Sumarannáll og vetrarmarkmið.

Þá eru skólarnir byrjaðir og að baki er aldeilis frábært sumar.  Ég man varla eftir jafnveðurvænu sumri í langan tíma. Reyndar á ég í huganum margar minningar frá því að ég var polli og í þeim minningum er alltaf gott veður. Meira að segja vetrarminningar eru með logni og nýföllnum snjó. Hvað er það eiginlega ?

En þrátt fyrir gott sumar þá verð ég að viðurkenna að ég verð alltaf pínu fegin þegar fer að hausta og skólarnir byrja.  Ferskur septembermorgun rétt eftir að búið er að rigna, gönguferð í skólann og einhverra hluta vegna er ilmur frá nálægu bakaríi líka í þessari minningu. Eitthvað við þetta Smile.

Bergur gefur lítið út á það að vera byrjaður aftur í skólanum, að minnsta kosti fékkst hann ekkert til að ræða við mig um skólamál í gærkvöldi.  Gyða aftur á móti lét okkur sérstaklega vita að hún hefði eiginlega gert allt rétt í skólanum á fyrsta degi í öðrum bekk. Hún veit nefnilega sem er að foreldrar hennar eru að spá í þann möguleika að kaupa hest fyrir veturinn og ef svo yrði þá væri það með þeim skilmálum að hún yrði dugleg í skólanum. Hún ætlar sko ekki að klikka á sínu Halo.

Við höfðum smá áhyggjur í vor af því hvernig þetta sumar yrði.  Hvort að einhverfur 13 ára drengur hefði nóg fyrir stafni og hvort að við sem foreldrar gætum gert þetta að viðburðarríku og eftirminnilegu sumri fyrir hann.  Einnig lá fyrir að mála þyrfti húsið og að einhver tími og einhverjum góðviðrisdögum yrði að eyða í það verk.  Nú í sumarlok er ekki annað að sjá en að okkur hafi tekist bærilega til. Húsið er allaveganna málað og einhverfur 13 ára drengur hafði nóg fyrir stafni og var bara þokkalegur á geðinu í sumar. 

Fyrir utan ferðalög og  nokkrar lautarferðir fóru sumardagarnir hans í að kanna skordýraríkið, klippa trjágreinar og láta eins og það væri komið haust (einn af uppáhaldsleikjunum hans), körfubolta í innkeyrslunni (þökk sé körfuboltaspjaldinu sem hann fékk í afmælisgjöf frá ömmu og afa) og síðast en ekki síst fótbolta og aftur fótbolta. Við fórum á leiki með Keflavík fylgdumst með EM í sjónvarpinu og fórum flest öll kvöld með boltann með okkur  á þá fótboltavelli sem voru  lausir það kvöldið.  Ef við vorum heppnir fórum við á nýja sparksvæði þeirra Njarðvíkinga (ekki verra ef vatnsúðanir voru líka í gangi) eða upp á Iðavelli.  Nú ef lánið var ekki með okkur enduðum við oftast á gamla Njarðvíkurvellinum.  Stundum tókum við Goða með okkur og fannst honum það ekki leiðinlegt.

Bergur lærði að taka við fyrirgjöfum, spila þríhyrning og hvað stungusendingar eru.  Einnig lærði hann muninn á varnarmanni og sóknarmanni og hvað gerist þegar einhver brýtur á manni.  Síðast en ekki síst lærði hann á gulu og rauðu spjöldin.  Sú þekking var síðan yfirfærð yfir í daglega lífið með lygilega góðum árangri.  Bergur tekur stundum nett geðköst og oft verða jafnt húsmunir sem fjölskyldumeðlimir fyrir hnjaski þegar svo ber við.  Ef honum er sýnt gula spjaldið þá sljákkar núna töluvert í honum og hann veit að rauða spjaldið þýðir eitthvað sem ekki er skemmtilegt eins og þurfa að fara í herbergið sitt að jafna sig.  Ef hann er sendur inn í herbergi án þess að fá spjald þá verður hann mjög reiður og leggur jafnvel herbergið sitt í rúst.  En ef hann fær gult eða rautt spjald þá verður hann ekki eins reiður. Við segjum bara já takk við því. 

Fram undan er veturinn með öllum sínum geðhæðum og lægðum og af einhverjum ástæðum hef ég verið að finna hjá mér mikla þörf á að skipuleggja og setja mér markmið fyrir veturinn.  Þetta er afar ólíkt mér því  að öllu jöfnu er ég óskipulagður, gleyminn og ekki mikið fyrir að hugsa langt fram í tímann. En eigum við ekki að segja að batnandi manni sé best að lifa og aðalmarkmið mitt í vetur verður að mæta betur erfiðleikum og tímabilum þar sem hin lúmska þoka þunglyndis leggst yfir með engum fyrirboðum líkt og gerðist of oft síðasta vetur.  Það er nefnilega ótrúlega undarlegt hvernig álagsgeðlægðir gera engin boð á undan sér.  Maður heldur að maður sé undir það búin en er það síðan ekki.  Í vetur ætla ég að mæta þessu betur með einu og öðru ráði sem ekki verða tíunduð í þessari færslu.

Við sjáum svo til hvernig það gengur. 

Og svo má ekki gleyma ljósanóttinni sem nú nálgast með sinni langþráðu flugeldasýningu LoL. Þá horfir Bergur hugfangin á himininn og pabbi hans horfir hugfanginn á þessa einlægu og algjöru hrifningu í andliti hans yfir þessu meistaraverki sem ein flugeldasýning er í hans huga. 

Það eru sannkölluð forréttindi að fá að vera vitni að slíku skal ég segja ykkur.

Kv.

Kej.  

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Inga Sveinbjörg Ásmundsdóttir
Inga Sveinbjörg Ásmundsdóttir

Þetta blogg er dagbók 4 manna fjölskyldu í Reykjanesbæ.

Upphaflega var hugmyndin með þessu bloggi að leyfa áhugasömum að fylgjast með framvindu þjálfunar á border collie hundi sem við fengum um árámótin 2008. Markmið þjálfunar var m.a. að kenna hundinum honum Goða að passa upp á hann Berg sem er einhverfur 13 ára drengur. Við vildum líka geta horft til baka og skoðað þetta aðeins í baksýnisspeglinum. 

Bloggið hefur síðan þróast aðeins  og hinar og þessar hugleiðingar hafa dottið hingað inn og ekkert endilega tengdar honum Goða sem bloggið er þó nefnt í höfuðið á. 

Allir þeir sem hafa áhuga á að fylgjast með okkur og jafnvel koma með innlegg eru velkomnir. Fjölskyldumeðlimir eru:

Kristinn Edgar Jóhannsson

Inga Sveinbjörg Ásmundsdóttir

Bergur Edgar Kristinsson

Gyða Sveinbjörg Kristinsdóttir

Goði Freyr Gyðuson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 31
  • Frá upphafi: 21206

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 31
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Myndaalbúm

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Teppi
  • Hetta
  • ...imag0101
  • ...090228_2_31
  • ...skur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband