Ljósanótt að baki, áramótin framundan.

Jæja þá er ljósanóttin komin og farin og verður að segjast að hún stóðst þær væntingar sem þessi fjölskylda gerði til hennar . Við hjónin kíktum á hina og þessa viðburði, listsýningar og tónleika, fórum í árgangagönguna ofl. Gyða fór nokkrar salibunur í fallturninum og Bergur fékk sína langþráðu flugeldasýningu. Sýningin stóðst væntingar flugeldafræðingsins  unga og gott betur og ég verð eiginlega að viðurkenna að ég eyddi ekki minni tíma í að horfa á hrifninguna Joyful í andliti sonar míns en að góna upp í himininn þær mínútur sem sýningin stóð yfir.

Og þá er ekki seinna vænna að byrja að hlakka til áramótanna, eða það finnst Bergi allaveganna.  Almanaksárið hans Bergs skiptist nefnilega í tvo hluta, ljósanótt og gamlárskvöld.  Restin af árinu fer svo í að hlakka til þessar tveggja stórviðburða. 

Ljósanætur fyrri ára hafa þó ekki verið án átaka því að nær undantekningarlaust hefur Bergur brjálast yfir því að flugeldasýningin hafi verið búin og oft hefur engu tauti verið við hann komið.   Pabbi hans hefur þurft að gera sér ferð af næturvaktinni í Leifsstöð til þess að halda á barninu bandbrjáluðu og hágrátandi heim af hátíðarsvæðinu.  Einu sinni var hann svo reiður að hann ætlaði ekki að geta sofnað út af grátekka. Oft hefur þetta verið mjög erfitt og reynt mikið á restina af fjölskyldunni, ekki síst litlu systir hans.  Í ár hinsvegar klappaði okkar maður fyrir flugeldasýningunni, stakk svo höndum í vasa og gekk af stað í áttina að bílnum.  Hafði smá áhyggjur af því hvort hann ætlaði að fara að rigna og hvort við þyrftum að hafa rúðuþurrkurnar á.  Þvílíkur munur og þvílík breyting á þessum unga manni sem er alveg að verða stærri en mamma sín by the way. 

Þegar maður hugsar aðeins til baka þá eru ótal minningar um aðstæður og atburði sem við höfum verið í með hann Berg sem hafa reynt mjög mikið á okkur sem einstaklinga og fjölskyldu líka.  Allskonar hegðun sem telst vera óviðeigandi af okkur hinum sem teljum okkur vera eðlileg, reiði og gleði yfir hlutum sem við þessi venjulegu tökum ekki eftir og allskonar skrítnir hlutir sem stundum auðgar tilveruna en reynir líka oft mikið á. 

Reyndar er mesta togstreitan oftast þegar maður lætur hið viðurkennda norm hafa áhrif á eigin viðbrögð. Þegar maður nær ekki að slökkva á "hvað ætli öðrum finnist" áhyggjum.  Dæmi um þetta er t.d. að fyrir nokkrum árum ákvað ég að athuga hvort ég fengi Berg til að koma með mér á fótboltaleik með Keflavík.  Ætli hann hafi ekki verið c.a. 9 ára gamall og varð hann strax mjög heillaður af öllu því sem fram fór á leiknum. Eins og með flest þá var það ekki það sem hin venjulegi áhorfandi fylgdist með sem greip hann heldur ýmis önnur atriði sem maður spáir ekki svo mikið í sjálfur.  Honum fannst rosalega flott þegar það var spiluð músík í hálfleik og ekki síst þegar hún bergmálaði undir skyggninu. Hvatningarhrópin voru líka í uppáhaldi og eru enn og flott fannst honum þegar leikmenn renndu sér á blautum velli svo að gusaðist úr grasinu. 

En hann hafði ekki þolinmæði í að sitja í 90 mínútur og því fór stór hluti af þessari upplifun í að rölta um svæðið og stundum að gefa frá sér hin ýmsu hljóð eftir því hvort hann var glaður eða reiður yfir einhverju.  Vallargestir horfðu í forundran á þennan undarlega dreng og einnig á pabbann sem rölti á eftir honum og reyndi að hafa einhverja stjórn á honum.  Stundum gekk hann upp að einhverjum og spurði að einhverju sem viðkomandi skildi ekki alveg. Stundum tók hann á rás og þá vonaði maður að hann hlypi allaveganna ekki inn á völlinn. Ég fann það mjög skýrt á þessum tíma að ef ég leyfði sjálfum mér að hafa áhyggjur af því hvað öðrum fyndist þá varð þetta mjög erfitt.  En ef ég gat leitt hjá mér alla hina vallargestina og hvað þeim fyndist þá var þetta ekki eins erfitt.  

Aðalmálið var að Bergi fannst þetta rosalega skemmtilegt og það er nú ekki eins og maður sé sí dettandi um hluti sem honum finnst skemmtilegt að gera.  Því leit ég þannig á að það skipti engu máli hvað mér fyndist um þetta ,aðalmálið var að honum fannst þetta skemmtilegt og því héldum við áfram að fara á leiki. 

Í dag er hann miklu duglegri og ekki eins mikið mál að fara með hann á leik.  Um daginn fór hann á leik með tveimur krökkum sem vinna á Ragnarsseli þeim Ástu Rós og Þóri og gekk alveg glimrandi vel. Eiginlega gekk mun betur heldur en hjá mér.  Bergur sat hjá Puma sveitinni í mestu látunum og var í góðum gír.  Keflavík vann leikinn 3-0 og því var uppáhaldslagið hans Bergs spilað þrisvar sinnum en það er Samba lagið sem er spilað í kerfinu í hvert sinn sem Keflavík skorar.  Þetta gekk svo vel að við erum að spá í að mæta með trommu og kjuða á næsta heimaleik og gerast gestameðlimir í Puma sveitinni með frænda hans Bergs honum Jóhanni Davíð aka Joey drummer. 

Bergur er þó enn líklegur til að draga að sér smá athygli með hegðun sem kannski  stingur aðeins  í stúf en so what ! Whistling

Kv.

Kej

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Inga Sveinbjörg Ásmundsdóttir
Inga Sveinbjörg Ásmundsdóttir

Þetta blogg er dagbók 4 manna fjölskyldu í Reykjanesbæ.

Upphaflega var hugmyndin með þessu bloggi að leyfa áhugasömum að fylgjast með framvindu þjálfunar á border collie hundi sem við fengum um árámótin 2008. Markmið þjálfunar var m.a. að kenna hundinum honum Goða að passa upp á hann Berg sem er einhverfur 13 ára drengur. Við vildum líka geta horft til baka og skoðað þetta aðeins í baksýnisspeglinum. 

Bloggið hefur síðan þróast aðeins  og hinar og þessar hugleiðingar hafa dottið hingað inn og ekkert endilega tengdar honum Goða sem bloggið er þó nefnt í höfuðið á. 

Allir þeir sem hafa áhuga á að fylgjast með okkur og jafnvel koma með innlegg eru velkomnir. Fjölskyldumeðlimir eru:

Kristinn Edgar Jóhannsson

Inga Sveinbjörg Ásmundsdóttir

Bergur Edgar Kristinsson

Gyða Sveinbjörg Kristinsdóttir

Goði Freyr Gyðuson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 3
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 36
  • Frá upphafi: 21231

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 36
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Myndaalbúm

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Teppi
  • Hetta
  • ...imag0101
  • ...090228_2_31
  • ...skur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband