Bloggfærslur mánaðarins, september 2008

FÍFA 2008

Ég fékk vinsamlega ábendingu um að í þessu bloggi okkar hefði bara alls ekkert verið minnst á nýjasta ferfætta  fjölskyldumeðliminn. Ábendingin átti svo sannarlega rétt á sér þar sem hún er ekki aðeins rétt heldur líka sönn. Það eru auðvitað stórtíðindi á hverju heimili þegar við bætist aukameðlimur upp á u.þ.b. hálft tonn. En til að gera langa sögu stutta, þá fjárfestum við í einu stykki af hrossi um daginn. 

Eins og áður hefur verið komið inn á í þessu bloggi þá hefur þessi fjölskylda einhvernvegin alltaf verið með annan fótinn úti í hesthúsi.  Systkini hennar Ingu eru svo mikið á kafi í þessu sporti að rétt standa hælarnir upp úr. Hún sjálf hefur líka aðeins dýft tánni úti (svona upp að hné eða svo) og að auki höfum við verið með Berg í þroskaþjálfun á hestbaki frá því hann var smápatti. Undirritaður aftur á móti hefur reynt hvað hann getur til þess að spyrna við fótum en algerlega án árangurs.  

Það tók svo endanlega steininn úr þegar litla skottið okkar hún Gyða tók hestabakteríuna á svo háu stigi að engin sýklalyf dugðu á.  Þar sem útséð var um að þetta væri einhver skammtíma sýking, heldur miklu líkara vírussýkingu, var ekki um annað að ræða en að næra þessa bakteríu aðeins og sjá hvert það leiddi okkur. Hún fór í reiðskóla og síðasta vetur fengum við lánaðan hest, hann Hauk, og átti Gyða að sjá um hann yfir veturinn.  Með mikilli aðstoð frá uppáhalds frænku sinni, henni Hönnu Möggu tókst Gyða á við þetta verkefni og aldrei dró úr áhuganum.  

Fyrir þennan vetur höfðum við því verið á höttunum eftir hesti annað hvort til leigu eða til að kaupa.  Við vorum búin að skoða okkur aðeins um þegar hún Hulda stórvinkona okkar og hestasérfræðingur með meiru, hringdi og sagðist hugsanlega vera með hest fyrir okkur.  Eftir að hafa skoðað hestinn með aðstoð sérfróðra hestamanna (Snorra og Hönnu Möggu) var ákveðið að fjárfesta í gripnum og fékkst hann á mjög sanngjörnu verði.  

Um er að ræða leirljósa meri og ég held að hún sé 21 vetra gömul.   Mér fróðari menn um hestamál (sem er c.a. 98% landsmanna) segja að um fínasta kvikindi sé að ræða og þrátt fyrir háan aldur á pappír þá eigi hún alveg nokkur ár inn (held ég hafi notað þennan texta orðrétt á síðasta afmæliskorti hjá frúnni Whistling).  Merin ber nafnið Fífa og var það í fyrsta sinn sem ég gat á einhvern hátt fundið einhverskonar samsömun við hest og mun ég aldrei kalla klárinn annað en FIFA samanber knattspyrnusambandið eða bara Playstation leikurinn Tounge .

Skráðir eigendur af hrossinu eru 2, Gyða Sveinbjörg og Bergur Edgar.  Bergur lætur sér fátt um finnast, á yfirborðinu að minnsta kosti en hinn eigandinn er afar, afar ánægður svo vægt sé til orða tekið. Ef einhver fengi lýsingu af dýrinu frá henni án þess að berja það augum þá myndi sá sami hald að hér væri komin Pegasus sjálfur, vængjaður og  tilbúin til orrustu. Hún fékk að fara einu sinni á bak þegar Fífa kom til sinna nýju heimkynna og tók sig bara vel út. 

Í vetur verður því áframhald á hestamennsku hjá fjölskyldunni á Þverholti 7, eða alla veganna hjá 75% ábúenda. 

 

Kv.

Kej


Áttatíu prósent !

Um daginn fór ég  að velta fyrir mér hve 80 prósent er rosalega há tala.  Áttatíu prósent Shocking.  Það er 8 af hverjum 10.  Það er líka 80 af hverjum 100.  Það er svakalega mikið.  

10 ástfangin pör ákveða að gifta sig.  Lífið tekur fagnandi á móti þeim utan við kirkjudyrnar brosandi og fullt af eftirvæntingu.  Hvíslar í eyru þeirra: komið þið með mér og skiljið áhyggjurnar eftir hjá hrísgrjónunum hér við kirkjudyrnar, þetta verður æðislegt hjá okkur. Öll pörin eru með lífshandritið í vasanum og öll eru þau búin að  lesa það oft og mörgum sinnum yfir. Handritið sem þau lásu var rómantískur gamanleikur með dramatísku ívafi en þó leyfilegt öllum aldurshópum.  Myndi vera með hvítu merki ef sýnt væri á RÚV. 

Þegar brúðkaupsbrímanum léttir og pörin taka sér stöðu á leiksviði lífsins vill svo illa til að öll þessi pör eru ekki bara í röngu leikriti heldur eru þau líka í vitlausu leikhúsi.   Þegar tjaldið er dregið frá reyna þau öll af fremsta megni og kunnáttu að spinna sig áfram í gegn um leikverkið þrátt fyrir að kannast ekkert við handritið, en það reynist þeim flestum á endanum of erfitt.  Leikritið sem þau eru skyndilega stödd í  reynist vera hádramatískur farsi með grín og hryllingsívafi og er bæði of þungt og of ókunnugt, og þau ná engan vegin nógu góðri tengingu við samleikarann. 8 af þessum hjónum ákveða því að segja skilið við þetta erfiða og þunga leikrit og flest gefast þau upp fyrir hlé.  

Þetta virðist vera sá raunveruleiki sem foreldrar einhverfra barna þurfa að horfast í augu við. Skilnaðartíðni hjá slíkum foreldrum er sagður vera um 80 % og er stundum talað um allt að 85-90% skilnaðartíðni.  Þetta eru fáránlega háar tölur og eiginlega alveg með ólíkindum. Reyndar hefur mér ekki enn tekist að finna haldbærar rannsóknir sem styðja þessar tölur og ég veit ekki til þess að gerð hafi verið slík könnun á Íslandi.  Engu að síður er 80% sú tala sem alltaf kemur upp þegar verið er að ræða um skilnaðartíðni hjá foreldrum einhverfra barna, á vefsíðum í spjallþáttum, á CNN og á fleiri miðlum. Ég veit að NAA (National Autism Association) í USA  hefur hrint af stað sérstöku átaki til að berjast gegn þessari fáránlega háu tölu.  

En hvað getur skýrt þessa gríðarlegu háu skilnaðartíðni.  Nánast undantekningarlaust er það pabbinn sem "gengur í burtu" og mamman "verður eftir" með fatlaða barnið.  Hvers vegna ? Er þessum feðrum sama um velferð barnsins síns ?  Var ástin ekki sterkari en þetta í upphafi ? Eru þetta bara einhverir skíthælar sem mamman er betur komin án ? 

Þar sem svo illa vill til að ég er hvorki alvitur né hef í fórum mínum kristalskúlu þá get ég því miður ekki svarað þessum spurningum.  Ég get aftur á móti talað aðeins af eigin reynslu þar sem ég er einmitt einn þessara leikara sem nú stendur á ókunnugu leiksviði með vitlaust handrit í rassvasanum.   Leikverkið sem ég er í er komið nokkuð á veg, 13 leikþáttur nýlega hafin og er ég aðeins farin að átta mig á aðstæðum í leikhúsinu. Farin að sjá hverjir af áhorfendum eru okkur hliðhollir og hverjir ætla bara að horfa á.  Sumir horfa reyndar bara í aðra átt og virðast engan áhuga hafa á þessu skrítna leikriti og nokkrir gengu út í hléinu.  

Það hafa oft komið stundir í leikritinu þar sem leikfléttan varð of snúin og þung og ég íhugaði alvarlega hvort ég gæti haldið þessu áfram.  Ástæðan hefur aldrei snúist um ást mína á samleikurum mínum, fjölskyldunni minni. Það er nefnilega svolítið merkilegt að á þeim stundum sem sviðsljósin hafa dofnað hvað mest og sviðið verið í  hvað mestu myrkri, þá hefur það aldrei verið vegna þess að mínir samleikarar hafi verið mér of erfiðir eða að ég hafi á einhvern hátt orðið þeim mótfallinn.

Nánast undantekningarlaust er ástæða erfiðleika súrefnisskortur á leiksviðinu.  Það er nefnilega ótrúlega auðvelt að keyra þetta fjölskylduleikrit áfram á fullum krafti en með næstum tóman tank.  Því einhvera hluta vegna er bensínmælirinn það fyrsta sem bilar við þessar aðstæður sem við erum leika við. Og við erum bæði sammála um það að þegar krísa skellur á, í formi depurðar, kvíða eða þunglyndis, þá sjáum við það aldrei fyrir.  Við höfum talað um þetta margoft og reynt að finna leiðir til að mæta svona tímabilum og reyna að sjá þau fyrir á einhvern hátt.  En það hefur reynst okkur erfitt hingað til og ekki til neinar töfralausnir.  

Ég hef líka oft leitt hugan að því hvers vegna við erum enn í 20 prósenta hópnum.  Ég og við erum meðvituð um þessa háu skilnaðartíðni og mikilvægi þess að rækta okkar samband sem hjón og vinir.  Við föllum stundum í þá gryfju að ætla að keyra þetta allt saman á eljunni og hörkunni og verður heimilið þá eins og hálfgerður vinnustaður og fjölskyldan að fyrirtæki. Það er ekki líklegt til árangurs til lengri tíma. Það er algert lykilatriði að við hjónin fáum öðru hvoru smá tíma til að rækta okkar vinskap og ekki síður að rækta okkur sjálf sem einstaklinga. 

En að mínu mati vegur lang þyngst í þessu öllu saman hvaða væntingar þú hefur til lifsins og að geta aðlagað væntingastuðulinn hjá þér eftir því hvaða aðstæður koma upp. Þegar barn fæðist er óhjákvæmilet að það hafi einhver áhrif á lífið hjá foreldrunum og að breyta þurfi einhverjum hlutum.  Ef ég hef t.d. þær væntingar til lífsins að ég muni fá fullan nætusvefn allar nætur þá er líklegt að ég verði fyrir vonbrigðum.  Ef ég aftur á móti geri mér grein fyrir því að ungabarni fylgir allskonar vesen og stúss þá verð ég ekki fyrir eins miklum vonbrigðum. Vandin með að eignast einhverft barn er að mjög erfitt er að átta sig á hvaða væntingar eru raunhæfar.  Við hófum okkar lífsgöngu með væntingarstuðulinn stilltan á normal og urðum eðlilega fyrir ítrekuðum vonbrigðum.  

Þegar við áttuðum okkur á að lækka þyrfti stuðulinn nánast niður í jarðhæð urðu vonbrigðin ekki eins mörg og ekki eins þung. Ég man sérstaklega vel eftir gamlárskvöldi þegar Bergur var c.a. 5-6 ára.  Jól og áramót voru í minum huga tímabil sem einkenndist af gleði og hamingju og án nokkurs vafa skemmtilegasti hluti ársins.  Eftir að Bergur kom til skjalanna fóru þessir dagar að taka á sig aðra mynd og urðu þessir dagar sem áður gengu út á dekur og hvíld að snúast um kvíða og puð.  Mjög erfitt var að fara með hann í jólaboð þar sem hann fiktaði í öllu og skemmdi og kveið okkur yfirleitt mikið fyrir slíkum boðum.  Gamlárskvöld með sínu skaupi, veislumat og kampavínsglasi fannst okkur erfiðast af öllum kvöldum því litli drengurinn hafði engan áhuga á að fylgja þeim áramótahefðum sem  við þekktum.  Hann vildi bara vera úti að skoða raketturnar.  Á þessu kvöldi var einna erfiðast að kyngja þeim brostnu væntingum sem við höfðum til kvöldsins.

Það var síðan eitt kvöld milli jóla og nýárs að við  Inga fórum að tala saman og komumst að því að okkur leið báðum alveg eins. Ég hélt í einfeldni minni að ég væri einn um að finnast þetta og skammaðist mín fyrir að vera að svekkja mig eitthvað á þessu. Við töluðum okkur saman þetta kvöld um að hætta að gera einhverjar óraunhæfar væntingar sem alltaf brugðust.  Í staðinn ætluðum við láta þetta kvöld vera kvöldið hans Bergs og gefa honum alla þá athygli sem hann þyrfti á að halda.  Allar væntingar um að geta setið við veisluborðið og spjallað, spilað saman trivial pursuit eða að horfa á skaupið voru settar í skókassa og geymdar til síðari tíma.  Við vorum í kuldagöllunum mest allt kvöldið og komum rétt aðeins inn til að hlýja okkur smá og stinga upp í okkur stöku konfektmola.  Skemmst er frá því að segja að þetta kvöld var frábært og kenndi okkur þessa rosalega mikilvægu lexíu að vera ekki að vænta einhvers sem er ekki til staðar.

Við höfum eftir þetta örlagaríka gamlárskvöld reynt að vera meðvituð um að væntingarstuðullinn sé alltaf í réttri hæð og fært hann til eftir því sem við á. Stundum fer hann niður en stundum líka upp.  Um daginn færði ég hann t.d. upp um einn heilann með því að kaupa áskrift að enska boltanum í vetur.  Því þrátt fyrir mjög mikin áhuga á enska boltanum þá hefur það hingað til ekki verið raunhæft að vænta þess að geta horft á heilan leik í sjónvarpinu. Nú hinsvegar er 13 ára ungilngurinn farinn að setjast hjá pabba sínum og spyrja hver sé staðan.

Því ætla ég að leyfa mér að vænta þess að geta fylgst með enska boltanum í vetur og það finnst mér frábært.  Það eru svona litlir sigrar sem eru mikilvægir. Wink

Kv.

Kej


Ljósanótt að baki, áramótin framundan.

Jæja þá er ljósanóttin komin og farin og verður að segjast að hún stóðst þær væntingar sem þessi fjölskylda gerði til hennar . Við hjónin kíktum á hina og þessa viðburði, listsýningar og tónleika, fórum í árgangagönguna ofl. Gyða fór nokkrar salibunur í fallturninum og Bergur fékk sína langþráðu flugeldasýningu. Sýningin stóðst væntingar flugeldafræðingsins  unga og gott betur og ég verð eiginlega að viðurkenna að ég eyddi ekki minni tíma í að horfa á hrifninguna Joyful í andliti sonar míns en að góna upp í himininn þær mínútur sem sýningin stóð yfir.

Og þá er ekki seinna vænna að byrja að hlakka til áramótanna, eða það finnst Bergi allaveganna.  Almanaksárið hans Bergs skiptist nefnilega í tvo hluta, ljósanótt og gamlárskvöld.  Restin af árinu fer svo í að hlakka til þessar tveggja stórviðburða. 

Ljósanætur fyrri ára hafa þó ekki verið án átaka því að nær undantekningarlaust hefur Bergur brjálast yfir því að flugeldasýningin hafi verið búin og oft hefur engu tauti verið við hann komið.   Pabbi hans hefur þurft að gera sér ferð af næturvaktinni í Leifsstöð til þess að halda á barninu bandbrjáluðu og hágrátandi heim af hátíðarsvæðinu.  Einu sinni var hann svo reiður að hann ætlaði ekki að geta sofnað út af grátekka. Oft hefur þetta verið mjög erfitt og reynt mikið á restina af fjölskyldunni, ekki síst litlu systir hans.  Í ár hinsvegar klappaði okkar maður fyrir flugeldasýningunni, stakk svo höndum í vasa og gekk af stað í áttina að bílnum.  Hafði smá áhyggjur af því hvort hann ætlaði að fara að rigna og hvort við þyrftum að hafa rúðuþurrkurnar á.  Þvílíkur munur og þvílík breyting á þessum unga manni sem er alveg að verða stærri en mamma sín by the way. 

Þegar maður hugsar aðeins til baka þá eru ótal minningar um aðstæður og atburði sem við höfum verið í með hann Berg sem hafa reynt mjög mikið á okkur sem einstaklinga og fjölskyldu líka.  Allskonar hegðun sem telst vera óviðeigandi af okkur hinum sem teljum okkur vera eðlileg, reiði og gleði yfir hlutum sem við þessi venjulegu tökum ekki eftir og allskonar skrítnir hlutir sem stundum auðgar tilveruna en reynir líka oft mikið á. 

Reyndar er mesta togstreitan oftast þegar maður lætur hið viðurkennda norm hafa áhrif á eigin viðbrögð. Þegar maður nær ekki að slökkva á "hvað ætli öðrum finnist" áhyggjum.  Dæmi um þetta er t.d. að fyrir nokkrum árum ákvað ég að athuga hvort ég fengi Berg til að koma með mér á fótboltaleik með Keflavík.  Ætli hann hafi ekki verið c.a. 9 ára gamall og varð hann strax mjög heillaður af öllu því sem fram fór á leiknum. Eins og með flest þá var það ekki það sem hin venjulegi áhorfandi fylgdist með sem greip hann heldur ýmis önnur atriði sem maður spáir ekki svo mikið í sjálfur.  Honum fannst rosalega flott þegar það var spiluð músík í hálfleik og ekki síst þegar hún bergmálaði undir skyggninu. Hvatningarhrópin voru líka í uppáhaldi og eru enn og flott fannst honum þegar leikmenn renndu sér á blautum velli svo að gusaðist úr grasinu. 

En hann hafði ekki þolinmæði í að sitja í 90 mínútur og því fór stór hluti af þessari upplifun í að rölta um svæðið og stundum að gefa frá sér hin ýmsu hljóð eftir því hvort hann var glaður eða reiður yfir einhverju.  Vallargestir horfðu í forundran á þennan undarlega dreng og einnig á pabbann sem rölti á eftir honum og reyndi að hafa einhverja stjórn á honum.  Stundum gekk hann upp að einhverjum og spurði að einhverju sem viðkomandi skildi ekki alveg. Stundum tók hann á rás og þá vonaði maður að hann hlypi allaveganna ekki inn á völlinn. Ég fann það mjög skýrt á þessum tíma að ef ég leyfði sjálfum mér að hafa áhyggjur af því hvað öðrum fyndist þá varð þetta mjög erfitt.  En ef ég gat leitt hjá mér alla hina vallargestina og hvað þeim fyndist þá var þetta ekki eins erfitt.  

Aðalmálið var að Bergi fannst þetta rosalega skemmtilegt og það er nú ekki eins og maður sé sí dettandi um hluti sem honum finnst skemmtilegt að gera.  Því leit ég þannig á að það skipti engu máli hvað mér fyndist um þetta ,aðalmálið var að honum fannst þetta skemmtilegt og því héldum við áfram að fara á leiki. 

Í dag er hann miklu duglegri og ekki eins mikið mál að fara með hann á leik.  Um daginn fór hann á leik með tveimur krökkum sem vinna á Ragnarsseli þeim Ástu Rós og Þóri og gekk alveg glimrandi vel. Eiginlega gekk mun betur heldur en hjá mér.  Bergur sat hjá Puma sveitinni í mestu látunum og var í góðum gír.  Keflavík vann leikinn 3-0 og því var uppáhaldslagið hans Bergs spilað þrisvar sinnum en það er Samba lagið sem er spilað í kerfinu í hvert sinn sem Keflavík skorar.  Þetta gekk svo vel að við erum að spá í að mæta með trommu og kjuða á næsta heimaleik og gerast gestameðlimir í Puma sveitinni með frænda hans Bergs honum Jóhanni Davíð aka Joey drummer. 

Bergur er þó enn líklegur til að draga að sér smá athygli með hegðun sem kannski  stingur aðeins  í stúf en so what ! Whistling

Kv.

Kej

 


Um bloggið

Inga Sveinbjörg Ásmundsdóttir
Inga Sveinbjörg Ásmundsdóttir

Þetta blogg er dagbók 4 manna fjölskyldu í Reykjanesbæ.

Upphaflega var hugmyndin með þessu bloggi að leyfa áhugasömum að fylgjast með framvindu þjálfunar á border collie hundi sem við fengum um árámótin 2008. Markmið þjálfunar var m.a. að kenna hundinum honum Goða að passa upp á hann Berg sem er einhverfur 13 ára drengur. Við vildum líka geta horft til baka og skoðað þetta aðeins í baksýnisspeglinum. 

Bloggið hefur síðan þróast aðeins  og hinar og þessar hugleiðingar hafa dottið hingað inn og ekkert endilega tengdar honum Goða sem bloggið er þó nefnt í höfuðið á. 

Allir þeir sem hafa áhuga á að fylgjast með okkur og jafnvel koma með innlegg eru velkomnir. Fjölskyldumeðlimir eru:

Kristinn Edgar Jóhannsson

Inga Sveinbjörg Ásmundsdóttir

Bergur Edgar Kristinsson

Gyða Sveinbjörg Kristinsdóttir

Goði Freyr Gyðuson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Myndaalbúm

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Teppi
  • Hetta
  • ...imag0101
  • ...090228_2_31
  • ...skur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband