Maraþon og Ragnarssel

Kæru vinir.  Eins og einhverjir vita þá hef ég verið að undirbúa mig undir þátttöku í Reykjavíkurmaraþoni Glitnis.  Ég hef verið að hlaupa síðan í maí, með dyggri aðstoð frá Goða Smile.  Honum þykir þetta ótrúlega skemmtilegt og víkur ekki frá mér þegar ég er búin að klæða mig í hlaupafötin - eltir mig um allt hús til að missa örugglega ekki af mér.

Af hverju að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoni?  Því þar er hægt að velja sér góðgerðarfélag, safna áheitum og skila vonandi einhverju af sér Halo.  Ég er þegar búin að skrá mig og hleyp fyrir Þroskahjálp á Suðurnesjum - en hef fengið leyfi til að allt sem kemur inn sem áheit á mig í þessu hlaupi renni óskert til uppbyggingar á hinu nýja Ragnarsseli.  Já það á að stækka Ragnarssel núna í haust.  Gylfi sjúkraþjálfari er að fara annað og þá fá börnin í dagvistuninni meira rými til að örva og þroska líkama og sál.  Það er alltaf að fjölga þeim börnum sem þurfa á þessari þjónustu að halda.  Nú hvet ég ykkur kæru vinir að heita á mig í þetta hlaup og gleðja í leiðinni Berg og vini hans á Ragnarsseli.

Munið bara að margt smátt gerir eitt stórt og hvatning ykkar á eftir að verða mér ómetanleg þegar 10 km verða hlaupnir.  Þeir sem hafa áhuga geta smellt hér og fundið mig í leitarglugganum. Áheit á mig fara síðan sjálfkrafa á þroskahjálp á suðurnesjum (Ragnarssel).

 

Bestu kveðjur, Inga Sveina

(Inga Sveinbjörg Ásmundsdóttir)


Haltur hundur,harðsperrur og hetjudáðir.

Aumingja Goði er orðin haltur á hægri framlöpp. Við tókum eftir þessu einn daginn og vitum enga skýringu á þessu. Þegar hann stendur upp úr liggjandi stöðu haltrar hann í smá stund en síðan dregur úr því og á endanum fer það.  En um leið og hann leggst aftur stendur hann upp jafn haltur og áður.  Fórum á endanum með hann til dýralæknis sem skoðaði hann og sagði að líklega væri hann tognaður á löppinni.  Fékk bólgueyðandi töflur og fyrirskipað að taka því rólega í fimm daga.

Málaraverktakarnir (Krissi og Inga) vinna hörðum höndum að því að mála slotið á þverholti 7 og þó að gangi kannski pínu hægt þá er þetta allt að koma.  Eina sem við gleymdum að gera ráð fyrir var að hvorugt okkar er 17 ára ennþá og harðsperrurnar eftir að standa í stiga og mála  upp fyrir sig eru eitthvað sem ég myndi ekki óska mínum verstu óvinum.  En á endanum verður þetta búið og þá man engin hvort þetta tók eina viku eða 2 mánuði.  

Þegar við hjónin vorum í London í maí mánuði tókum við þá ákvörðun að ná okkur í hlaupaprógramm og stefna markvisst að því að taka þátt í reykjavíkurmaraþoninu í ár.  Nú þegar stutt er í fyrrnefnt maraþon hefur sá sem þetta skrifar ekki hlaupið í annað en spik á meðan að betri helmingurinn hljóp 8km í gær og hefur núþegar skráð sig í að hlaupa 10km í reykjavíkurmaraþoninu.  Ég verð að viðurkenna að mér finnst hún vera þvílík hetja og ég vildi óska þess að ég væri jafn duglegur og hún.

Lykilinn að þessu hjá henni er að hún fór hægt af stað og bætti við sig jafnt og þétt.  Ég er aftur á móti þessi gæi sem byrjar á að hlaupa 10km og er síðan rúmfastur Sick í viku með harðsperrur dauðans. 

Kv. Kej 


Berglaus vika.

Bergur fór í sumarbúðir og Þverholtið hefur því verið Berglaust í eina viku.  Afar, afar sérstakt ástand fyrir þá sem eru því ekki vanir verð ég að segja. Engin kvöldfótbolti, engar vangaveltur um eðli flugelda og engar vettvangsrannsóknir á skordýrum. Auk þess frí í hundaþjálfun og Goði greyið ráfar um hálf stefnulaus og veltir fyrir sér tilgangi lífsins. 

Húsráðendur fóru því á fullt þessa vikuna í að mála óðalið að utan og gengur þokkalega þó hægt fari. Byrjuðum á þakinu og þegar við vorum búin að grunna og rétt hálfnuð með að mála fyrri umferð sjáum við hvar skutbíll rennur upp að húsinu beint á móti og út stíga 2 málarar vopnaðir málningarsprautu.  Þeir voru síðan hálfan dag að gluða yfir þakið á meðan við hjónin djöfluðumst með málningarkústana og gott ef helvítinn glottu ekki til okkar Tounge þegar þeir príluðu niður af þakinu, við enn að tuddast með kústana á fyrri umferð.

Húsfrúin fór síðan einn daginn í málningarbúðina að sækja meiri málningu og beið eftir afgreiðslu í sínum málningarfötum með öllum sínum málningarslettum.   Á undan henni var ónefnt par í sínu fínasta pússi og voru þau að velja sér lit utan á húsið sitt.  Þegar þau höfðu komið sér niður á lit sögðu þau síðan við afgreiðslumanninn " Já og málarinn kemur svo í fyrramálið og sækir þennan lit". Það sauð náttúrulega á minni  Devil og eflaust hefur litlu munað að hún missti eitthvað óheppilegt út úr sér (sem hún er soldið gjörn á að gera þessi elska).

En maður getur ekki annað gert en að fara með gömlu möntruna um að maður sé á svo góðu tímakaupi og bla bla bla..Whistling  Annars fallast manni bara hendur í svona framkvæmdum.   

Kv. Kej.

 

 


Þjálfunar "update"

Í hundaþjálfuninni er aðaláherslan á samskipti Bergs og Goða þessa stundina.  Mesta baslið er að fá Berg til að haga sér samkvæmt teikningunni en hann er soldið gjarn á að detta í fíflagang og gleymir stundum að hann þarf að huga að Goða. Atli hefur látið Berg vera með nokkurskonar belti utan um sig miðjan með áföstum taumi sem festur er við hundinn.  Þetta hefur gefist nokkuð vel og á meðan Bergur er til í að vera með þetta hangandi utan um sig þá gengur þetta fínt.

Í síðasta tíma bað Atli um að fá að vinna með Berg og hundinn án þess að við værum með.  Það fór eins og við höfðum haldið að án foreldrana þá var miklu minna um kjánalæti í honum og tíminn gekk alveg glimrandi vel.  Ég verð að viðurkenna að ég var farinn að fá smá efasemdir Blush um að þetta væri að ganga hjá okkur því mér fannst Bergur vera svo erfiður í taumi og gjarn á að detta í fíflagang á æfingum.  Þegar hann var einn með Atla þá náði ég að sjá aðeins til þeirra úr launsátri og þá fannst mér ég eiginlega í fyrsta skipti sjá hvernig þetta gæti gengið upp. Þeir voru rosalega flottir saman og Goði virtist mjög meðvitaður um hlutverk sitt. 

Auðvitað er hellings vinna eftir og nokkuð langt í land með að upphafleg markmið okkar séu í höfn en ég held að óhætt sé að segja að við séum á ágætis róli með þetta allt saman. 

Kv. Kej 


Ferðasaga

Það var á myrku íslensku vetrarkvöldi sem undirbúningur fyrir sumarfrí 2008 hófst.  Okkur langaði til að fara í sumarhús í eina viku og skoðuðum hús víðsvegar um Danmörku.  Á endanum pöntuðum við hús við austurströnd Jótlands við bæin Ebeltoft.  Við sáum á kortum að í næsta nágrenni við þetta hús væri hægt að finna sér ýmislegt spennandi að gera eins og að heimsækja skemmtigarða, dýragarða eða bara að fara á ströndina.  Föstudaginn 27 júní hófst síðan þetta langþráða fjölskylduævintýri hjá okkur.Joyful 

Við tókum bílaleigubíl á Kastrup og byrjuðum á að keyra til Horsens þar sem við gistum fyrstu nóttina hjá honum Hansa eðaldreng. Við áttum sumarhúsið frá 28 júní en vegna mikilla bókanna í flug þann dag ákváðum við að fljúga út degi fyrr.  Hansi var  frábær gestgjafi og tók Berg og Gyðu einn rúnt um hverfið á vespunni sinni og komst við það í guðatölu hjá Bergi.  Það var líka gaman að koma í þennan margumtalaða bæ sem hýst hefur ansi margan  íslendinginn. 

Á laugardeginum tókum við síðan stefnuna á Ebeltoft með viðkomu í dýragarðinum í Givsgud sem er skammt utan við Horsens. Sá dýragarður var mjög flottur og hentaði okkur einstaklega vel þar sem  maður keyrir á eigin bíl í gegn um megnið af garðinum.  Þó eru tekin nokkur stopp og labbað ogMyndir 979 skoðað.  Þegar við keyrðum inn í ljónagarðinn var fílíngurinn svipaður og í jurassic park, slík var öryggisgæslan. Öryggiskröfurnar eru mjög strangar og að eðlilegum ástæðum er bannað að fara úr bílnum og alls ekki að opna glugga.  Ljónin röltu í hægðum sínum í kring um bílana og var þetta alveg magnað.  Bergur ákvað síðan að skoða þetta aðeins betur og renndi niður rúðunni hjá sér við  netta skelfingu annara bílverja.  Allt fór þó vel að lokum og við sluppum tiltölulega óétin úr dýragarðinum í Givsgud.

Fyrstu dagana okkar í sumarhúsinu í Ebeltoft var skýjað en hlýtt og við ákváðum að nota þá daga til að skoða Kattegatcentret sem er skemmtilegt sjávaradýrasafn þar sem m.a. má sjá aldeilid magnað hákarlabúr. Einnig fórum við í Djurs sommerland sem er frábær skemmtigarður með rússibönum, vatnagarði og öllu því sem gaman er að upplifa þegar maður er 7 og 13 ára.  Við fórum 2 daga í röð  í þennan garð og áttum frábærar stundir þar.

Restina af vikunni var síðan hitstig 30 plús og ekki ský á lofti og við skelltum okkur á stöndina.  Rétt fyrir neðan húsið okkar var ágæt strönd sem prófðum og í 10 mín keyrslu frá okkur var önnur frábær strönd þar sem við gátum vaðið langt út á þægilegum sandi.  Þar var synt, snorklað og flatmagað eins og hægt var. Bergur var ótrúlega góður við þessar aðstæður sem hingað til hafa ekki höfðað mikið til hans. Þrátt fyrir sólarvörn ,húfur og hatta þá sólbrunnu gömlu hjónin aðeins og á síðasta degi lögðum við ekki í ströndina en skelltum okkur þess í stað í Scandinavisk Dyrehave sem kom rækilega á óvart.  Mjög flottur og stór garður með skógarbjörnum, úlfum, ísbjörnum ofl. 

Á laugardeginum var síðan komin tími til að koma sér heim til íslands og þrátt fyrir skemmtilega viku voru allir tilbúnir að fara heim.  Við þurftum að skila af okkur húsinu kl. 10 um morguninn og áttum flug kl. 2230 um kvöldið. Við ákváðum því að keyra inn í Kaupmannahöfn og skoða okkur aðeins um þar. Kíktum á litlu hafmeyjuna og skoðuðum ráðhústorgið og tívolíð út um bílgluggann.

Fjölskyldan var síðan orðin vel þreytt þegar við vorum komin á Kastrup og biðum eftir fluginu okkar.  Við fengum ekki sæti saman í innrituninni og vorum búin að búa okkur undir að sitja í tvemur hollum í vélinni. Okkur til gríðarlegrar gleði var vinkona okkar hún Sigga flugfreyja um borð og hún stokkaði upp farþegarýminu á svipstundu og kom allri fjölskyldunni saman á besta stað um borð. Hún kom síðan með leikjastýripinna fyrir Berg og Gyðu og flugið heim varð af þessum orsökum frábært ævintýri sem leið hratt fyrir foreldra sem gengu á tómum vararafhlöðum. 

Við höfðum fyrir ferðina velt fyrir okkur hvort að við sem fjölskylda gætum verið saman þetta lengi án  utanaðkomandi aðstoðar.  Við fórum saman til Noregs sumarið 2004 og ætluðum okkur þá að vera í viku en gáfumst upp eftir 5 daga. 2007 fórum við síðan í vildarbarnaferð til Florida með öfluga aðstoðarmenn með  okkur og vorum í 10 daga. Nú var stefnan tekin á 8 daga saman og bara við og engin annar. 

Við erum sammála um að þessi ferð hafi tekist vonum framar og þjappað okkur saman sem fjölskyldu.  Minningarbankinn var fylltur af skemmtilegum minningum og Bergur og Gyða tókust á við ýmislegt sem eflaust á eftir að þroska þau og efla systkinaböndin.

Svo ekki sé minnst á hvað við áttuðum okkur á hvað rúmin, koddarnir, sængurnar og þvottavélin okkar eru æðisleg.  Heart

 

Kv. Kej 

 


Að senda frá sér barnið sitt.

Bergur fór á Heiðarholt um daginn og var þar í eina viku.   Ekki laust við að við værum farin að sakna hans og var hann sjálfur ánægður að vera komin heim til sín. "Búin að vera á Heiðarholti" sagði hann við mömmu sína um kvöldið "nú vera heima hjá mömmu".  

En mikið er lífið annars öðruvísi þegar þessi elska fer út af heimilinu í ekki lengri tíma en þetta.  Eins og okkur finnst erfitt að láta hann frá okkur í heila viku þá er alveg ótrúlegt hvað mikið breytist við það. Allt í einu á maður fullt af tíma til að sinna hinu og þessu. Húsverk og hobbý, viðhald (sko heimilis viðhald meina ég ekki hinsegin viðhald þið vitið) og bara almennt vesen, Allt í einu hefur maður tíma til að stússast í þessu öllu saman.  Maður venst síðan bara því umhverfi sem maður lifir við og þegar litli kallinn er kominn heim er maður fljótur að detta í það mynstur sem fylgir honum.  Oft er þetta bara spurning um að vera ekki með of miklar væntingar þá eru færri vonbrigði Wink.

Í gegn um tíðina hafa nokkuð margir einstaklingar komið að honum Bergi sem stuðningsaðilar ýmiskonar. Misjafnir einstaklingar með misjafna sýn á lífið eins og gengur og gerist.  Við gerðum okkur fljótlega grein fyrir því að sjálfsagt yrði mikið um mannabreytingar í þessum málum þar sem ekki væri hægt að búast við því að fólk entist lengi í svona störfum.  En mikið rosalega höfum við verið lánsöm með þá sem hafa viljað kynnast og styðja við hann Berg okkar.  Án þess að nefna ákveðin nöfn umfram önnur þá finnst okkur með ólíkindum hvað margir frábærir einstaklingar hafa kosið að koma inn í lífið hans Bergs og hans fjölskyldu. Allt frá því að hún Þuríður tók við honum á fyrsta degi í  leikskóla og þar til í dag höfum við átt ótrúlegu láni að fagna í þessum málum.  

Ragnarssel og Heiðarholt eru skýr dæmi um þetta því mannauðurinn sem falinn er í starfsfólkinu þar er mjög mikill. Þessar stofnanir eru algerlega eins góðar eða slæmar og starfsfólkið sem vinnur þar.  Það er hverju foreldri erfið ákvörðun að þurfa hálfpartinn nauðug að senda barnið sitt í burtu, hvort sem það er í eftirmiðdag, yfir helgi eða í heila viku.  Bergur vill yfirleitt ekki fara í burtu og kvartar og jafnvel grætur þegar verið er að fara yfir planið með honum. Eðlilega er það ekki til að auðvelda okkur. Það er því ómetanlegt fyrir okkur að vita af því að vel er hugsað um hann og að hann fær að njóta sín í þessum vistunum.  Enda kemur hann nánast alltaf mjög glaður heim og í góðu jafnvægi. 

Og þar sem Bergur segir foreldrum sínum ekki frá því sem á daga hans hefur drifið þá er það eini mælikvarðinn sem höfum á það hvort það hafi verið gaman Grin hjá honum eða ekki Angry.  

Kv.

Kej 

 


 

 


Þrettán.

Bergur átti afmæli á sunnudaginn (15. júní) og er nú orðin þrettán ára gamall.  Ótrúlegt hvað tíminn líður hratt (á gervihnattaöld). Ég man vel eftir því þegar ég heyrði að við ættum von á okkar fyrsta barni. Ég man líka vel eftir meðgöngunni, kvöldgöngutúrum um Njarðvíkurnar þar sem við bjuggum á þessum tíma.  Eftirvæntingunni og vangaveltum um hvernig barnið myndi líta út, hvaða kyn það yrði, hvað það ætti að heita osfrv. Þetta voru langir 9 mánuðir og tilhlökkunin var næstum því óbærileg fannst mér. Pinch

Þann 15. júní 1995 var ég í vinnunni og kom heim í hádeginu.  Við fórum niður á heilsugæslu í skoðun og eftir þá skoðun var ljóst að nú var þessi stóra stund um það bil að renna upp.  Kl. 20:58 kom síðan í heiminn lítill strákur með tíu putta og tíu tær.  Mér fannst þessi stund ganga kraftaverki næst og mun aldrei nokkurn tíman gleyma henni.  Ég man enn eftir lyktinni af honum nýfæddum, sérstaklega lyktinni af kollinum hans. Og aldrei hef ég verið ástfangari og fyllri aðdáunar á konunni minni en akkúrat á þessari stund. InLove

Afmælisveislurnar hans Bergs hafa stundum verið soldið skrítnar og ekki eins og flestir kannast við.  Bergi finnst afmælissöngurinn svo svakalega sorglegur að hann brestur nær undantekningarlaust í grát við hann.  Því er enginn afmælissöngur í hans afmælum.  Hann kann heldur ekki þá lyst að eignast vini og eftir að hann komst á skólaaldur eru gestirnir bara úr fjölskyldunni.  Stundum er fólk í ferðalagi eða að gera eitthvað annað og þá er gestalistinn soldið þunnskipaður. 

Mamma hans Bergs er mikil afmæliskona. Miklu meiri heldur en ég.  Henni hafa alltaf þótt afmælisdagar vera mjög miklir merkisdagar og alltaf tekist að gera afmælisdaga allra fjölskyldumeðlima að sérstökum dögum sem skilið hafa eftir sig góðar minningar.  Þó að mér sjálfum hafi stundum ekki þótt tilefni til að gera eitthvað mikið úr mínum afmælisdegi þá hefur hún alla tíð verið mér algerlega ósammála og alltaf gert þessa daga eftirminnilega á einn eða annan hátt. Það sama á við um afmælisdagana hans Bergs.

Eitt árið mættu í garðinn hjá okkur á Elliðavöllunum einhverjir menn frá bænum með risastóran hoppukastala sem blásinn var upp.  Ferlíkið var það stórt að kötturinn sem við áttum á þeim tíma lét ekki sjá sig  fyrr en daginn eftir. Síðan mætti í afmælið þessi líka fína skrúðganga af krökkum frá Ragnarsseli og áttum við saman alveg frábæran dag.  Hoppukastali ,pulsupartý og fullt af krökkum, gerist ekki betra.  Ég veit ekki ennþá hvernig hún fór að þessu en þetta er hún í hnotskurn. 

Á þrettán ára afmælisdaginn  fékk Bergur í afmælisgjöf m.a. keflavíkur fótboltabúninginn, peysu og stuttbuxur, sem merkja á með nr. 9 að hans ósk. Hann fékk líka körfuboltaspjald og 2 körfubolta sem sló alveg í gegn. Það er ekki auðvelt að velja afmælisgjafir fyrir hann því bæði þarf að huga að hans þroska og einnig að gjöfin sé eins "age appropriate" og hægt er.  Þetta er oft nokkuð snúið. 

Í miðri afmælisveislunni hvarf síðan afmælisbarnið.  Hann hafði verið úti með Goða eitthvað að dinglast með boltann sinn og amma hans var með honum.  Skyndilega sást ekkert í hvorki dreng né hund.  Ég fór út og byrjaði á að rölta í kring um hús og kallaði til skiptis á hann og hundinn. En ekkert kom svarið og það fannst mér skrítið.  Hann fer yfirleitt ekki langt í burtu og hundurinn kemur um leið og ég kalla. En í þetta skiptið kom hvorugur og það leist mér ekki vel á.  Á endanum var allur gestalistinn komin út að leita og ég var kominn hálfa leiðina upp á þak til að sjá betur þegar Goði kemur hlaupandi.  Ég segi þá við hann "finna Berg" og við það rauk hann af stað og ég á eftir.  Hann hljóp og stoppaði og beið eftir mér (veit, ekki sá fljótasti Whistling) og rauk svo af stað aftur.  Fljótlega sá ég okkar mann niður á fótboltavelli á Vatnsholtinu (rétt hjá Kaskó) og var hann þar bara í góðum fílíng að leika sér með boltann sinn.  Goði hefur líklegast heyrt blístrið hennar Ingu og komið hlaupandi við það. Þetta var alveg frábært og hálfgerð sýnikennsla á hæfileika þessa frábæra hunds.

Fyrir nokkrum dögum síðan var þessi frétt á netmiðlum um fatlaða stúlku sem týndist i hafnarfirði og hafði verið kallað á þyrlu og björgunarsveitir til að leita að henni og ráðgert var að notast einnig við sporhunda. Ef ég man rétt þá fannst hún eftir uþb. 2 eða 3 tíma heil á húfi.  Sú frétt og sú staðreynd að þyrla,björgunarsveit og sporhundar voru þarna í því hlutverki sem Goða er m.a ætlað að sinna, gerir ekki annað en að hvetja okkur áfram í því verkefni sem við erum að vinna að . 

 

Kv.

Kej.  


Bergur mætir til leiks

    Nú er komið að því að Bergur fari að taka fullan þátt í þjálfuninni.  Hann mætti í fyrsta tíma um daginn og gekk eiginlega vonum framar að mínu mati.  Ekki alveg gott að sjá fyrir hvernig þetta Myndir 805muni ganga með hann og ég átti alveg eins von á að hann myndi ekkert vilja taka þátt í þessu rugl með okkur.  Hann vildi fyrst ekkert koma inn í salinn sem notaður er til þjálfunar og sagðist vera hræddur.  En eftir smá tiltal varð hann samstarfsfúsari.  Atli lét Berg hafa tauminn í aðra hendina og leiddi hann eða lét hann halda utan um öxlina á sér með hinni. Svo gafMyndir 810 Bergur sínar skipanir og Atli sá til þess að Goði skildi hann og færi eftir hans skipunum.  Einnig fór hann yfir hvernig Bergur á að hrósa Goða fyrir að gera rétt.  Bergur vildi helst henda sér niður í hvert sinn og knúsa og hnoða hann en Atli sýndi honum hvernig viðeigandi hrós færi fram.  Mér fannst Bergur bregðast vel við Atla og hans fyrirmælum og vona innilega að hann kaupi hann sem einhvern sem hann á að hlýða og þýði ekkert að vera með einhver fíflalæti við.

    Goði greyið var hálf ringlaður Shocking á þessu fyrst.  Vissi ekki alveg hverjum hann átti að hlýða. Ekki bætti úr skák að ég var að sniglast í kring um þá með myndavélina og hann var alveg ringlaður á goggunarröðinni. Reyndar varð myndavélin batteríslaus en ég náði samt að kreista nokkrar myndir úr henni.

    Bergur var síðan í miklu óstuði fyrir næsta tíma og við ákváðum að fresta tímanum og ekki taka sénsinn á að gera þetta að einhverri neikvæðri upplifun.  En svona er þetta bara, maður er ekki alltaf í stuði og þá verður að taka tillit til þess.  Annars er það líka í fréttum að Bergur fékk sumarklippinguna um daginn.  Pabbi hans notaði sénsinn þegar mamman var í burtu í 4 daga og snoðaði drenginn almennilega.  Honum finnst fátt eins óþægilegt og klipping og því var þetta alveg kjörið.  Þar sem hann lætur öllum illum látum við þessar athafnir þá var ekki í boði að klippa hann au couture og því var bara allt rakað af.  Hann situr nú löngum stundum og strýkur yfir kollinn sinn og segist vera sköllóttur Tounge.


Fótbolti

600px-Soccer_ball.svgRosalega finnst mér fótbolti skemmtilegur. Allt frá því ég man eftir mér hef ég haft mikin áhuga á fótbolta.  Æskuminningar mínar eru uppfullar af fótbolta, fótbolti í frímínútum , með strákunum í hverfinu, fótboltaæfingar með keflavík, horfandi á enska boltann með pabba og að stússast í 1x2 getraunum sömuleiðis með pabba.  Raunar á hann stóran þátt í þessum áhuga mínum þar sem hann sjáflur var mikill áhugamaður um fótbolta allt til hinsta dags. 

Frá unga aldri hef ég haft mikla ánægju af að sækja leiki með keflavík og íslenska landsliðinu og veit fátt sumarlegra en að fara á völlinn.  Ég man eftir ferðum á völlinn með pabba þegar ég var lítill drengur bæði með keflavík og landsliðinu.  Á veturna hefur síðan enski boltinn leikið stórt hlutverk í mínu lífi og reyndi ég að missa ekki af leikjum liverpool ef þess var einhver kostur. 

Þegar aðstæður breytast í kjölfar barneigna er óhjákvæmilegt að hlutir eins og fótboltagláp lækki nokkuð í forgangsröðinni og í mínu tilfelli fannst mér það ekkert mál. Ég átti reyndar ekki von á að það færi eins neðarlega og raun bar vitni en ég hef ekkert verið að kvarta mikið samt.  Gamli fótboltafíkilin hefur bara tekið það sem boðist hefur hverju sinni og reynt að bera harm sinn í hljóði.   Man t.d. eftir köldum laugardegi í desember, liverpool að spila í deildinni í beinni á skysport.  Ég og Bergur úti í einhverju stússi, kveikt á sjónvarpinu inni í svefnherbergi og dregið frá. Svo reyndi maður eftir því sem færi gafst að guða á gluggan og sjá hvort staðan hefði breyst á milli þess sem maður hljóp á eftir Begga.  Ég hætti síðan að kaupa áskrift að enska boltanum þar sem sjaldan gafst færi á að horfa .   Mér hefur yfirleitt ekki þótt þetta neitt tiltökumál, svona var þetta bara og ekki til neins að kvarta. 

Bergur hefur líka smitast af þessari boltadellu og hefur alltaf haft rosalega gaman af boltaleikjum.  Hann hafði reyndar lengi vel ekki mikin áhuga á að horfa á aðra sprikla með bolta en var alveg sjúkur í að vera sjálfur með bolta. Ég fór síðan að gera  tilraunir til þess að fara með hann á völlinn og sjá keflavík spila.  Honum fannst þessi viðburður sem fótboltaleikur er alveg rosalega spennandi.  Honum fannst reyndar ekki aðalmálið að fylgjast með leiknum og gangur leiksins og úrslit fóru eiginlega fyrir ofan garð og neðan. Hlutir eins og hvatningarhróp og trommusláttur, tónlist sem spiluð var í hálfleik og poppkornsát voru aðalmálið.  Hann nennti ekki að sitja kyrr í sætinu og við röltum um vallarsvæðið í c.a. 70% af leiknum.  Svo var yfirleitt tekið eitt eða tvö köst þar sem áhorfendur fylgdust forviða með þessum óþekka dreng og pabbanum sem hafði enga stjórn á honum.  En svona var þetta bara og engin ástæða til að taka þetta eitthvað inná sig. 

En nú eru aldeilis hlutirnir að snúast mér í hag skal ég segja ykkur Smile.  Unglingurinn minn sem bráðum  verður 13 ára er allt í einu farin að horfa á heila fótboltaleiki í sjónvarpinu.  Hann er eftir sem áður sjúkur í að fara á völlinn en situr núna lengur en áður.  Hann vill helst ekki klæðast öðru en fótboltatreyjum í skólann og þekkir hvaða treyjur tilheyra hvaða liði. Við feðgarnir sátum saman á miðvikudagskvöldið og horfðurm á úrslitaleik meistardeildarinnar, Manchester United gegn Chelsea.  Þessi leikur bauð upp á allt það sem hægt er að biðja um í fótboltaleik, mörk, stangarskot (sem Bergi finnst vera aðal) gul og rauð spjöld, hálfleik, framlengingu, vítaspyrnukeppni , grátur, hlátur, bikarafhendingu og flugelda. Það var því frekar syfjaður unglingspiltur sem mætti í skólann, klukkutíma of seint, daginn eftir. 

Fór svo að pæla aðeins í því um daginn þar sem við feðgarnir vorum með boltann á einhverjum grasvellinum hversu heppinn við erum að hann skuli hafa þennan áhuga á að leika sér í fótbolta.  Hann gæti þessvegna ekkert viljað fara út að leika sér.   Frekar hanga inni í tölvunni eða að glápa á sjónvarpið eða bara vesenast eitthvað með eitthvað dót.  Þó að við þurfum að fara út með honum í hvert sinn þá er það fórnarkostnaður sem við borgum með glöðu geði því hvað er eðlilegra og heilbrigðara en að vilja fara út að leika sér með boltann sinn þegar maður er 13 ara. Svo heldur þetta okkur í smá formi sem er bara fínt. Wink

En fyrir næsta vetur verður það skoðað af meiri alvöru en áður hvort kaupa skuli áskrift að enska boltanum. Grin

 


Þreyta

    Annasöm vika og hvítasunnuhelgi að baki og allir yfir þrettán vel þreyttir.  Undirritaður var sendur með litlum fyrirvara til Toronto í vinnuferð í 2 nætur og kom heim á laugardagsmorgni.  Heimilshaldið var sett í poka og teipað við bakið á húsfrúnni á  meðanShocking sem því miður fékk ekki frí frá vinnu eða heimili til þess að koma með. Þegar heim var komið tók við fótboltamaraþon með Bergi sem ekki sér fyrir endann á.  Bergur er núna með gríðarmikla fótboltadellu og vill helst vera í fótbolta allan daginn. Pabbi hans Bergs komst að því sér til mikillar skelfingar að hann er ekki 18 ára ennþá og hefur fundið fyrir ýmsum undarlegum líkamlegum kvillum í kjölfarið á  áðurnefndu maraþoni sem falla líklegast flestir undir samheitið harðsperrur. 

    Að Bergs mati gekk sumarið formlega í garð þegar fyrsti leikur hjá keflavík í landsbankadeildinni var háður og við vorum að sjálfsögðu þar. Hann vill helst ekki klæðast öðru en fótboltatreyjum og toppar ekkert að vera í nr. 9 með Torres á bakinu. Gylfi gullmoli sem er stuðningurinn hans í skólanum bauð kappanum svo með sér á Keflavík-Fylkir á fimmtudagskvöldinu og það sló heldur betur í gegn bæði hjá Bergi og foreldrum hans. 

    Goði tók upp á þeirri nýjung um daginn að stoppa alltaf reglulega þegar farið var með hann út að ganga og horfa á þann sem hélt í tauminn það sinnið eins og hann vildi segja honum eitthvað.  Við héldum kannski að hann þyrfti að gera nr. 2 en það var ekkert endilega raunin. Oftast dugar að klappa á lærið (á mennska aðilanum þ.e.a.s) og hvetja hann áfram og þá gekk hann aftur af stað.  En síðan stoppaði hann aftur og svona gekk þetta í nokkurn tima. Eftir að ég varð aðeins Policeákveðnari við hann þá hætti hann þessu en ég er enn ekki viss hvað honum gekk til með þessu.  Það hefur verið smá pása á þjálfun vegna anna en í síðasta tíma vorum við að láta Goða finna prik sem búið var að marinera í munnvatni frá Bergi.  Skemmst frá því að segja að Goði stóð sig rosalega vel þvi mikið var af aukalykt sem hann þurfti að einangra.  Aftur sá maður hvað nefið á þessum dýrum er svakalega öflugt.  

Bergur á það til að vera stundum óþarflega harðhentur við Goða og við erum á fullu þessa dagana að fá hann til að handleika kvikindið í samræmi við genfarsáttmálann. Goði kemur sér bara í burtu í rólegheitunum ef Bergur er eitthvað leiðinlegur og fyrirgefur honum allt sama hvað gengur á. 


Kv. 

Kej.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Inga Sveinbjörg Ásmundsdóttir
Inga Sveinbjörg Ásmundsdóttir

Þetta blogg er dagbók 4 manna fjölskyldu í Reykjanesbæ.

Upphaflega var hugmyndin með þessu bloggi að leyfa áhugasömum að fylgjast með framvindu þjálfunar á border collie hundi sem við fengum um árámótin 2008. Markmið þjálfunar var m.a. að kenna hundinum honum Goða að passa upp á hann Berg sem er einhverfur 13 ára drengur. Við vildum líka geta horft til baka og skoðað þetta aðeins í baksýnisspeglinum. 

Bloggið hefur síðan þróast aðeins  og hinar og þessar hugleiðingar hafa dottið hingað inn og ekkert endilega tengdar honum Goða sem bloggið er þó nefnt í höfuðið á. 

Allir þeir sem hafa áhuga á að fylgjast með okkur og jafnvel koma með innlegg eru velkomnir. Fjölskyldumeðlimir eru:

Kristinn Edgar Jóhannsson

Inga Sveinbjörg Ásmundsdóttir

Bergur Edgar Kristinsson

Gyða Sveinbjörg Kristinsdóttir

Goði Freyr Gyðuson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 33
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 33
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Myndaalbúm

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Teppi
  • Hetta
  • ...imag0101
  • ...090228_2_31
  • ...skur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband