma og klappaði með mömmu sinni þegar hún söng fyrir hann klappa saman lófunum. Lífið var bjart og hlýtt og breiddi út faðm sinn fyrir nýbökuðu foreldrana. Um 5 mánaða aldurinn var hann hættur að segja mamma og hættur að klappa með. Hún var alveg viss um að eitthvað væri að en hann vildi ekki viðurkenna það. Það var ekkert að stráknum hans, hann var bara aðeins seinn til. Hann hafði víst verið þannig sjálfur sem ungabarn og því ekkert til að hafa áhyggjur af.
Tímaritin á bistofunni voru gömul og snjáð. Hann tók eitthvað blað upp og flétti því annarshugar. Man ekki hvort það var Mannlíf eða Vikan. Kannski var það fréttablað félags hjúkrunarfræðinema. Augnablikið var afstætt og tíminn virtist standa kyrr. Drengurinn sat á gólfinu við litskrúðugan trérugguhest og ýtti á hann svo hann ruggaði. Hún fylgdist með honum og velti fyrir sér hvort hún ætti að athuga hvort hann vildi prófa að setjast á hestinn. Hann hafði ekki sýnt því neinn áhuga hingað til en kannski langaði honum til þess núna. Hún hafði ekki eirð í sér til að lesa neitt en leit öðru hvoru út um gluggann þar sem lífið hélt áfram af fullkomnu miskunarleysi .
Hún hafði eins og margar aðrar mæður á þessum tíma verið í nuddhóp þar sem mömmurnar hittust reglulega með börnin og báru saman bækur sínar ásamt því að læra ungbarnanudd. Óhjákvæmilega fór fram ákveðin samanburður á þessum samkomum og hægt en örugglega dróst litli drengurinn aftur úr í þeim samanburði. Hann varð óvenju feitur af brjóstamjólkinni og var því oftast kennt um þegar reynt var að finna skýringar á áhugaleysi hans gagnvart umhverfi sínu. Einhverju sinni hafði hópurinn ákveðið að hittast í sólbrekkuskógi og gera sér glaðan dag þar og var það í fyrsta skipti sem pabbinn fékk að taka þátt í þessum félagsskap. Þegar hann sá drenginn sinn við hlið þessara barna sem sum hver höfðu verið á sama tíma og sonur hans á vöggustofunni varð honum í fyrsta sinn ljóst að eitthvað var ekki eins og það átti að vera. Hin börnin voru mjög áhugasöm um umhverfið sitt, áttu mikil og skýr samskipti við foreldra sína og voru flest farinn að ganga um. Hans drengur sat hinsvegar á sama stað, bað ekki um neitt og sýndi umhverfinu lítin áhuga. Frávikin æptu á pabbann og drógu hann með harkalegum hætti úr þægilegum doða afneitunarinnar yfir í ískaldan og óþægilegan raunveruleikann.
Drengurinn fór í sjúkraþjálfun og heimsótti sérfræðinga . Einn af þeim virtari sagði hann vissulega vera á eftir en að hann myndi líklegast vera búin að ná jafnöldrum sínum um þriggja ára aldurinn. Aðrir sögðu minna, ekki gott að átta sig á stöðunni þegar hann er svona ungur sögðu þeir flestir. Eftir innan við 2 mánuði var fyrirhugað brúðkaup hjá ungu foreldrunum og eins og gengur og gerist að ýmsu að hyggja þar að lútandi. Sú gleðistund var þó órafjarri huga þeirra á þessu síðdegi í mars.
Ritarinn á læknastofunni var kona á miðjum aldri líklega búin að vinna þarna í nokkurn tíma. Hún hafði þróað vel með sér þann eiginleika að taka vinnuna ekki of mikið inn á sig án þess þó að vanrækja faglega hluta starfsins. Viðmótið var í senn faglegt og öruggt en laust við óþarfa hlýleika. Hún var á einhvern undarlegan hátt algerlega ótengd þeirri atburðarrás sem þarna var átti sér stað en á sama tíma í stóru aukahlutverki. Gjöriði svo vel, Stefán getur tekið á móti ykkur núna sagði hún og setti upp bros sem hæfði augnablikinu. Læknirinn var góðlegur maður á sextugsaldri og ólíkt ritaranum hafði honum aldrei tekist að aðskilja vinnuna frá sálinni. Handtakið var þétt og hlýtt og brosið var einlægt. Hann vissi það ekki á þessari stundu að nokkrum árum eftir þennan fund myndi hann sjálfur eignast afabarn sem yrði í svipaðri stöðu og litli drengurinn sem nú var inni á stofunni hans.
Þau gengu út af fundinum í einhverri skrítinni leiðslu. Man eftir að labba út úr skrifstofu læknisins og framhjá ritaranum. Fylltist undarlegri reiði gagnvart ritaranum sem þó hafði ekkert til saka unnið. Stefán hafði staðfest það sem þau höfðu óttast. Hann hafði lagt fyrir son þeirra staðlað þroskapróf og niðurstaðan var skýr: Drengurinn var þroskaskertur og yrði það líklegast alla sína ævi. Þessi strákur keyrir á c.a. 40% hraða hafði hann sagt. Man næst eftir reykjanesbrautinni. Þögn. Aðeins þrúgandi þögn. Lítið talað á leiðinni. Slökkt á útvarpinu. Komin heim um kvöldmatarleytið. Líklega borðuðum við eitthvað en man ekki eftir því. Gátu ekki talað við neinn og vildu ekki tala við neinn. Sofnuðu bæði snemma og skildu ekki afhverju þau voru svona þreytt þetta snemma kvölds.
Daginn eftir fóru þau bæði til vinnu. Hann fór í gegn um morgunverkin í sömu skrítnu leiðslunni og var óvenju utan við sig. Talaði við fáa og vissi ekki hvernig hann gat losað þennan þunga stein sem hafði komið sér fyrir í brjósti hans. Ákvað loks um hádegisbilið að hringja í foreldra sína og segja þeim frá stöðu mála. Gerði nokkrar tilraunir til að tala í símann en kom aldrei neinu orði upp. Í hvert sinn sem hann reyndi tala um niðurstöður fundarins var eins og brot kvarnaðist úr steininum í brjóstinu sem settist síðan í kokið og varnaði þannig orðunum útgöngu. Reyndi að koma sér úr sjónlínu vinnufélaganna svo þeir sæu ekki að hann var að beygja af. Skellti loks á enda tilgangslaust að eyða símtali í að tala ekkert. Eftir hádegi rakst hann á gamla vinkonu sem var á leið í flug. Gerði aðra tilraun til að tala um atburði gærdagsins við hana en aftur kvarnaðist úr steininum og tárin tóku að renna. Stakk sér út um hliðarhurð svo að enginn sæi hann gráta. Skildi ekkert í sjálfum sér að geta ekki talað um þetta. Eftir því sem tilraunum til þess að ræða um þennan atburð fjölgaði losnaði meira um grjótið þar til loks opnaðist nægilegt gat til þess að orðin kæmust alla leið frá hjartanu til talstöðvanna.
Einhverjum dögum síðar lásu þau um að flugvél frá flugleiðum hefði lent í ókyrrð á leið til Íslands. Tekið var fram í fréttinni að umsvifalaust hefði verið kallað út neyðarteymi frá rauða krossinum og öllum farþegum boðið tafarlaust upp á áfallahjálp.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.4.2008 | 21:59
Þrjóska og afmæli.
Síðasti vetrardagur og afmælisdagur hjá Goða . Eins árs í dag ef við erum að skilja þetta rétt. Gerði svo sem ekkert sérstakt á afmælisdaginn sinn annað en að vera hundur og gera sína hundahluti. Fór svo í einkatíma hjá Atla og var heldur undrandi þegar ég skildi hann einan eftir hjá Atla í kvöld.
Annars er það í frásögur færandi að loks kom að þrjóskunni hjá honum sem að Atli hafði átt von á. Í síðasta tíma neitaði okkar maður alveg að taka þátt í "taka" ,"halda" æfingum . Aumingja Atli var alveg sveittur við að fá hann til að taka þátt í æfingunni og úr varð heljarinnar þrjósku slagur á milli hunds og þjálfara. Ég er á því að þjálfarinn hafi haft sigur í uppbótartíma en tæpt var það.
Fengum okkur líka búr í bílinn og ætti það að draga úr hundahárum í sætunum. Hann hefur hingað til flakkað um bílinn eins og hann lysti til þegar hann hefur verið skilinn eftir einn í einhvern tíma með tilheyrandi hárum og sliti á sætum.
En það gengur mjög vel með hann í æfingum og hann er rosalega góður í labbtúrum núna. Labbar flott við hæl og fylgir skipunum mjög vel. Ekki fullkomlega en mjög vel. Okkur finnst þetta ganga vonum framar og krossum eiginlega bara puttana, bönkum í tré og segjum 7, 9, 13.
Kv. Kej.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.4.2008 | 15:42
Úti að ganga.
Við Atli höfum í síðustu 3 tímum verið með Goða úti og tekið langa göngutúra. Atli byrjaði á að labba með hann og ég labbaði með þeim og var hann duglegur að láta hann fara yfir gangbrautir og reyndi eins og hann gat að finna eitthvað sem truflaði hann soldið. Í öðrum tímanum tók ég taumin á heimleiðinni og þá gerðist dálítið athyglisvert. Goði greyið var allt í einu ekki viss hverjum hann ætti að fylgja, mér eða Atla. Það tók hann dálítin tíma að átta sig á þessum breyttu aðstæðum og hann mótmælti þessu aðeins með því að streitast á móti. Ég varð líka pínu stressaður þar sem Atli gekk aðeins á eftir okkur og gagnrýndi eftir þörfum. Taumurinn var ekki í réttri lengd hjá mér, ég kippti vitlaust í og þetta fór allt í smá rugl hjá mér og það hefur eflaust haft áhrif á hundinn. Á endanum fundum við þó taktinn og hann gekk mjög fínt við hæl mér. Mun betur en áður og ekki bólaði á hálfsmeters vandræðum.
Í þriðja göngutúrnum prófuðum við að nota aðra tegund af ól. Nokkurskonar beisli sem fer utan um notandan (þann mennska þ.e.a.s) líkt og ég væri með íþróttatösku á öxlinni og taumurinn kemur síðan niður með síðunni. Atli gekk fyrri hluta leiðarinnar og ég síðan seinni hlutann. Þetta er aldeilis frábært tól og kom skemmtilega á óvart . Hægt er að tengja við þennan taum aðra ól sem á að nota til þess að stýra og leiðrétta hundinn ef hann fylgir ekki skipunum. Atli tengdi þennan auka taum en losaði hann fljótlega af þar sem Goði gekk algerlega upp á 10 við hliðina á honum og því engin þörf á að leiðrétta neitt. Ég tók síðan við taumnum á heimleiðinni og það var sama sagan, Goði var pínu ringlaður á þessum skiptum og vissi ekki alveg hverjum hann var að fylgja. En þetta gekk þó ljómandi vel og ég verð að segja að þægilegri gönguferð hef ég ekki farið með hundinn. Maður þurfti eiginlega að gá hvort að hundurinn væri ekki örugglega þarna þegar við vorum komnir til baka.
Hugmyndin er svo að reyna að fá Berg til þess að vera með þennan taum og þá væru hann og Goði að vissu leyti orðnir að einni einingu ef svo má að orði komast. Ég þykist vita að það verði einhver barningur að fá okkar mann til þess að vera með þennan taum miðað við hvernig hann hefur tekið hlutum eins og vettlingum, húfum og þesslags aukahlutum. En það er vissulega hægt að fá hann til þess, kostar bara þolinmæði og útsjónarsemi og líklega einhverjar félagshæfnisögur líka. Við sjáum hvað setur .
Kv. Kej
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.4.2008 | 15:55
Lífið er yndislegt, eða hvað.
Merkileg vera þessi tilvera. Merkilegt hvað mannfólkið er misjafnt og hvað við fáumst við mismunandi hluti á lífsleiðinni. Okkur eru færð mismunandi góð spil við fæðingu og oft markar það síðan þá leið sem við förum á æviskeiðinu. Sumir fá beinan og breiðan veg án mikilla hindrana en aðrir þurfa að sætta sig við að brjótast í gegn um illfæra skógarstíga. En það er í þessu ferðalagi eins og öðrum að það er ekki áfangastaðurinn sem skiptir mestu máli heldur leiðin þangað. Langflestir ferðalangar kjósa að bruna sem hraðast á afangastaðinn með sem fæstum stoppum, helst bara til að pissa og ekkert annað. Það er helst ef að fólk lendir í einhverju áfalli, jafnvel lendir í lífsháska að það áttar sig á því hversu stutt lífið getur verið og hversu mikilvægt það er að taka mörg stopp og gefa sér tíma til þess að skoða umhverfið sitt.
Ekki er gott að finna skýringu á því hversvegna við mannfólkið erum svona vitlaus. Nú er ég alls ekki að setja mig á háan hest því ég er ekkert skárri sjálfur. Mér til málsbóta vil ég þó segja að ég er algerlega þeirrar skoðunar að það er ekkert mikilvægara í mínu lífi en fjölskyldan mín. Börnin mín og eiginkona eru það allra verðmætasta sem ég á og það sem mótar mig allra mest sem mann. Ég myndi skrifa undir yfirlýsingu þess efnis að það eina sem ég í raun þyrfti væri fjölskyldan, þak yfir höfuðið og nægileg framfærsla til þess að eiga ofan í okkur og á.
Að því sögðu þá er ég eiginlega alveg ferlegur neysluseggur. Ég er alltaf að spá í að kaupa þetta eða hitt, nýjan bíl, mótorhjól, flatskjá, flakkara osfrv. Við vorum með alveg ágætis 28" sjónvarp af gömlu gerðinni sem virkaði fínt. Ég hafði í nokkurn tíma hlegið góðlátlega að mönnum sem voru að eyða formúgu í nýja flatskjái þó svo að þeir ættu annað sjónvarp sem virkaði alveg. Ég veit ekki alveg hvað gerðist en einn daginn stóð ég sjálfan mig að því að vera að fletta elko og bt bæklingum eins og óður maður og lesandi mig til á netinu um eiginleika plasma annarsvegar og lcd hinsvegar. Og viti menn, í dag hangir á veggnum glansandi fínn lcd flatskjár sem ég get ekki með nokkru móti réttlætt kaupin á. Nýjustu mælingar á sjálfum mér hafa aukinheldur ekki sýnt neina sjáanlega aukningu á hamingju eða gleði í kjölfar kaupana.
Ég hef í gegn um tíðina reynt að temja mér þann hugsunarhátt að peningar séu ekki þess virði að hafa miklar áhyggjur af. Það gengur náttúrulega ekki alltaf en ég reyni samt. Auðvitað þurfa allir að hafa einhverja lágmarks framfærslu og allir vilja geta látið sér eftir einhvern munað. Það er síðan matsatriði hvað hver og einn flokkar sem munað. Mér finnst munaður þegar við hjónin eða fjölskyldan förum í leikhús eða bíó, mér finnst dekur að panta okkur pizzu og við látum okkur það eftir að kaupa okkur árskort í líkamsræktarstöðvar. Einnig tel ég ekki eftir mér að borga fyrir þær íþróttir og tómstundir sem börnin mín stunda.
Ég hef gríðar mikinn áhuga á að fylgjast með íþróttum og er fótbolti í miklu uppáhaldi. Ég hef verið liverpool maður frá unga aldri og fylgist vel með þeim bæði í ensku deildinni og meistaradeildinni. Afturármóti læt ég mér ekki eftir þann munað að borga þær tæpu 9 þúsund krónur sem 365 vill fá fyrir að leyfa mér að fylgjast með. Ef ég legðist nú yfir fjölskyldubókhaldið og framreiknaði hversu mikil slagsíða kæmi á heimilisskútuna við að missa þessar 9 þús. kr. á mánuði þá er ég nokkuð viss um að hún yrði vart mælanleg. En það er að mínu mati aukaatriði, fyrir mér er þetta meira prinsip mál að borga ekki þennan pening. Ég þykist vita að mjög margir eru mér ósammála um þetta og borga þetta án þess að velta því mikið fyrir sér og þar komum við aftur að mismunandi túlkun á því hvað er munaður.
Aðstæður á okkar heimili eru nokkuð sérstakar. Ekki kannski eins og flest fólk á að venjast. Afleiðing af þessum aðstæðum sem við búum við er að við höfum þróað með okkur töluverðar ranghugmyndir um hvað teljist vera þægindi og munaður. Við höfum mjög undarlegar væntingar oft á tíðum og setjum okkur stundum skrítin markmið. Nætursvefn er munaður sem við búum sjaldnast við. 13 ár eru liðin frá því að það taldist eðlileg krafa að sofa alla nóttina. Að fara með alla fjölskyldumeðlimi á meðal fólks, jól, áramót, afmæli, ferming, 17.júní, íþróttaleikir osfrv. er eitthvað sem skapar mjög mikinn kvíða og eru væntingar oft mjög litlar fyrir slík tilefni. Löng frí eins og jólafrí og páskafrí eru litinn mjög illum augum á mínu heimili og er andlegi tankurinn yfirleitt alltaf tómur þegar skólar loks opna aftur. Helgarfrí eru tími til að spenna herðarnar og halda í sér andanum fram á mánudag. Þetta er aðeins smábrot af þessu öfugsnúna lífi sem við erum að reyna að komast í gegn um.
En auðvitað er þetta ekki bara basl og erfitt. Það er líka oft mjög gaman. Bergur er ótrúlega fyndin strákur og oft mjög gaman að fá að vera með honum í hans heimi. Mestu árekstrarnir eru þegar við erum að reyna að toga hann inn í okkar heim með öllum þeim gildum og venjum sem hann bara áttar sig ekkert á og sér ekki neinn tilgang í. Stundum veltum við því fyrir okkur hversvegna við séum alltaf að reyna að aðlaga hann að okkar "heimi" í stað þess að sníða okkur að hans veröld. Við getum glaðst rosalega mikið yfir hans sigrum sem utanfrá gætu sýnst frekar litlir. Um daginn var hann að frekjast eitthvað og vildi að ég myndi finna rakettupokann hans. Hann sagði við mig með nokkru þjósti "Pabbi, ná í raketturnar !". Ég sagði við hann að þetta dygði ekki til, hann yrði nú að biðja mig fallegar en þetta. Þá leit okkar maður á pabba sinn með hvolpaugum og segir "Elsku pabbi, viltu ná í raketturnar úti í bíl ?". Ingu svelgdist á og ég varð alveg kjaftstopp því svona setningamyndun heyrum við ekki hjá honum. Að sjálfsögðu voru raketturnar sóttar og það snarlega.
Bergur á líka alveg frábæra systir. Hún er alveg rosalega dugleg og höfum við stundum áhyggjur af því hvaða áhrif þessar skrítnu uppeldisaðstæður munu koma til með að hafa á hana. Við teljum okkur nokkuð meðvituð um þesslegs mál og höfum sótt fyrirlestra og lesið okkur til um slíkt en það breytir ekki því að það er hún sjálf sem kemur til með að þurfa að takast á við þessar aðstæður. Manni svíður stundum í hjartaræturnar að sjá hana eiga við bróður sinn og heyra hana réttlæta hann fyrir vinum og vandamönnum. Hún elskar bróðir sinn mikið og á sinn hátt eru þau góðir vinir og reyna að finna sér leiki sem þau geta leikið saman. Það er yfirleitt eitthvað sem felur í sér mikinn gauragang og stundum eignaspjöll en þau eru þó að leika sér saman. Þar sem við höfum í gegn um tíðina þróað með okkur þann eiginleika að mynda mjög lítil tengsl við dauða hluti á heimilinu þá er það oftast ekkert mikið mál þó að brotni einn lampi hér og einn blómavasi þar. Og þar komum við aftur að því hvort maður ætlar að lifa fyrir efnishyggjuna eða eitthvað annað.
Hvað finnst þér ?
Kv. Kej.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.4.2008 | 14:09
Hálfur meter !
Á mínum stutta ferli sem hundaeigandi (c.a. 3 mánuðir) hefur mér hingað til þótt ég vera alveg ágætur sem slíkur. Mér finnst kvikindið sem slíkt alveg stórskemmtilegt og hefur komið á óvart hversu lítil kvöð það er að eiga og reka eitt stykki hund. Auðvitað er hægt að segja að það sé ákveðin vinna að vera með hund og auðvitað eru handtökin nokkur sem hægt er að rekja beint til rakkans en mér hefur að mestu leiti þótt það ljúft og skylt að sinna þeim verkum sem til hafa fallið.
Við hjónin höfum reynt að vera dugleg að fara út að labba með Goða og reynum að beita þeim aðferðum sem við höfum lært til þess að hann gangi við hæl. Inga hefur soldið kvartað undan því að hann sé alltaf fyrir framan hana sama hvað hún reyni að kippa í ólina og stýra honum. Ég hef hingað til hlegið góðlátlega að þessum tilburðum hjá henni og klappað henni á öxlina svona meira af meðaumkun . Ég hef leyft henni að halda að hundurinn barasta hlýði henni ekki eins vel og mér þar sem ég sé svo klár í þessu, verandi húsbóndinn á heimilinu og allt það. Sannleikurinn er hinsvegar sá að hundrassgatið er ekkert betri hjá mér. Við leggjum af stað, ég segi við hann "hæll" og labba af stað með tauminn í hægri hendi og passlegan slaka. Eftir svona 10 sekúndur er hann hinsvegar kominn c.a. hálfum metra fram fyrir mig. Ég kippi í ólina og segi við hann "Nei, hæll" (reyni að hljóma rosalega harður). Hundurinn horfir á mig með að því að mér finnst einhverju lymskulegu glotti og bakkar um áðurnefndan hálfan metra. En áður en ég veit er hann búin að hnupla hálfa metranum sínum aftur.
Ég verð að viðurkenna að mér finnst pínu óþægilegt að vera að kippa í ólina og siða hann til þegar fólk sér til mín því ég held að fólki finnist ég vera vondur við hann. Kannski er ég of linur við hann, ekki gott að segja. Í gærkvöldi fór ég síðan með hundinn í þjálfun og ég vissi að til stóð að fara með hann út í göngutúr. Ég hafði aðeins rætt hálfsmeters vandamálið mitt við Atla hundaþjálfara en hann hló bara að mér og því hlakkaði aðeins í mér á leiðinni til hans og átti ég ekki von á neinu öðru en að hann héldi áfram að stela sínum hálfa metra frá Atla.
Nú, þegar við lögðum af stað í göngutúrinn og ég búin að setja mig í stellingar til þess að benda á Atla og hlægja að honum þegar hann réði ekkert við kvikindið þá gerðist eftirfarandi: Þeir labba af stað, Goði fer fram fyrir Atla, Atli kippir einu sinni duglega í og segir ákveðið "nei, hæll". Goði breytist úr heimilishundi í einhvern hermannahund sem ég þekkti ekki og labbar restina af göngutúrnum eins og eftir teikningu. Fór aldrei fram fyrir, settist og lagðist eftir skipunum og ég veit ekki hvað og hvað. Bölvað hundsspottið. Atli hafði síðan orð á því að Goði hlýddi honum og gengi við hæl eins og hundur sem væri búin að vera í nokkur ár í þjálfun. Já er það virkilega.
Í morgun fórum við félagarnir síðan í langan göngutúr og nú ætlaði ég sko að ná þessu. Ég reyndi að vera rosalega ákveðinn og ætlaði sko aldeilis að negla þetta. Goði aftur á móti horfði á mig með sama glottinu og áður og hirti sinn hálfa meter eins og ekkert hefði í skorist. "Andvarp."
Kv. Kej.
Bloggar | Breytt 11.4.2008 kl. 15:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.4.2008 | 00:09
Drengur og hundur.
Það er hreint ótrúlega gaman að að sjá vinskapinn sem hefur myndast á milli Bergs og Goða. Þetta sást mjög vel þegar Bergur kom heim úr helgarvistun á Heiðarholti. Goði tók á móti honum úti á plani og Bergur ljómaði allur þegar hann sá Goða koma hlaupandi til hans. Þeir þvældust síðan í kring um húsið á meðan við Inga njósnuðum um þá út um bakgluggann. Goði er að átta sig betur á því hvernig Bergur leikur og hvað hann er að meina. Ef þeir fá til þess frið þá eru þeir rosalega flottir saman og geta alveg leikið sér saman í þó nokkra stund. Líka mjög gaman að sjá þegar Goði vekur Berg á morgnana því þar sem Bergur er nú opinberlega orðin unglingur þá er ekkert mjög auðvelt að vekja drenginn. Goði aftur á móti þarf hinsvegar bara að stinga nefinu upp í rúm til hans og hnusa aðeins þá færist bros yfir Berg og Goði fær knús frá honum til baka. Bara sætt.
Um daginn voru þeir félagarnir að vesenast eitthvað á bak við hús og Inga var með annað augað á þeim. Skyndilega voru þeir horfnir og Inga fer þá út og kallar á Berg. Ekkert svar. Þá kallar hún á Goða og eftir smá stund kemur hann hlaupandi neðan úr skógi með Berg á hælunum. Alger snilld.
Bergi finnst líka sniðugt þegar verið er að þjálfa Goða og er stundum að reyna að leika hlutverk hundaþjálfarans. Honum finnst líka rosalega fyndið þegar Goði er að villingast eitthvað og einhver er að skamma hann. Hann hefur líka áhyggjur af því að Goði reyni að éta rakettudraslið hans sem hann er búin að safna í poka og Goði er stundum að hnusa af.
Inga og Gyða eru óþreytandi í hestamennskunni og Goði færi yfirleitt að fara með. Hann fær núna að vera mun meira laus úti í hesthúsi og það finnst honum æðislegt. Hleypur um og þefar af öllu og tékkar á hinum hundunum. En honum er ekki treystandi ef að Gyða er komin á bak og á leið í reiðtúr og þá þarf hann að vera í ól.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 03:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar